09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt tveimur öðrum hv. þm., þeim Páli Péturssyni. hv. 2. þm. Norðurl. v., og Þorv. Garðari Kristjánssyni. 4. þm. Vestf., að flytja svohljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að í grunnskólanámi verði kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar aukin og við það miðuð að nemendur öðlist ekki aðeins þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar heldur og trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast í aldir“.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja því ég geri ráð fyrir að allir hv. þm. hafi fylgst með þeirri umr. sem átt hefur sér stað að undanförnu hér, einkanlega í blöðum, um kennslu í Íslandssögu í grunnskóla, bæði að því er varðar kennslu, kennsluhætti og menntastefnu. Svo sem eðlilegt hlýtur þar að teljast hafa komið fram ýmis sjónarmið býsna ólík og því er ekki að neita að ýmsir hafa af því verulegar áhyggjur að nemendur sem ljúka grunnskólaprófi séu í sumum tilvikum næsta fáfróðir um sögu þjóðar sinnar, en þekking á sögu þjóðarinnar hlýtur þó ásamt móðurmálsnámi að teljast einn af veigamestu grundvallarþáttum hins íslenska menntakerfis.

Fyrir nokkru birtu blöð niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð hafði verið á söguþekkingu hjá almenningi hér á landi. Nú er það auðvitað svo að slíkar skoðanakannanir ber ekki að taka bókstaflega, en vissulega gefa þær vísbendingu sem ekki er ástæða til að horfa fram hjá.

Dagblaðið Tíminn skýrði m.a. frá niðurstöðum þessarar skoðanakönnunar með eftirfarandi hætti: „Söguþekking LG-20 ára Íslendinga bágborin: Aðeins 13.1% vissu um fyrsta forseta Íslands. Aðeins 58.8% vita að Sveinn Björnsson var fyrsti forseti íslenska lýðveldisins samkv. skoðanakönnun sem fyrirtækið Kaupþing gerði nýlega. 17.5% héldu að það hefði verið Jón Sigurðsson, 5.7% að það hefði verið Ásgeir Ásgeirsson og heil 18% sögðust alls ekki vita það“.

Enn fremur segir hér, með leyfi forseta: „Íbúar höfuðborgarsvæðisins virðast samkvæmt könnuninni vera aðeins betur að sér en fólk úti á landsbyggðinni, en 62.7% svöruðu spurningunni rétt. Í þéttbýli annars staðar á landinu svöruðu 55.9% rétt, en 52.9 í dreifbýli. Sé þeim, sem spurðir voru, skipt niður í aldurshópa kemur í ljós að aðeins 13.1% fólks á aldrinum 16–20 ára svaraði rétt. Eftir því sem fólk eldist virðist það betur að sér, en 83.9% fólks á aldrinum 56–67 ára vissi hver var fyrsti forseti lýðveldisins.

Hvenær var kristni lögtekin?

Þeirri spurningu svöruðu 49.8% rétt, en 50.2% rangt. Óverulegur munur var á svörum fólks eftir aldri, en 57.8% kvenna vissu svarið, en aðeins 41.9% karla.“

Þessar niðurstöður skoðanakönnunarinnar, sem vissulega eru aðeins vísbending, hljóta að verða okkur öllum alvarlegt íhugunarefni.

Eins og ég vék að áðan hafa átt sér stað umræður og mikil greinaskrif í blöðum að undanförnu um þetta efni. Einn þeirra sem lagt hafa orð í belg í þessari umr. um sögu og menntastefnu er Arnór Hannibalsson lektor við heimspekideild Háskóla Ístands. Hann ritaði grein í Morgunblaðið viku af desember þar sem m.a. segir á þessa leið, með leyfi forseta:

„Frumgrunnur og tilveruforsenda smáríkis er ævarandi barátta þess fyrir fullveldi og sjálfstæði. Höfuðverkefni ríkisins er að skapa samstöðu allrar þjóðarinnar í þeirri baráttu. Ríkið hlýtur að beina orku sinni að því að Íslendingar öðlist ekki aðeins þekkingu og skilning á þjóðarsögunni heldur og að þeir hafi vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem við höfum komið okkur upp. sjálfstæðisbaráttunni lýkur aldrei. Smáþjóðin á ætíð undir högg að sækja. Við ráðum því ekki hvað stórveldin telja sér í hag. — Líf okkar hér á Íslandi ber að skoða í ljósi baráttu okkar fyrir þjóðréttindum, bæði í fortíð og nútíð. Sé á því slakað, hvort heldur er í stjórnmálum, söguritun eða skólastarfi, erum við að svíkja sjálfa okkur.

