09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2742 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa till.

Ég lýsi því yfir að fyrir mitt leyti ætti ég afar erfitt með að taka undir þann tillögutexta sem hér liggur fyrir. Það er ekki vegna þess að ég sé ekki sammála því að haldið skuli uppi góðri kennslu í sögu Íslands í grunnskólum landsins, heldur álít ég að það verði að endurskoða það sem stendur í sjálfum textanum. Ég held að við getum orðið sammála um það, hv. þm. Eiður Guðnason og ég, að dálítið varasamt er að lýsa því yfir að stefnt skuli að því að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast. Í mínum málskilningi þýðir það að fyrst og fremst skuli halda því í horfinu en ekki efla það og bæta á alla lund. Ég held því að tillgr. þyrfti eitthvað að athuga.

Hins vegar er mér ekki ljóst hvers vegna þessi till. er komin fram núna. Skoðun mín er nefnilega sú, að sögukennsla sé mun betri í skólum nú en hún var áður. Ég skal í stuttu máli gera grein fyrir hvers vegna ég segi það.

Sú mannkynssaga og sú Íslandssaga sem ég lærði, og ég geri ráð fyrir þar með flestir hv. þm., var saga yfirstéttarinnar. Hún var ekki saga fólksins í þessu landi. Við komumst í gegnum allt skólakerfið, til stúdentsprófs a.m.k., án þess að hafa hugmynd um einföldustu staðreyndir úr lífi alþýðu þessa lands. Við vorum hins vegar látin læra allt um helstu fyrirmenn. Það er vissulega áhyggjuefni að menn viti ekki hver var fyrsti forseti Íslands, en þó finnst mér annað skipta verulega miklu meira máli sem ekki var kennt þegar ég lærði sögu. Ég hygg af reynslu minni af mínum eigin börnum að heldur meira sé nú reynt að gefa börnunum einhverja hugmynd um það líf sem var lifað í þessu landi á árum áður en þegar ég var í skóla.

Annað er það sem a.m.k. í minni tíð féll blessunarlega úr sögukennslu þjóðarinnar og það var saga íslenskra kvenna. Þær virtust ekki hafa lagt mikið til þjóðfélagsins á þeim tímum. Ég vænti þess að nýlega menntaðir sögukennarar reyni nú frekar að taka það kyn með en gert var þá.

Þá skal Alþingi Íslendinga nú leggja þær skyldur á herðar sögukennara landsins að gefa ungu fólki trú á lífið og tilveruna í þessu landi. Ja, þeim er ekki lagt lítið á herðar. Sannleikurinn er sá, hv. þm. Eiður Guðnason, að það er hlutverk alþm. þjóðarinnar að efla með börnum landsins þá trú. Við skulum ekki víkjast undan því og skipa sögukennurum þjóðarinnar að klóra í bakkann fyrir okkur.

Þá mætti benda hv. þm. Eiði Guðnasyni og útvarpsráðsmanni á að sinna því líka í útvarpsráði að efla trú manna á tungu og menningu í þessu landi. Ég vil benda honum á að hlusta eins og dagstund á málfar í Rás 2 og vita hvort honum finnst það vera sérstaklega íslenskri tungu til framdráttar. Þá mætti hann gjarnan setjast niður, sem hann gerir eflaust oft, og hlusta á bullið sem veltur yfir þjóðina í formi útvarpsauglýsinga og sjónvarpsauglýsinga. Það er nefnilega ekki hægt að gera svona lagað afmarkað. Það þarf að gera samstillt átak og vera alvara í þessu máli.

Grunur minn er sá, að þessi till. fengi svipaða meðferð og þær umr. sem nú standa yfir um fræðslu um uppeldi til friðar sýna. Fjölmiðlar jagast nú um hvort ekki sé alveg gulltryggt að í fræðslu um uppeldi til friðar verði lögð áhersla á að það sé Íslendingum lífsnauðsynlegt að taka þátt í hernaðarbandalaginu NATO. Ég held ekki að virðing Alþingis aukist að neinu fyrir svona hræsnisbull.

Hér segir í grg., með leyfi forseta, og þetta er lagt fyrir okkur alþm.: „Við ráðum því ekki hvað stórveldin telja sér í hag.“ Vissulega ekki, en er í þessu falið að við eigum þar með að taka því þegjandi sem þeim kann að detta í hug? Ég held að þessi mál verði að skoða í einhverri heild.

Það er hárrétt sem hv. þm. sagði áðan að á síðustu öld varð mikil vakning meðal menntamanna í Kaupmannahöfn til bjargar íslensku þjóðinni. En hvernig fór sú vakning fram? Hún fór fram þannig að þar voru nokkrir menn sem skildu samhengið milli skáldskapar, milli tungumáls og milli menningar. Hv. alþm. vita það e.t.v. ekki, en Jónas Hallgrímsson var ekki einungis gott skáld, hann var ekki minni stjórnmálamaður. En hann var djarfari en stjórnmálamenn nú til dags.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum að vegna þess að ég held að svona till. sé fyrst og fremst yfirborðsleg. Ég er sammála flm. um að gera þarf verulegt átak til að efla með æsku landsins trú á land og þjóð. En ég er ekkert viss um að hún vilji varðveita það menningarsamfélag sem hún lifir nú í. Ég held að hún telji að það þurfi að batna töluvert til þess að hægt sé að hafa trú á því. Það er hlutverk okkar hér að bæta úr þessu. Og er ég alveg viss um að hv. þm. eru allir tilbúnir að taka höndum saman við það verk.

Ég vil því lýsa því yfir að að óbreyttu tel ég mig tæplega geta samþykkt þessa till. Ég er auðvitað fús til að skoða hana með opnum huga, en legg á það áherslu að hér þurfi að taka margt inn í fræðslu um líf og starf íslensku þjóðarinnar, fleira en hvenær fyrsti forseti tók við embætti eða hvenær síðasti kóngur dó og annað þess háttar. Það eru aðrir þættir sem þurfa að koma inn í sögukennslu þjóðarinnar.