26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til þess að beina fyrirspurn til fjmrh. í tilefni af grein sem birtist í Alþýðublaðinu í fyrradag, þriðjudaginn 25. okt. Aðdragandi þeirrar greinar er sá að Þorkell Bjarnason, hrossaræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, lét þau orð falla í Búnaðarriti 1983 að hæsta verð á pappírnum fyrir stóðhesta væri 150 þús. kr. Í tilefni af þessu er tekið viðtal við Þorkel Bjarnason í Alþýðublaðinu í fyrradag. Hann segir í því viðtali m.a. að töluvert sé um að hestar séu fram taldir á lægra verði en hið raunverulega verð sé, að þeir séu að töluverðu leyti borgaðir undir borðið. Og allt gerist þétta á bak við tjöldin. Með leyfi forseta vil ég lesa örfáar línur úr þessu viðtali svo að glöggt komi í ljós hvað hann hefur um málið að segja. Hann segir:

„Betri hestar eru á pappírnum sagðir hafa verið seldir á t.d. 100 þús. kr. meðan raunverulegt söluverð hefur verið 130–150 þús. Þetta á ekkert síður við um hryssur en stóðhesta, maður hefur komist í þá stöðu að sjá að uppgefið verð á hryssum sé kannske 30 þús. kr., en raunverulegt söluverð hefur verið 50–60 þús. kr. En þetta gerist á bak við tjöldin og erfitt að sanna fyrir víst.“

Mönnum finnst þetta kannske ómerkileg frétt. En ef mönnum finnst það þá er það af því að við erum sokkin í spillingu. Það sem hér er að gerast er það, að sá aðili, sem á að hafa hvað bestar upplýsingar um markaðsverð á þeirri vöru sem hér er seld, heldur því fram á opinberum vettvangi að framtalið verð sé 30–100% lægra en raunverulegt verð.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi þegar gert eða muni gera ráðstafanir til að láta rannsaka þetta mál sérstaklega af því tilefni að hér liggur fyrir undir nafni frá þeim aðila, sem best á að þekkja, upplýsingar sem á að geta verið áreiðanleg þar sem hann heldur því fram að tekjur af ákveðinni atvinnustarfsemi séu stórlega vanfaldar.

Við þykjumst hafa séð það í kringum okkur að það sé þó nokkuð um undandrátt frá skatti í þessu þjóðfétagi, skattsvik. Það mætti þess vegna spyrja enn frekar hvort fjmrh. hafi gert ráðstafanir til þess að láta rannsaka undandrátt eða skattsvik ákveðinna hópa í þjóðfélaginu, undandrátt af tekjum í framtölum til skatts. sannleikurinn er nefnilega sá að það er rík ástæða til að fylgjast með í þessum efnum. En enn þá ríkari er ástæðan þegar fram koma upplýsingar, eins og þessar hér, á opinberum vettvangi þar sem þrýst er sérstaklega fingri á þetta. Og ég tek t.d. eftir að í skýrslu frá opinberum aðila, Framkvæmdastofnun ríkisins, yfir vinnumarkaðinn 1981 kemur fram önnur vísbending sem mér finnst að gæfi fjmrh. og ríkisstj. tilefni til sérstakra rannsókna. Þar er upp gefið hver séu meðallaun ýmissa starfsstétta í landinu, m.a. eftir því hvort menn eru faglærðir eða ófaglærðir, vinna skrifstofustörf eða eru eigendur fyrirtækja sinna. Og svo dregið sé á fáein atriði í þessari opinberu skýrslu þá kemur t.d. í ljós að í greininni Fiskveiðar eru fram taldar tekjur eigendanna að meðaltali 36% lægri en þeirra sem vinna ófaglærðir í greininni. Manni finnst þetta gefa vísbendingu um að ástæða væri til að kanna þetta sérstaklega þegar þar kemur fram í opinberu gagni.

Það má taka fleiri dæmi, svo sem byggingarstarfsemi, þar sem byggingar eru atvinnurekstur aðila, telst eigandinn vera með tekjur sem eru 17% lægri en tekjur iðnaðarmannanna sem vinna hjá honum. Í veitinga- og hótelrekstri er líka nokkurra prósenta munur á því hvað eigendurnir eru með lægri tekjur samkvæmt þessum gögnum heldur en þeir iðnaðarmenn sem hjá þeim vinna. En út yfir tekur þó í flutningastarfsemi, þar sem skrifstofumenn eru með 61% hærri tekjur en atvinnurekandinn, eigandinn, ófaglærðir menn eru taldir vera með 52% hærri tekjur en atvinnurekandinn, og faglærðir menn í flutningastarfsemi eru taldir vera með 140% hærri tekjur en eigandinn.

Það er náttúrlega eitt að hafa grun um að skattsvik séu fyrir hendi í þjóðfélaginu, en þegar fyrir liggja opinberar vísbendingar, hvort heldur er í þessari blaðagrein í fyrradag ellegar í opinberu gagni frá Framkvæmdastofnun, þá er enn þá ríkari ástæða til þess fyrir ríkið að grípa til aðgerða. Og það er tilefnið til þess að ég ber fram þessa fsp. nú til fjmrh. Það má að vísu segja að þetta sanni bara enn einu sinni hversu tekjuskatturinn sé óréttlátur og að það eigi að leggja hann niður, eins og við Alþfl.-menn höfum margoft flutt till. um, en hann er nú einu sinni hjá okkur. Og það verður að segjast eins og er að enn þá ríkari ástæða er til þess að grípa á þessum málum núna heldur en nokkru sinni fyrr þegar kjörin hafa skerst í landinu svo mjög sem allir viðurkenna, og hvað eina sem vantalið er fram til skatts bitnar einmitt á launafólkinu og á þeim sem telja rétt fram. Þessi skattsvik eru í rauninni þjófnaður frá launafólki, þar sem allt er gefið upp, og frá þeim sem telja rétt fram.

Að lokum, ef fjmrh. gæti eða hefði eitthvað hugboð um það, þá væri gaman að heyra hugmyndir hans um hvað skattsvik séu víðtæk á Íslandi, hvort það sé t.d. fjórðungur tekna á landinu, sem ekki komi fram til skatts eða hvort hann telji að það sé meira eða minna. Og hvað gæti það orðið til að létta skattbyrðina mikið ef allt kæmi nú fram á skattframtölunum. Ég er hræddur um að það gæti munað þó nokkru fyrir þá sem eru að kikna undir sköttum núna.

Spurningar mínar eru þannig þrjár. Í fyrsta lagi hvort hæstv. fjmrh. hafi þegar gert eða muni gera ráðstafanir til þess að láta rannsaka þetta mál sérstaklega, sem er tilefni þessarar fsp., varðandi uppgefið verð á hrossum í útflutningi. Í annan stað hvort hann hafi almennt gert ráðstafanir til þess að láta rannsaka undandrátt, t.d. af því tilefni sem mér virðist koma fram í þessu opinbera gagni, Vinnumarkaðurinn 1981. Og í þriðja lagi hvort hann gæti gefið okkur vísbendingu um hvert hans mat sé á því hversu víðtæk skattsvik séu, hversu stór hluti af tekjum sé dreginn undan skatti og hvað það mundi þá geta létt skattbyrðina mikið.