13.02.1984
Efri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2777 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Álit minni hl. fjh.- og viðskn. á þessu frv. til lánsfjárlaga hefur þegar komið fram og ætla ég ekki að orðlengja frekar um þau atriði sem þar eru tiltekin, það hefur þegar verið gert. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á þann þátt þessa frv. sem hvað mest sker í augun, einfaldlega það hversu gífurlegar fjárhæðir eru hér á ferð og hversu lítil tilraun er gerð til þess af hálfu ríkisstj. að móta í frv. margboðaða nýja stefnu í því hvernig slíkum fjármunum skuli varið. Ég fæ ekki betur séð en að í þessu frv. sé aðeins leitast við að halda í horfinu. Ég finn þar ákaflega litla nýsköpun í fjárfestingarmálum.

Eins og fyrr er í frv. til lánsfjárlaga m.a. verið að afla lántökuheimilda til ýmissa fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs og langar mig aðeins til að gera þann hlut frv. að umtalsefni. Nú sem áður er almannafé notað í áhættusöm og umdeilanlega arðbær fyrirtæki, eins og t.d. fyrirhugaða steinullarverksmiðju og sjóefnavinnsluna á Reykjanesi, en eins og fram hefur komið eru málefni þess fyrirtækis greinilega í töluverðri óvissu. Ég vek athygli á því að ekki virðist um neina grundvallarstefnubreytingu að ræða að þessu leyti á milli ríkisstj. undanfarin ár. Áfram skulu tekin erlend lán og það til sömu þarfa og áður.

Samkv. frv. er áætlað að verja stærstum hluta af fjármagni til fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs til Landsvirkjunar. Þar er alls um að ræða 900 millj. kr. og þar af er áætlað að verja 200 millj. til Blönduvirkjunar. Þó er ljóst að enga brýna nauðsyn ber til þess að veita nú fé til Blönduvirkjunar, því að eins og segir í grg. Landsvirkjunar varðandi lánsfjáráætlun 1984 er unnt með tilkomu Kvíslaveitu að anna innlendri orkueftirspurn næstu árin. Okkur ætti því að vera óhætt að spara okkur framlög til Blönduvirkjunar enn um sinn og minnka erlendar lántökur sem því nemur. Það er þó ekki gert í þessu frv. og ljóst er að með því að ætla fjármuni í ár til Blönduvirkjunar er ríkisstj. að stefna að aukinni stóriðju hér á landi á næstu árum.

Að vonum líst mér illa á slíka fjárfestingarstefnu. Þetta er sama stefnan og rekin hefur verið í þessum efnum undanfarna áratugi hér á landi og afleiðingar hennar sjáum við allt í kringum okkur í efnahagslífi þjóðarinnar og reyndar einnig mjög glögglega í því frv. sem hér er til umr., þar sem þar kemur fram að taka þarf yfir 350 millj. kr. erlend lán til að standa straum af fjármagnskostnaði við Kröfluvirkjun eina. Og á meðan miljónirnar renna möglunarlaust í sömu hítina og áður er verið að klípa af og spara á póstum eins og hjá Lánasjóði ísi. námsmanna og Framkvæmdasjóði fatlaðra. Þar munar ríkisstj. greinilega um krónurnar.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um frv. Frá sjónarmiði Kvennalistans markar þetta frv. óbreytta stefnu í fjárfestingarmálum landsins að undanskildum minnkandi framlögum til ýmissa sjóða, eins og ég hef tiltekið. Hér er í grundvallaratriðum um að ræða sömu fjárfestingarstefnu og þá sem hefur átt drjúgan þátt í því að leiða okkur út í það efnahagsástand sem við nú búum við. Ég mun því ekki greiða þessu frv. atkv. mitt.