08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig sammála hv. þm. Kjartani Jóhannssyni um að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er svo sem ekkert sérlega beysin og auðvitað hefði verið meiri mannsbragur á því að taka á þessu verkefni fyrir allmörgum árum, þegar umferð um Keflavíkurflugvöll var miklu meiri en nú. Farþegum hefur nefnilega fækkað mjög í Keflavík. Þekkja þm. sjálfsagt hvernig á því hefur staðið.

Ég get ekki fallist á að flugstöðin sé svo aum að ekki sé neinum í hana bjóðandi. Hún er auðvitað að hluta til gömul og léleg, en sumt af henni er viðunandi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við hefðum átt að reisa flugstöð á Keflavíkurflugvelli, eins og önnur mannvirki af því tagi hér í landinu sem við höfum auðvitað þurft að nota, og gera það þá sjálfir, án þess að þurfa að betla peninga af útlendingum fyrir verkefninu, sem er auðvitað hreint hneyksli.

Saga flugstöðvarbyggingarinnar er orðin býsnalöng. Ég man ekki hvenær við fengum mikið og voldugt fyrirtæki í útlöndum, Kampsax, til að gera fyrir okkur áætlun um flugstöð hér á Keflavíkurflugvelli, síðan eru líklega nær tveir áratugir, einhvers staðar á milli 15 og 20 ár. Þá stóð þannig á að mjög margar flugvélar millilentu hér á Íslandi á leið til Bandaríkjanna, vegna þess að flugdrægni þeirra var minni en nú, og það borgaði sig að lenda hér vegna þess að það var tiltölulega lítill aukakostnaður af því. Nú hins vegar, þegar olían er orðin svo dýr eins og raun ber vitni, kostar of mikið að lenda hér á Íslandi. Millilending hér eykur kostnaðinn á flugferðinni frá Evrópu til Bandaríkjanna um ca. 15–20% og það er of mikið þegar menn eru að slást á mjög lágum fargjöldum á þessari leið.

Á þeim árum sem þessi áætlun var gerð í samráði við danska og franska sérfræðinga settust þeir við, hinir færustu menn, og könnuðu hversu hratt farþegafjöldinn yxi á þessari flugstöð. Og aukningin var mjög hröð á þeim árum. Hún var ég man ekki hvað mörg prósent á ári, 10–15% á ári, jafnvel meira, og slík fjölgunarkúrfa stefnir auðvitað beint til himins. Síðan reiknuðu þeir þetta fram til 1980 eða 1990 og fengu það út samkv. hárréttum tölum auðvitað, að hér í Keflavík yrði viðkoma farþega nokkur hundruð milljónir á ári eða sem svaraði öllum Indverjum einu sinni á ári. Þetta er ekki neitt grín eða skrök, heldur staðreynd. Í samræmi við það gerðu þeir áætlun um gífurlega mikið mannvirki. Skýrslan, sem mig minnir að hafi verið áfangaskýrsla eins og stundum er, var upp á þrjú gífurlega stór bindi. Ég held að þessi skýrsla ein hafi verið miklu umfangsmeiri en samanlögð verk Halldórs Laxness og var þó auðvitað ekki lokaskýrsla.

Mönnum hraus auðvitað hugur við þessum ósköpum og hættu við allt saman. Þeir flettu bókinni sér til skemmtunar. Það gerði ég raunar líka. Ég hafði aðgang að henni. Hins vegar hef ég ekki haft neinn aðgang að upplýsingum um þessa flugstöð, ekki nema útlitsmynd í Morgunblaðinu þar sem mér fannst þetta af flugstöð að vera dálítið undarlegt hús, geysilega þykkir steinveggir og hvolfþök og dýrt og mikið fyrirtæki og ekki í neinum stíl við það verkefni sem þetta fyrirtæki á að sinna. Það má vel vera að það sé að hluta til misskilningur hjá mér. En hvernig stendur á því að þm. hv. fá ekki að vita meira um þessar áætlanir? Það eru hvorki meira né minna en 6–7–800 millj. sem við þurfum að leggja í þetta og menn hafa nú fengið upplýsingar út af minni málum en því. Menn eru að rífast hér um milljón hér og þar í vegakerfinu og togast á um nokkur hundruð þúsunda í grunnskólafjárveitingum, í hafnir o.s.frv. Þetta þekkjum við. Upplýsingar um 600–700 millj. í flottheitahús eins og þetta, dýrt hús, liggja ekkert á lausu.