Þar með er ég ekki að segja,“ segir áfram í þessari grein, „að ríkisvaldið eigi að segja sagnfræðingum fyrir verkum eða gefa út reglur um „viðurkennd vinnubrögð“ sagnfræðinga. En það er tími til að íhuga hver skuli vera stefnan í menntunarmálum þjóðarinnar“.

Flm. þessarar þáltill. taka undir þessi orð og telja ríka ástæðu til þess að Alþingi lýsi stefnu sinni í þessu mikilvæga máli með ályktun.

Ýmsum kann að þykja það orka tvímælis þar sem segir hér í tillgr. að kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar skuli ekki aðeins aukin, heldur og við það miðuð að nemendur öðlist ekki aðeins þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar heldur og trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast ellefu aldir. Það kann að vera að ýmsum þyki þetta orka tvímælis, en ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera þáttur sögukennslunnar hér að efla með nemendum trú á landið og efla trú á það menningarsamfélag sem við höfum komið hér upp. Það má auðvitað spyrja sem svo: Hvað er það öðru fremur sem gerir okkur að þjóð? Það er auðvitað tungan, sagan og landið — það er þetta allt og meira til, það er þjóðarsálin, andrúm landsins og allt okkar umhverfi.

Á síðustu öld fór þjóðernisvakning um lönd og álfur, sem var aflvaki ótrúlegra framfara víða á Vesturlöndum, og fyrir frumkvæði ungra Íslendinga, sem þá stunduðu nám og störfuðu í Danmörku, tók íslenska þjóðin að vakna til vitundar um sjálfa sig, um þjóðerni sitt, um mál sitt og menningu. Í Nýjum félagsritum, sem út voru gefin að forgöngu Jóns Sigurðssonar og fleiri góðra manna, birtist árið 1845 vakningargrein eftir sigurð Melsteð sem seinna varð prestaskólakennari. Greinin bar yfirskriftina „Um þjóðerni“. Þar segir m.a. á einum stað, með leyfi forseta:

„ ..Þjóðernið er fólgið í öllu andlegu lífi þjóðanna, en er ekki bundið við málið eitt og bókmenntirnar, þó ég hafi tekið þetta hvorttveggja til, svo sem aðalatriði í þjóðerninu; það kemur einnig fram í öllum störfum og atgjörðum þjóðanna, í lögum þeirra, tilskipunum og allri þjóðtegri háttsemi. Eigi sannleikurinn að vera arðsamur og ávaxtarsamur í mannlegu lífi, ef menntunin á að vera annað en dautt nám, hlýtur hún að birtast hjá hverri þjóð á eðlilegan hátt, og í þjóðlegum búningi; þjóðirnar geta ekki tekið nokkrum framförum til hlítar, þær geta ekki náð neinum andlegum þroska með öðru móti en þær leggi allan hug og stund á að vernda hinn þjóðlega blæ á allri menntun sinni og lífsháttum, og halda honum við; en þessi blær er þjóðernið. Þjóðernið er heilagt, og réttindi þess eru órjúfanleg, eins og það er heilög skylda hvers manns að laga skapferli sitt, hreinsa hugarfar og siðferði ... Kristin trú hefur fyrst vakið sanna skoðun á þjóðerninu, því eins og hún kenndi að réttindi allra manna væru jöfn upphaflega, og með því afmáði þrældóm allan og ánauð, svo leiddi hún og í ljós þau sannindi, er áður voru ókunn, að allar þjóðir ættu sama rétt upphaflega, að „enginn væri munur á Grikkjum og Gyðingum“, en að hver þjóð væri limur hins mikla þjóðfélags eður grein af mannkyninu.“

