09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi verið margir Íslendingarnir sem hafi hrokkið við þegar þeir heyrðu fréttirnar í hádegisútvarpinu í dag. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir að hafa flutt þær fréttir hér inn á Alþingi til umræðu og til undirstrikunar á því hvað það er alvarlegt mál fyrir okkur Íslendinga ef af því skyldi verða að Efnahagsbandalaginu tækist að semja við Grænlendinga um veiðar í þeim mæli sem virtist mega ráða af þeirri frétt sem Ríkisútvarpið birti í dag.

Við erum að vonast eftir að fá í vetur einhvern hluta af þorskstofninum, sem gert er ráð fyrir að sé að vaxa upp við Grænland, en hætt er við að þær vonir dofni ef af því yrði að Efnahagsbandalagsríkin fengju að sækja afla næstum óhindrað á Grænlandsmið. Og þarna er reyndar ekki eingöngu verið að hugsa um þorskinn heldur líka aðra fiskistofna, sérstaklega kannske karfann og rækjuna, sem eru þeir fiskistofnar sem við höfum talsvert sótt í.

Ég vil árétta hvert orð sem Eyjólfur Konráð Jónsson sagði um þetta mál og eindregið vekja athygli ríkisstj. á þessum vanda og vænti þess að ríkisstj. taki þetta mál strax til athugunar.

Í sambandi við þáltill., sem níu þm. Sjálfstfl. flytja um hagnýtingu Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar, nefndi ég í umræðum í hv. Sþ. fyrir nokkrum dögum einmitt þessa þætti, þ.e. frekari nýtingu þeirra svæða, sem liggja hér í útlandgrunni okkar, þ.e. Rockallsvæðið og Jan Mayen-svæðið. Ég sé ekki ástæðu til að ítreka það neitt frekar en lýsi fullum stuðningi mínum við þessa till., jafnt þennan fyrri þátt og seinni þáttinn líka. Einmitt nú, þegar þannig stendur á að verið er að skammta íslenska fiskveiðiflotanum veiði og fyrirsjáanlegt er að viss hluti flotans verði bundinn við festar og þannig eigi að fá rekstrargrundvöll fyrir þann flota sem á enn að vera á sjó, er till. sem þessi ákaflega tímabær. Við gerum ráð fyrir því að í hafinu umhverfis Ísland sé ýmsar þær fisktegundir að finna sem séu vannýttar og þar sé í marga fiskistofna hægt að sækja og nýta til að bæta okkar afla. Það eru ekki margir áratugir síðan við litum á aðra fiskistofna en þorskinn og síldina sem nokkurs konar tros. Og enn veit ég að til eru margir stofnar sem við getum bætt við þá stofna sem við nýtum nú. Við höfum bætt við ýsunni, við höfum bætt við lúðunni, keilunni og löngunni og allt hefur þetta orðið markaðsvara hjá okkur, að ógleymdum karfanum, en enn eigum við eftir að nýta frekar stofna eins og t.d. krabbadýr og kuðunga. Við gerum nú ráð fyrir því að enn megi nýta miklu betur í útköntum veiði á löngu og lúðu og nefndir hafa verið langhali og gulllax, en allt of lítið hefur verið gert af því á undanförnum árum að rannsaka veiðimöguleika og stofnstærðir þeirra fiskitegunda sem ég hef hér nefnt.

Mér hefur verið sagt það í sambandi við grásleppuveiðina á vorin, og er það nú innan efnahagslögsögu okkar sem sá fiskur er sóttur, að ef svo fer að menn geti ekki dregið daglega, ef eitthvað dregst að draga grásleppunetin, þá sé jafnan í þeim urmull af krabbadýrum. Þessu er nú kastað í sjóinn á svipaðan máta og fyrir nokkrum árum var ekki hægt að nýta ýmsar fisktegundir aðrar.

Ég vil sem sagt lýsa yfir stuðningi mínum við báðar tillögugreinarnar og vænti þess að þessi till. fái góða og fljóta meðferð hér í þinginu. Ég hef trú á því að það séu fleiri flokkar, og það stórir hópar í hverjum þingflokki eins og kemur fram hjá sjálfstæðismönnum, sem vilja standa að þessari tillögugerð.