09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

172. mál, hagnýting Íslandsmiða utan efnahagslögsögunnar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er e.t.v. ástæðulaust að vera að bera í þennan bakkafulla læk, það virðast allir vera sammála í þessum efnum. En ég tel ástæðu til að þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir að koma inn á þá frétt sem var í útvarpinu um að Efnahagsbandalagið býður bágstaddri grænlenskri þjóð stórfé, milljarða króna, til þess að fá þar veiðiheimildir. Sannleikurinn er sá, að eins og menn vita sækjum við í sameiginlega stofna. Stórkostlegar veiðar á Grænlandsmiðum þýða að þar er tekið af fiskstofni, t.d. eins og karfanum, sem við þurfum að nýta. — Karfinn hefur því miður verið ofnýttur nú í áratug, svo mikið að í 10 ár höfum við veitt tvöfalt meira af karfa en Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndin hefur lagt til. — Ef kæmi til slíkra veiða er hætt við því að hinn stórvirki floti Vestur-Þjóðverja t.d. verði ekki lengi að ganga mjög á þann stofn og á okkar hagsmuni um leið. Þarna er auðvitað einnig um þorskveiði að tefla og ljóst að það er brýn nauðsyn fyrir okkur og Grænlendinga líka að með þjóðunum geti tekist einhvers konar samstarf og hægt verði að stillta saman nýtinguna á fiskstofnum sem eru þarna sameiginlegir.

Það er ákaflega leitt að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera hér viðstaddur þegar rætt er um svo mikilsvert mál sem þetta því sannleikurinn er sá að auðvitað má engan tíma missa í þessum efnum. Það er rétt að hæstv. ráðh. hefur ýmsum hnöppum að hneppa um þessar mundir, það er verið að skipta ársaflanum á 800 skip eða svo og vandamálin eru auðvitað ærin bæði við það og annað, um fiskverð o.s.frv., en jafnvel þó að svo standi á dugar mönnum aldrei að líta aðeins á það sem stendur þeim næst heldur verða einnig að hafa auga á því sem fjær liggur.

Herra forseti. Ég þarf ekki að endurtaka það sem hv. þm. hafa verið að segja hér. Hv. þm. Skúli Alexandersson og Pétur Sigurðsson tóku undir mál hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og það geri ég einnig.