Síðan þetta var ritað eru um 140 ár og það er jafnsatt í dag og það var þá. En ég hygg að ýmsum hafi svo virst að undanförnu að nokkuð hafi daprast tilfinning okkar fyrir þjóðerninu og fyrir menningarverðmætum, máli okkar og sögu. Nú kann vel að vera að þetta mál sé ekki rétt, en sé þetta rétt held ég að við þurfum verulega að sporna við, íhuga okkar gang og freista þess að bæta þar úr.

Nú legg ég á það þunga áherslu að enginn má skilja orð mín á þann veg að ég sé að skera upp herör og krefjast þess að þjóðerni og þjóðernisstefna sé sett í öndvegi framar öllu öðru. Öfgafull þjóðernisstefna er hættuleg og hrikaleg dæmi sögunnar sanna okkur það. Öfgastefnur af hverju tagi sem er eru hættulegar. Heilbrigt þjóðarstolt er allt annað en þjóðremba. Við eigum að vernda og varðveita íslenskt þjóðerni, jafnframt því sem við tileinkum okkur það besta úr menningarstraumum annarra þjóða. Svo ég vitni enn á ný til ritgerðar Sigurðar Melsteð, þá segir þar einnig með leyfi forseta:

.. Það er fullkominn misskilningur á eðli þjóðernisins, að leitast við að sporna við öllu útlendu, af því að það sé útlent, og byggja út öllu, sem er ekki beinlínis runnið af þjóðlegri rót; þjóðirnar verða eintrjáningslegar ef þær einblína alltaf á sjálfar sig en líta ekki til annarra; þá fer þeim eins og þeim manni, sem alist hefur alla ævi upp í heimahúsum og aldrei komið á mannfundi, þær verða sérgóðar og ósveigjanlegar á alla vegu ... því eins og maður er manns gaman, eins og samtök og samræður efla framfarir mannlegs anda, svo eru samgöngur og félagsskapur á milli þjóða eitt hið öflugasta ráð til að gera þjóðarandann fjölhæfan og forða lífi hverrar þjóðar frá því að verða einræningslegt“.

Viðhald og efling íslensks þjóðernis þýðir ekki að við eigum að einangra okkur frá öðrum. Við eigum að miðla öðrum því besta úr okkar margslungna og auðuga menningararfi og umfram allt eigum við að hlúa að þeim verðmætum sem við eigum. Að því miðar m.a. þessi þáltill. Hún miðar að því að kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar verði efld í grunnskólum þannig að nemendur viti meira um sögu þjóðar sinnar og séu betur að sér um hvernig líf þessarar þjóðar hefur þróast um aldirnar. Það er einn megintilgangurinn með þessari till.

Eins og ég sagði áðan kann vel að vera að ýmsum þyki að hér sé kannske farið inn á einhverjar brautir þar sem Alþingi ætti ekki að gera ályktanir, en ég er þeirrar skoðunar að Alþingi ætti vissulega að gera hér ályktanir. Ég tek skýrt fram að ekki er verið að vega að einum eða neinum með þessari till. Tilgangur hennar er fyrst og fremst að færa sögukennsluna í þann farveg sem till. gerir ráð fyrir, auka hana og efla.

Það fór svo að flm. þessarar till. eru aðeins úr þremur þingflokkum, en ég vil gjarnan láta þess getið að öllum þingflokkum var gefinn kostur á að eiga meðflutningsmenn að þessari till. En það fór svo að aðeins fulltrúar þriggja flokka þágu það. Nú þarf það ekki að gefa til kynna andstöðu við efni till. þó að svo hafi farið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Þar sem einn af flm. till. hefur í dag boðað veikindaforföll mælist ég til að umr. verði ekki lokið á þessum fundi, heldur verði henni frestað, en þegar umr. lýkur hér verði málinu vísað til allshn.