08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Suðurl., sem hélt því fram að farþegum færi fækkandi um Keflavíkurflugvöll. Ég vil taka það fram að með batnandi efnahagsástandi í heiminum tel ég ástæðu til að sú þróun verði að þeim fari fjölgandi. Öllum er kunnugt að farþegunum í Atlantshafsflugi Flugleiða hefur fjölgað.

Ég vil taka það skýrt fram að auðvitað verða þm. veittar allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Sannast sagna hélt ég að þeir hefðu fengið allstóra bók um flugstöðina fyrirhuguðu á Keflavíkurflugvelli. Því plaggi var a.m.k. útbýtt á fundi utanrmn., þannig að það ætti ekkert að vera til fyrirstöðu um upplýsingaöflun þm. til handa.

Hv. þm. greindi nokkuð frá sögu flugstöðvarmálsins og nefndi hina stóru flugstöð sem áætluð var til að byrja með. Ég vil að gefnu því tilefni undirstrika að áætlanir og teikningar af flugstöð á Keflavíkurflugvelli hafa verið endurskoðaðar í ljósi nýrra staðreynda og nýrra spásagna um farþegaumferð um flugvöllinn og flugstöðin eins og hún nú liggur fyrir hefur einnig verið minnkuð þrisvar til að mæta þeirri gagnrýni að við værum að byggja of stóra flugstöð. Það er sannfæring mín að svo sé alls ekki. Hér er um flugstöð að ræða sem verður að vera hlutverki sínu vaxin og því er það sannfæring mín að hér sé fremur um lágmarksstærð nýrrar flugstöðvar að ræða. Og reynslan á vonandi eftir að sýna að við hlið þessarar flugstöðvar rísi aðrar byggingar um leið og sú starfsemi sem fram fer í nýju flugstöðinni krefst meira húsrýmis.

Þá þykir mér hlýða að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 7. landsk. þm. Kristínar Halldórsdóttur. Ég ætla mér ekki að jafna saman nytsemi fjárframlaga til Lánasjóðs ísl. námsmanna og þeirrar fjárskuldbindingar sem við undirgöngumst í tengslum við byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. En þótt menn beri fyrir brjósti fjárhag Lánasjóðs ísl. námsmanna er alveg óþarfi að gera of lítið úr nytsemi mannsæmandi aðbúnaðar starfsfólks og farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll. Það eru ekki eingöngu hinir efnameiri Íslendingar sem það gera, heldur er sem betur fer svo komið að ferðalög til útlanda eru orðin almenningseign. Ég held að það hafi verið eitthvað um 80 þús. Íslendingar sem fóru til útlanda á liðnu ári. Þess vegna hygg ég að þessi bygging komi öllum Íslendingum að gagni sem aðalflugstöð landsins og það sé rökrétt röð framkvæmda að ganga mannsæmandi frá þessari flugstöð, jafnvel áður en unnt er að byggja flugstöðvar við alla flugvelli landsins. Í það minnsta á flugstöð þarna síst af öllu að sitja á hakanum og vera síðust í röðinni.

Þegar ég sagðist vonast til þess að aukinn hagnaður af nýrri flugstöð gæti risið undir afborgunum og vöxtum af því láni sem óskað er eftir heimild til að taka, þá kvaðst ég tala þar af bjartsýni. En til þess að nefna hvað í fang væri færst lét ég þess getið að hagnaður af fríhöfninni væri nægilegur til að standa undir afborgunum og vöxtum af því láni. Auðvitað er sá hagnaður innifalinn í núverandi tekjum flugvallarins, en þá má aftur benda á að af þeim tekjum er t.d. á yfirstandandi ári ætlað að greiddar séu í ríkissjóð 10 millj. kr. Hagnaður af Keflavíkurflugvelli stendur því að vissu leyti undir útgjöldum ríkissjóðs á öðrum sviðum og ef unnt er að auka þann hagnað er unnt að veita meiri fjármunum til framkvæmda flugmála annars staðar á landinu eða annarra nýtra þarfa þjóðfélagsins alls.

Hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson varpaði fram þeirri fsp. hve mikill hluti af framkvæmdakostnaðinum væri innlendur og hve mikill hluti væri erlendur kostnaður. Ég man ekki nákvæmlega þessa skiptingu, en minnist þess að gjarnan var rætt um að við byggingarframkvæmdir gæti þessi kostnaður skipst til helminga. Þá má vel fallast á það með hv. þm. að æskilegt væri að við öfluðum innlends fjármagns fyrir helmingi af kostnaðinum hér innanlands, en þar sem við vitum að lánsfjármarkaði innanlands er íþyngt mjög með fyrirætlunum um lánsfjáröflun til ýmissa framkvæmda ríkissjóðs og fyrirtækja ríkissjóðs, þá er það ekki raunhæf leið í þessu tilviki. Það er nokkur afsökun að hafa ekki þá viðmiðun til hliðsjónar að óafturkræft framlag fyrir nálægt helmingi kostnaðar fæst erlendis frá og því er erlend lánsfjáröflun af okkar hálfu ekki nema helmingur kostnaðar flugstöðvarinnar í heild. Þótt ég geti hins vegar vel fallist á að æskilegra hefði verið að greiða eitthvað af byggingarkostnaði með innlendri fjármögnun.

Hér er auðvitað verið að veita heimild til heildarlánsfjáröflunar og það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni 3. þm. Reykv., að með samþykkt þessa frv. er Alþingi að fallast á þessa framkvæmd eins og Alþingi gaf grænt ljós á að byrja skyldi á framkvæmdinni með því að heimila 10 millj. kr. lántöku til byrjunarframkvæmda á s.l. ári, en það breytir ekki hinu, að auðvitað verður hér til meðferðar á hv. Alþingi á ári hverju við afgreiðslu lánsfjáráætlunar hve mikils skuli aflað á ári hverju til þessara framkvæmda, þannig að nánari útfærsla verður bundin þeim ákvörðunum þau árin sem byggingarframkvæmdir standa yfir. Í ljósi þessa er rétt að skilja þau orð í grg. frv., sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir gerði að umtalsefni, að slíkt gæti farið eftir efnahagsástandi hverju sinni.