08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil vekja athygli manna á því að nú er Alþingi að afgreiða grundvallaratriði undir skattlagningu í landinu og er þegar séð að það verður ekki afgreitt þegar framtalsfresti lýkur. Einstaklingar neyðast því til að ganga frá framtölum sínum án þess að hafa hugmynd um eftir hvaða ákvæðum á að leggja á þá skatt. Af þessu tilefni vil ég beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. fjmrh. að hann beiti sér fyrir því við skattstjóra landsins að þeir verði rýmilegir við fólk þegar það óskar eftir frestun á framtalsskilum með skírskotun til þess að við hljótum að vera sammála um það, hæstv. fjmrh. og ég, að hvorki er æskilegt né siðlegt af stjórnvöldum að gera ráð fyrir að framtalsfresti einstaklinga sé lokið áður en hv. Alþingi hefur afgreitt þær reglur sem nota á við álagningu opinberra gjalda á þetta fólk.