09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

120. mál, búrekstur með tilliti til landkosta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til. þál. um búrekstur með tilliti til landkosta, markaðsaðstæðna og nýrra búgreina sem ég flyt ásamt öðrum þm. Alþb. og er 120. mál Sþ. Till. er um það að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um búrekstur með sérstöku tilliti til þátta sem taldir eru upp í sex liðum. Ýmsar ástæður mæla með gerð slíkrar áætlunar og skýra margar þeirra sig sjálfar og óþarft að rekja þær en í grg. með till. segir svo um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Brýnt verður að telja að þegar verði hafist handa um að koma á farsælla sambandi milli búskaparhátta og landnýtingar og betra skipulagi fjárfestingar í landbúnaði. Þá er einnig ljóst að eigi að nýta sem best þá möguleika, sem gefast til skipulagningar nýrra búgreina, er heppilegast að það gerist samfara uppbyggingu þeirra. Í þessum efnum sem öðrum yrði það seint að vera vitur eftir á.

Tilgangur þessarar ályktunar er því ekki hvað síst sá að vekja athygli á þeim þáttum landbúnaðarmálanna sem rétt þykir að leggja sérstaka áherslu á og skutu hafa forgang í heildarendurskipulagningu atvinnuvegarins sem vikið er að í 6. lið.“

Í 1. tölul. till. segir að leitast skuli við að færa búrekstur á hverjum stað til betra samræmis við landkosti en nú er. Með landkostum er hér átt við t.d. beitarmöguleika, bæði í afréttum og heimalöndum, ræktað land, ræktunarmöguleika og aðrar náttúrulegar aðstæður. Þörfin á aðgerðum á þessu sviði er óumdeilanleg. Nægir í því sambandi að benda á ofbeit á ýmsum afréttum í landinu eða í heimahögum en vannýtta möguleika á öðrum svæðum. Hefði verið hugað að þessum hlutum í tíma hefði mátt með stefnumörkun í fjárfestingu stýra þannig uppbyggingu í landbúnaði á undanförnum árum að mun betra samræmi ríkti nú hvað þetta varðar. En úr því sem komið er kann að reynast þörf róttækra aðgerða samhliða því sem brýnt verður að telja að framtíðarfjárfestingar í þessum atvinnuvegi komist sem allra fyrst í samhengi við slíka áætlun.

Í 2. lið segir að í framtíðinni skuli stefnt að því að framleiðslan — og hér er átt við landbúnaðarframleiðslu — á hverju svæði og á landinu í heild verði í sem bestu samræmi við markaðsaðstæður innanlands og hagkvæma möguleika erlendis. Leita þarf jafnvægis milli landnýtingar og hagkvæmnisjónarmiða og stefna að arðbærum landbúnaði er nýti sem best landkosti og framleiðslumöguleika hvers svæðis með hliðsjón af markaðsaðstæðum og hagsmunum neytenda.

Hér er auðvitað um margþætt verkefni að ræða. M.a. þarf að tryggja betur en nú er gert að til þess komi ekki að flytja þurfi t.d. daglega neyslumjólk eða aðrar daglegar neysluvörur milli landshluta. Leitast þarf við að samræma sem best hlutföll hinna ýmsu greina landbúnaðarframleiðslunnar markaðsaðstæðum og landkostum á viðkomandi svæði eða í viðkomandi landshlutum. Kanna þarf hvort ekki megi í mörgum tilfellum færa úrvinnslu afurða í meira mæli út á framleiðslusvæðin, skapa þar með atvinnu og minnka flutningskostnað.

Í sambandi við útflutning þarf að hafa hliðsjón af þeim margvíslega iðnaði sem byggir á hráefnum frá landbúnaði og þeirri atvinnu sem slíkum iðnaði fylgir. Ákveðnar tilraunir gefa góða von um að með endurskipulögðu og efldu markaðsstarfi og útflutningi unninnar gæðavöru í hæsta gæðaflokki takist að fá miklum mun hærra verð erlendis fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir en hingað til hefur tekist.

