08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er auðvitað rétt að sú flugstöð sem hér á að reisa er nokkuð dýr. Flugstöðvar eru dýrar. Það er líka rétt að hún er stór miðað við þær flugstöðvar sem við höfum haft. Þær hafa verið of litlar. Sannleikurinn er sá, að sú aðstaða sem er fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli getur ekki flokkast undir annað en ónýtan skúr og er þjóðinni til skammar. Ég verð að segja það eins og er, að í hvert skipti sem ég kem þarna suður eftir fyrirverð ég mig einkum gagnvart erlendum gestum að þeim sé vísað í þetta afhýsi sem nefnd er flugstöð. Að mínum dómi hefur það verið mikill smánarblettur á þjóðinni lengi að hafa ekki búið betur að alþjóðlegum flugsamgöngum en raun ber vitni.

Nú vitum við reyndar að við höfum átt kost á því um nokkurra ára bil að koma þessum málum betur fyrir og hefja þessar framkvæmdir. Hefði verið betur ef farið hefði verið fyrr af stað með þær. Þá hefði kannske ekki staðið eins illa á í þjóðfélaginu og raun ber vitni, ekki verið búið að safna jafnmiklum erlendum skuldum og raun ber vitni nú. Þau rök sem menn hafa nú í þeim efnum hefðu þá ekki átt við í þeim mæli sem þau hugsanlega geta átt við nú.

En þegar menn skoða hins vegar þetta mál og standa frammi fyrir því að við verðum að reisa nýja flugstöð fyrir alþjóðaflugið, þá vil ég benda á að jafnvel þótt menn hafi talað um að hafa eitthvert annað byggingarlag á þessu húsi hefur ekki komið fram nein hugmynd sem sannanlega hefði minni útgjöld í för með sér fyrir Íslendinga. Menn hafa gagnrýnt að Bandaríkjastjórn taki þátt í kostnaði, jafnframt því sem menn hafa sagt að flugstöðin væri of stór. Þær hugmyndir sem þessir aðilar hafa kynnt um flugstöðvarbyggingu hafa borið með sér að útgjöld Íslendinga, miðað við þeirra hugmyndir, mundu verða enn þá meiri. Það er líka rétt, þegar við horfum á svo stórar tölur sem hér um ræðir og ég segi að vitanlega er sú tala stór, að menn geri sér grein fyrir því að hér er ekki um ársútgjöld að ræða, heldur útgjöld sem færast á mörg ár. Þegar menn taka samanburðartölur ættu menn að líta á það.

Það kom fram í einni ræðunni áðan að kostnaður á rúmmetra eða fermetra í þessari byggingu væri samkvæmt áætlun mjög hár miðað það sem menn hefðu kynnst hér, íslenskir arkitektar t.d., um verð á byggingum sem þeir teldu helst sambærilegar. Í þessu sambandi vil ég einungis segja að ég vona að menn reynist sannspáir um að þessar áætlanir séu ívið háar, og mér getur vel sýnst líka að þær séu ívið háar, og raunkostnaðurinn muni verða þó nokkuð lægri og þá geta menn fagnað því þegar þar að kemur.

Auðvitað sjá menn eftir þeim fjármunum sem til þessara hluta fara og geta látið sér detta í hug ýmislegt annað sem okkur langar til að gera. En að mínum dómi er hér um svo óviðunandi ástand að ræða að ekki verður fram hjá því komist að ráðast gegn því. Þess vegna verður að ráðast í þessa framkvæmd á Keflavíkurflugvelli svo að þar sé búið að mönnum með sæmilegri reisn, þar á meðal þeim erlendu gestum sem hingað koma, þannig að menn þurfi ekki að fyrirverða sig fyrir þá aðstöðu sem þar er. Það er í rauninni kjarni málsins.