09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2745 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Mér þykir fyrir því að ég heyrði ekki framsöguræðu fyrir þessari till., en ég stend upp til þess eins að lýsa fyllsta stuðningi við þá till. sem hér liggur fyrir á þskj. 277 og ég lýsi stuðningi við ýmsar þær röksemdir sem fram koma í grg. með till. Þar er m.a. vikið að því að kennsla í sögunni hljóti að vera ásamt móðurmálsnámi einn af veigamestu grundvallarþáttum menntakerfis á Íslandi.

Ég vil undirstrika það sem segir í þessari till. um trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast í ellefu aldir. Ég hygg að ekki sé ofmetin þýðing þess að fræða hina ungu kynstóð í skólum landsins um hverja fyrirhöfn það kostaði að fá frelsi fyrir íslenskt ríki. Ég hygg að hver einasti árgangur skólabarna eigi að fá fræðslu um hvaða erfiði það var að vera Íslendingur og berjast fyrir því að fá sjálfstæði þjóðar sinnar og menn eigi að fá fræðslu um hver samstaða manna í þessu litla landi kom hér til og hve sterk hún var og menn eigi að fá fræðslu um hvernig framfarir í landinu jukust að mun eftir að þjóðin fékk frelsi. Þetta atriði, að sýna með fróðleik fram á hvernig framfarirnar og frelsið haldast í hendur, skiptir mjög miklu máli fyrir þá kynslóð sem á að sjá um að varðveita frelsi þessarar þjóðar því að ef við eigum að renna stoðum undir áframhaldandi framfarir í landinu verður líka að ríkja skilningur á því að það kostar fyrirhöfn og baráttu að varðveita það frelsi sem fékkst fyrir fyrirhöfn og baráttu. Þess vegna tel ég það illa farið þegar lítið er gert úr þjóðernishyggju. Ég tel að fyrir þjóð eins og okkar, sem er jafnlítil og langt frá öðrum þjóðum, skipti þetta atriði einmitt mjög miklu máli til að auka samheldni manna, auka þrótt þeirra í allri lífsbaráttunni, bæði sinni eigin og sameiginlegri baráttu fyrir lífi þjóðarinnar og frjálsræði landsins. Af þessum sökum sé ég ástæðu til að lýsa yfir fyllsta stuðningi við þá till. til þál. sem hér liggur fyrir.