Ég vildi leyfa mér að óska eftir meiri upplýsingum um þessa framkvæmd, kannske einföldustu grunnteikningum og útlitsteikningum svo menn gætu áttað sig á hvað hér er á ferðinni, vegna þess að þarna er auðvitað um gífurlega fjármuni að ræða.

Ég er ekki sömu skoðunar frekar en fyrri daginn og hæstv. utanrrh. og alls ekki á sömu skoðun og hann um að með fínni flottheitaflugstöð aukist hér umsvif og umferð véla. Það held ég sé fjarri lagi. Menn fara ekki að heimsækja flugstöðvar bara til þess að skoða fín hús, heldur lenda menn að sjálfsögðu á eins fáum viðkomustöðum og kostur er. Við höfum því í raun og veru á borðinu hversu margir koma þarna og fara. Sveiflur eru ekki ýkjamiklar og jafnvel þó þær væru talsvert miklar er það tiltölulega lítill hluti af þeim fasta fjölda sem við getum reiknað og höfum reiknað með undanfarin ár og er nú. Eins og efnahagsástandið er hjá þessari þjóð er ekki við því að búast að um aukningu verði að ræða á þessu ári og þeim næstu, ef haldið verður eins fast í kaupið til fólksins sem þarf að nota þessar flugvélar. Við getum meira að segja nokkurn veginn talið upp hversu margir fara hér um á mánuði eða yfir árið, því að langmest af þessu er auðvitað áætlunarflug og má giska á með nokkurri nákvæmni um önnur flug, leiguflug. Það eru svo og svo margar ferðir til Bandaríkjanna, Luxemborgar, svona og svona mikið í Evrópufluginu, Kaupmannahöfn og London og þar með upptalið. Við vitum nokkurn veginn hversu margir koma og fara þarna í gegn og af reynslunni þekkjum við nokkuð hversu miklum peningum menn eyða um leið og þeir fara þarna út eða inn. Þetta eru því ekki neinar dularfullar staðreyndir, heldur liggur nokkurn veginn ljóst fyrir.

Ég tel að við hefðum átt að byrja á þessu verki miklu fyrr og reisa flugstöð af því tagi þar sem gerður er fyrst ákveðinn kjarni og byggingarlagið haft þannig að hægt sé að bæta við eftir þörfum ef vaxandi verða. Ef menn hafa dálítið kynnt sér hvernig flugstöðvar hafa verið smíðaðar núna á undanförnum áratug, t.d. í Evrópu og raunar miklu víðar, má sjá að menn hafa einmitt notað þessa aðferð til að þurfa ekki að binda allt of mikið fé miðað við þá veltu sem þarna verður. Ég t.d. hefði teiknað þetta hús allt öðru vísi, miðað við útlitsteikningu í Mogganum, en hún er kannske ekki betri heimild en annað sem stendur í því blaði.

Ég vildi gjarnan fá, eins og ég sagði, meiri upplýsingar um þetta mál eins og það er lagt fyrir hér. Hér er áætlun gerð um að við tökum eins og nú stendur á hjá okkur 600–700 millj. kr. erlent lán. Það er upphæð sem er talsvert miklu hærri — ja, hún er líklega um fimmfaldir þeir peningar sem fara til allra grunnskólabygginga í landinu á þessu ári svo dæmi sé nefnt. Það er óþarfi að rekja það. Mér finnst allt of flott og allt of mikið í lagt að bæta aðstöðuna í Keflavík með þessum rándýra hætti.