Í 3. lið er rætt um nauðsyn þess að uppbygging nýrra búgreina verði skipulögð með tilliti til aðstæðna, svo sem framboðs á hráefni til fóðurgerðar og annarra veigamikilla hagkvæmnisatriða, ástands vinnumarkaðarins og búsetusjónarmiða. Nýta skal sem best þá möguleika sem skapast til endurskipulagningar hefðbundins búskapar með tilkomu nýrra búgreina og hugsanlegt væri að færa til hefðbundna landbúnaðarframleiðslu í samræmi við lið 1 og 2 í þáltill., segir þar í 3. lið.

Í þessu sambandi er rétt að ítreka nauðsyn þess að skipulega verði að þessum hlutum unnið þegar frá upphafi og leyfum, t.d. til loðdýraræktar, verði dreift um landið með hliðsjón af fóðurframboði á hverju svæði þannig að tilkostnaður við framleiðsluna verði í lágmarki þegar í upphafi og samkeppnishæfni atvinnuvegarins sem mest frá byrjun.

Í sambandi við fiskeldi og fiskrækt er rétt að benda á öran vöxt þessara atvinnugreina í nálægum löndum og undirstrika nauðsyn þess að Íslendingar verði með í uppbyggingu á þessu sviði og tryggi sér hlutdeild í mörkuðum erlendis áður en það verður um seinan. Hér sem og reyndar víðar er full þörf á að vera vel vakandi gagnvart áhuga erlendra aðila til að komast hér inn í íslenskt atvinnulíf. Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga að menn leiti ráða og hafi samstarf við erlenda aðila á meðan verið er að koma nýrri tegund atvinnurekstrar á fót en slíkt eiga að vera tímabundnar undantekningar frekar en regla. Enda bendir margt til þess að við stöndum flestum betur að vígi hvað aðstöðu varðar, t.d. til loðdýraræktar og fiskeldis.

Í 4. lið segir að unnið skuli markvisst gegn frekari eyðingu byggða sem byggja afkomu sína að meira eða minna leyti á landbúnaði og þau svæði sérstaklega styrkt sem nú standa tæpast.

Um þennan lið eiga við ýmis rök fyrri byggðastefnu og gegn búseturöskun. Má í því sambandi benda á þau miklu verðmæti sem liggja í ræktuðu landi og byggingum sem fara munu forgörðum á stuttum tíma ef nytjar afleggjast auk sögulegra og menningarlegra gilda sem í húfi eru. Sagan er mikið rædd í þingsölum í dag og þess vegna les ég þetta aftur: Auk sögulegra og menningarlegra gilda sem í húfi eru. Hér þarf auðvitað landbúnaðurinn sem og aðrar greinar svo sem sjávarútvegur og iðnaður af öllu tagi og hvers kyns nýir atvinnumöguleikar að taka höndum saman ef vel á að vera.

Í 5. lið segir að stefnt skuli að því að í landbúnaði og við úrvinnslu landbúnaðarafurða verði lífskjör jafnari en nú er og sambærilegri við kjör starfsfólks í öðrum greinum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að aðstöðumunur og afkomumunur innan bændastéttarinnar er gífurlegur, ekki síst vegna mismunandi skuldastöðu. Það er skylda stjórnvalda að reyna að jafna fremur en auka þann mun með sínum aðgerðum. Þá verður að forðast eftir mætti að úrvinnsluiðnaðurinn verði starfsvettvangur kyngreindra láglaunahópa sem því miður margt bendir til að nú sé og það í vaxandi mæli.

Í 6. og síðasta lið till. er svo fjallað um að slík áætlun sem hér um ræðir verði liður í heildarstefnumörkun í landbúnaði sem nauðsynlegt sé að fylgi í kjölfarið.

Slík heildarstefnumörkun er auðvitað stórt en engu að síður nauðsynlegt verkefni og stjórnvöld mega ekki ýfa slíku á undan sér með skyndiráðstöfunum og bráðabirgðalausnum endalaust.

Herra forseti. Það er von mín að hæstv. ríkisstj. bregðist vel við þeirri till. sem hér er flutt ef samþykkt verður. Jafnframt er von mín að hv. þm. séu mér sammála um að í landbúnaði sem og í öðrum atvinnuvegum sé þörf skipulagningar, uppbyggingar og áætlunargerðar sem byggi á bestu fáanlegum upplýsingum um landsins gæði og möguleika og þarfir þjóðarinnar til að nýta þau á farsælan hátt.

Herra forseti. Að loknum þessum hluta umr. legg ég til að till. þessari verði vísað til hv. atvmn.