13.02.1984
Efri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2778 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir vel unnin störf við gerð þeirra lánsfjárlaga sem hér eru á dagskrá, bæði stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum, en þó vil ég sérstaklega þakka formanni nefndarinnar fyrir mikil og vel unnin störf. Ég sé ekki ástæðu til að svara mörgu sem hér hefur komið fram. Það er ýmislegt að sjálfsögðu sem ég og eflaust þm. allir hefðu viljað hafa öðruvísi en er. Vonandi verður það þegar þessi ríkisstj. hefur fengið svigrúm til að gera fjárhagsáætlanir, fjárlög og lánsfjárlög o.fl.

Ég vil þó segja hér nokkur orð um það sem kom fram í málflutningi hv. 5. landsk. þm. Ég tek mjög undir með honum þegar hann talar um að breyta þurfi um vinnubrögð og hafa verkaskiptingu milli fjvn. og fjh.og viðskn. skýrari. Ég held að bæði það og ýmislegt annað í starfsháttum Alþingis megi gjarnan endurskoða. En ég bið hv. þm. um að sýna svolitla þolinmæði enn þá hvað varðar tollaendurskoðunina. Tollskráin er í endurskoðun. Hún er nú komin svo miklu lengra á leið en hún var síðast þegar hv. þm. minntist á þetta mál í þessari hv. deild að Þjóðhagsstofnun hefur skilað útreikningi á skránni og er nú verið að yfirfara hana í tolladeild fjmrn. Ég á því von á að nú fari aðlíða að þeirri stóru stund að hún sjái dagsins ljós.

Hvað varðar sjóefnaverksmiðjuna, þá er til hennar ætluð sú upphæð sem hæstv. iðnrh. taldi sig komast af með, þ.e. til að standa undir fjármagnskostnaði. Ég vona að það sé rétt áætlun, rétt mat hjá honum. Hitt er svo annað mál, að ég held að stjórn sjóefnaverksmiðjunnar hafi gengið heldur lengra en ætlast var til í framkvæmdum, þegar farið var út í tilraunaverksmiðju, þannig að ef hún hefur bundið sig umfram það sem Alþingi hefur samþykkt, þá verður að taka það mál upp sérstaklega. Hvernig við því verður brugðist veit ég ekki á þessari stundu. En ég mun kanna málið og svara hv. þm. betur síðar.

Hvað snertir það sem hv. þm. taldi vanta inn í þessi lánsfjárlög, þ.e. til að efla innlendar skipasmíðar, þá er það út af fyrir sig rétt. En ég er þeirrar skoðunar að efla eigi innlend fyrirtæki almennt á sama hátt, í hvaða atvinnugrein sem er. Aðstoð við íslenskan skipaiðnað eins og við höfum talað um hann, þ.e. að flytja viðgerðir á íslenskum skipum alfarið inn í landið, á að koma í gegnum bankakerfið. Það gerir það í dag. Ef skip fær viðgerð erlendis, þá hefur það ekki komið fyrir svo að ég viti til að staðið hafi á bankafyrirgreiðslu til að koma í veg fyrir að skipið fari á uppboð eða lendi í fjárhagsvandræðum erlendis. Ef aftur á móti sama skip fær viðgerð hér heima, þá eru oftast nær miklir erfiðleikar á ferðinni. Það verður að finna eðlilega fjáröflunarleið milti vikskiptavinar og viðskiptabanka. Þetta eru þjóðbankar, þannig að dæmið er eitt og hið sama. En það er ekki eðlilegt að ríkissjóður þurfi hvað eftir annað að koma til skjalanna og starfa sem viðskiptabanki eða sem vátryggingarfélag. Það getur ekki haldið áfram. Það er eitt af því sem þarf að breyta. En að sjálfsögðu þarf það að vera eftir ákvörðunum ríkisstj. í gegnum ríkisbankana sem þessi fyrirgreiðsla á sér stað, en ekki beint á kostnað ríkissjóðs.

