08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Á þskj. 164 sem er 129. mál yfirstandandi hv. Alþingis er frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt en það er árlegur viðburður að leggja fram slíkt frv. Þetta frv. var rætt verulega við 1. umr., síðan sent til hv. fjh.- og viðskn. Nd. og hlaut þar ítarlega umfjöllun. Að henni lokinni skilaði meiri hl. hv. n. nái. á þskj. 238. N. klofnaði um málið. Minni hl. skilaði séráliti og flytur brtt.

Þar sem málið var ekki nægilega rætt fyrir jól var brugðið á það ráð með samþykki allra þingflokkanna að útbúið var nýtt frv. sem varð að lögum hinn 20. des. og þar með urðu tvær greinar frv. sem í upphafi var flutt af hæstv. fjmrh. að lögum fyrir jól. Þess vegna hefur meiri hl. nú lagt fram framhaldsnefndarálit sem er á þskj. 321, kallað aftur fyrri brtt. en flytu; í staðinn brtt. á þskj 322.

Eins og fram hefur komið áður miðast þetta frv. við það að skattbyrði tekjuskatts og sjúkratryggingagjalds verði í heild hin sama sem hlutfall af tekjum greiðsluárs á árinu 1984, þ.e. á yfirstandandi ári, og var á s.l. ári.

Í þjóðhagsáætlun sem lögð var fram á Alþingi í okt. s.l. og í forsendum fjárlagafrv. sem lagt var fram snemma í haust var reiknað með að tekjur hækkuðu um 20% milli áranna 1983 og 1984. En í kjölfar nýrra upplýsinga um ástand fiskstofna vann Þjóðhagsstofnun að endurskoðun á áætlununum um tekjubreytingar milli áranna 1983 og 1984 og niðurstaðan af þeirri endurskoðun er sú að áætlað er að tekjur á mann á árinu 1984 verði 16.5% hærri en tekjur voru á árinu 1984. Hér er um að ræða meðaltalstölur að sjálfsögðu sem auðvitað geta verið breytilegar frá einum einstakling til annars. Þetta eru samanlagðar tekjur allra vinnandi manna eins og þær koma fram á skattskýrslum.

Brtt. meiri hl. eru fluttar til að ná því meginmarkmiði að skattbyrði tekjuskatts og sjúkratryggingagjalds verði óbreytt eins og ég sagði áður. En af þeim ástæðum sem ég hef nú lýst varð að breyta frv. og taka tillit til þeirrar endurskoðunar sem Þjóðhagsstofnun gerði og gera ráð fyrir lækkandi tekjum á milli áranna 1983–1984 úr 20%, eða 21% ef meðtalin er fjölgun gjaldenda, í 16.5%. Tilgangur þessara brtt. er þess vegna að lækka heildarálagningu tekjuskatts og sjúkratryggingagjalds að frádregnum barnabótum og nýttum afslætti um 3%, þ.e. jafnmikið og nemur breytingu á áætluðum tekjum 1984.

Skv. tilefni þessarar lækkunar lægi beinast við að sjálfsögðu að tryggja að lækkunin jafngilti sömu lækkun skattbyrði allra framteljenda. Til þess að ná þessu markmiði fullkomlega hefði þurft að lækka skattprósentur um 3/100 og persónuafslátt og barnabætur um sama hlutfall. Þannig yrði hæsta skattprósenta 43.6% í stað 45% sem er í frv., persónuafsláttur 28 470 kr. í stað 29 350 kr. og barnabætur með einu barni 5820 kr. í stað 6000 kr.

Meiri hl. telur þó rétt að í stað þess verði gengið enn lengra í ívilnunum til hinna tekjulægstu og til fjölskyldna með börn en þegar er gert með þeim breytingum sem fetast í ákvæðum frv. eins og það var lagt fram í upphafi. Þannig verði hvorki persónuafsláttur né barnabætur lækkaðar frá ákvæðum frv. Því er óhjákvæmilegt að skattbyrði hinna tekjuhæstu aukist nokkuð og þess vegna lagt til að efsta skattprósentan lækki einungis í 44%. Á sama hátt er gert ráð fyrir að skattprósenta félaga verði einungis lækkuð í 50% en ætti að vera 49.5% skv. þeim forsendum sem ég hef rakið.