Lausafjárskuldir bænda minntist hv. þm. á líka. Það er nú verið að breyta því fyrirkomulagi sem áður var, að Búnaðarbankinn, sem sér um veðdeild landbúnaðarins, verði ábyrgur fyrir lántöku og útlánum eins og hann hefur verið og taki þá ábyrgð á undan Ríkisábyrgðasjóði. Er þetta breyting frá því sem áður hefur verið og mun Búnaðarbankinn þegar vera kominn af stað í þeirri vinnu.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá virðulegum þm. að það stefnir í 388 millj. kr. halla á ríkisrekstrinum. Það kæmi mér ekkert á óvart þó að hallinn yrði meiri. En hitt er annað mál, að ég hef sett á fót nefnd sem á að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Hún er að störfum eins og ég hef áður getið um, og er hún undir forustu ríkisendurskoðanda. Formaður og varaformaður fjvn. eru í þeirri nefnd, enn fremur hagsýslustjóri, forstöðumaður gjaldadeildar og ráðuneytisstjóri. Það verður því fylgst mjög náið með framkvæmd fjárlaga. Ég hafði áður kynnt það að ég mundi gefa yfirlit yfir stöðu ríkissjóðs á þriggja mánaða fresti. En ég hef hugsað mér að gera það um miðjan mars svo að það verður eftir aðeins tvo mánuði. Ég er alveg viss um að fyrrv. hæstv. fjmrh. er mér sammála um það og að allir þm. hljóta að vera sammála um það, að betra er að fá að vita stöðu fjármála ríkisins svo fljótt að Alþingi geti fjallað um vandamál, sem upp kunna að koma, strax og þau eru kunn í staðinn fyrir að bíða loka ársins hverju sinni. Ég vona að það sé þó breyting til batnaðar.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. talar um þær ádeilur á síðustu ríkisstj. sem hún þurfti að búa við og þá sérstaklega um erlendar lántökur. Erlendar lántökur voru komnar í 60% af þjóðarframleiðslu þegar þessi ríkisstj. tók við. Þær eru nú rétt innan við 60% af þjóðarframleiðslunni þó að þjóðarframleiðslan hafi heldur minnkað og er það vegna þess að erlendri skuldasöfnun var hætt. Ég vona að það stefnumark náist að halda erlendum lántökum innan við 60%. Ef ekki, þá endurtek ég það hér og nú: þá tel ég að stefna ríkisstj. hafi sprungið, þá eigi ríkisstj. að láta kjósa um sína stefnu og standa eða falla með henni. Ég hef ekkí breytt um skoðun á því.

Ég hef oft getið um það, eins og kom fram í máli hv. 3. þm. Norðurl. v., að aukafjárveitingar eru ekki aðeins óeðlilegar, þær þýða bara það að mikil mistök og stórslys hafa átt sér stað við fjárlagagerðina. Og það er einmitt þess vegna sem ég hef hugsað mér að láta Alþingi fylgjast með því mjög reglulega hvernig framkvæmd fjárlaganna gengur, vegna þess að ég álít að við verðum í sameiningu, þm. allir 60, að koma fjárlögunum inn á þær brautir að þau séu marktæk áætlun fyrir komandi ár. Og að ætla fjmrh. að fara fram hjá lögum og búa til ný fjárlög eftir því sem með þarf frá degi til dags einsamall, það eru völd sem ég vil ekki að séu hjá fjmrh., hvort sem hann heitir Albert Guðmundsson, Ragnar Arnalds eða eitthvað annað. Þess vegna er það sem endurskoðun fjárlaga fer fram svo reglulega og aukafjárveitingar verða þá samþykktar af fjvn. og Alþingi en ekki af fjmrh. einum. Það er líka breyting.

Ég vil nú ekki viðurkenna að hallinn á árinu verði meiri vegna skattalækkana til fyrirtækja. Ég hugsa að hann gæti orðið minni við það að fyrirtæki eru sterk og atvinnugreinarnar eru sterkar og veita þá atvinnutækifæri. Það þýðir fleiri skattgreiðendur og meiri ríkissjóðstekjur. Það segir sig sjálft að ef skattgreiðendum fækkar og fyrirtækin ganga illa, eru fjárvana, þá verður þetta eins og það hefur verið og hefur stefnt í um lengri tíma, að þau eru í sívaxandi skuldasúpu við viðskiptabankana. Það gengur náttúrulega ekki að það sem á að fara til uppbyggingar og endurnýjunar og nýsköpunar á atvinnutækifærum fari í vaxtagreiðslur og fjármögnunarkostnað fyrirtækja. Það gengur ekki, það verður að stoppa, enda held ég að það sé þegar komið vel á veg.

Ég fagna því að hv. 3. þm. Norðurl. v. er sammála þeirri stefnu að skerða framlög til fjárfestingarsjóðanna. Ég veit að hann skilur vel hvað þarna er á ferðinni. Við getum deilt um hvaða sjóði er rétt að skerða og hve mikið, en þetta er það sem hefur verið ákveðið af þeim sem nú fara með fjármálin, svo að við verðum að búa við það væntanlega þetta árið. En að lokum vil ég segja að Kristnisjóður hefur orðið nokkuð illa úti í þeirri lánsfjárlagagerð sem hér er á dagskrá. Ég á von á því að tillaga komi í leiðréttingu við 3. umr.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. 11. þm. Reykv. í löngu máli. En ég vil biðja bæði hana og fleiri virðulega þm. að kynna sér hvað innan ramma námslánanna felst, hvað við gætum tvöfaldað marga af þyngstu framkvæmdaflokkunum ef við hefðum þá peninga til framkvæmda í staðinn fyrir til námslána. Ég er ekki að segja að það sé rangt að veita námslán, en ég held að það sé komið út í öfgar og ég mundi nú telja að 400 millj. + 228 millj. væru þó nokkur peningur. Það samsvarar a.m.k. þeirri upphæð sem fer í nokkuð marga framkvæmdaflokka.

Ég vil, virðulegi forseti, enda mál mitt með því að endurtaka þakkir mínar til fjh.- og viðskn. hv. Ed. og þá sér í lagi formanns nefndarinnar.