Þær breytingar sem meiri hl. gerir á þskj. 322 eru í fyrsta lagi að skattstigi tekjuskatts verði af tekjum að 170 þús. 22.75% en í frv. var gert ráð fyrir 23%, af tekjum frá 170–340 þús. kr. skattstofni komi 31.5%, en var 32% í frv. og af skattstofni þar fyrir ofan verði tekið 44% í stað 45% eins og var í frv. Og loks að skattprósenta félaga verði 50% í stað 51% eins og var í upphaflega frv.

Í stórum dráttum verður dreifing skattbyrðar eftir þessar breytingar mjög svipuð því sem að var stefnt með frv. Þó lækkar skattbyrði flestra undir meðaltekjum nokkuð á kostnað hinna tekjuhæstu í samræmi við það sem fyrr segir í og samræmi við þá stefnu sem ríkisstj. fylgdi þegar hún lagði frv. fram í upphafi og tekur það mið af efnahagsástandinu.

Í 4. lið á þskj. 322, sem eru brtt. meiri hl. -en meiri hl. samanstendur af hv. þm. Páli Péturssyni, Friðriki Sophussyni, Þorsteini Pálssyni og Geir Hallgrímssyni — er lagt er til að inn komi ný grein á eftir 8. gr. frv. og hún orðist svo:

„Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“

Þessi nýja brtt. á rætur að rekja til þess að í nóv. s.l. komst tölvunefnd að þeirri niðurstöðu að sá aðili sem gefið hefur út slíkar skrár í Reykjavík á undanförnum árum hafi ekki rétt til slíkrar útgáfu vegna gjaldársins 1982. Byggði nefndin þessa afstöðu sína á ákvæðum laga nr. 63/1981 og 98. gr. laga nr. 75/1981 og 37. gr. laga nr. 73/1980. Þessi úrlausn tölvunefndarinnar orkar að sjálfsögðu tvímælis. En til þess að koma í veg fyrir misskilning og taka ákveðna afstöðu til þessa máls flytur meiri hl. þessa brtt. enda er nauðsynlegt að áliti meiri hl. að skattskráin geti legið fyrir og allir hafi aðgang að henni þegar endanlega hefur verið lagt á og kærufrestur er liðinn.

Í 5. lið brtt. er gert ráð fyrir því að 9. gr. frv. falli niður en hún varð að lögum hinn 20. des. s.l. ásamt 1. gr. frv. nokkuð breyttri. Nauðsynlegt var að ganga þannig frá þessu máli til þess að hægt væri fyrir ríkisskattstjóra að gefa út leiðbeiningar varðandi skattframtöl.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja frekar álit meiri hl. Undirstrika þarf rækilega að stefnan sem hæstv. ríkisstj. fylgir í þessu máli er sú að skattbyrði einstaklinga og heimila miðað við tekjur á gjaldárinu verði sú sama að meðaltali og hún var árið áður. Þetta þýðir m.ö.o. að menn með samsvarandi tekjur eru nákvæmlega jafnlengi að vinna fyrir beinum sköttum til ríkisins og þeir voru árið áður. Auðvitað er það rétt að tekjur manna geta breyst, hjá sumum lækka þær, hjá öðrum hækka þær. Til þess er ekki hægt að taka tillit í þessum brtt. né heldur í frv. fremur en gert hefur verið á undanförnum árum en þá hefur verið miðað við almennar launabreytingar í þjóðfélaginu og venjulega gert með svokallaðri skattvísitölubreytingu í fjárlagafrv. og fjárlögum á hverjum tíma.

Þegar umr. verða um þessi skattamál er oft gripið til þess ráðs að leggja saman útsvör sem renna til sveitarfélaga og beinu skattana sem renna til ríkisins. Vissulega er rétt að þegar þessir tvenns konar skattar eru lagðir saman getur orðið hækkun ef sveitarfélögin treysta sér ekki til að lækka útsvör í sama hlutfalli og hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið með flutningi þessa frv., verði það að lögum.