13.02.1984
Efri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2781 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki flytja langt mál um þetta að öðru leyti stóra og þýðingarmikla mál sem er eitt af stærri málum þingsins sem reglulega er fjallað um á hverju ári. Ég vil aðeins vekja athygli á því, af því að það hefur ekki verið undirstrikað sérstaklega við þessa umr., að við umfjöllun málsins í fjh.- og viðskn. hefur meginstefnunni í fjárfestingarmálum verið haldið. Meginstefnan í þessum málum er fótgin í því að hægja á heildarfjárfestingu í landinu. Á síðasta ári mun heildarfjárfestingin hafa orðið eitthvað í kringum 25%. Ég hef ekki séð lokatötur í því efni en ég hygg að það hafi verið nálægt 25.1% af þjóðarframleiðslunni þegar síðast var áætlað seinni hluta ársins í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni og er ástæða til þess að ætla að heildarfjárfestingin verði eitthvað í kringum 25%. En skv. lánsfjárlögum og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er fyrirhugað að hægja á heildarfjárfestingu um 6.3% og stefna að því að hún verði 23.4% af þjóðarframleiðslu á þessu ári ef þjóðarframleiðslan verður eins og gert er ráð fyrir í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Nú heyrist mér að horfur séu á því að þjóðarframleiðslan kunni að verða eitthvað meiri því að skýrt hefur verið frá því að sennilega verði leyft að veiða þó nokkuð af loðnu umfram það sem ráðgert var þegar áætlun var gerð um heildarþjóðarframleiðslu. Ef það gengur eftir án þess að bæta við frekari fjárfestingu sýnist mér að svo gæti farið að heildarfjárfestingin á þessu ári kynni að dragast meira saman, jafnvel verða samtals undir 23% af þjóðarframleiðslu. Það er þó nokkuð verulegur samdráttur þegar tekið er tillit til heildarinnar. Þetta er kannske meginstefnan sem felst í lánsfjárlögunum og fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni.

Nú má auðvitað deila um það hvað eigi að draga mikið úr fjárfestingu. Ég hygg þó að flestir hv. alþm. séu sammála því að eins og sakir standa sé skynsamlegt að draga úr heildarfjárfestingu. Það má auðvitað deila um hvað á gera mikið af því. Þegar um samdrátt er að ræða verða ákaflega mörg álitamál hvert eigi að beina fjármagninu vegna þess að þrengra verður um vik en ef menn væru t.d. að auka á heildarfjárfestingu og má endalaust um það deila á hvað eigi að leggja höfuðáherslu eða hvað eigi að koma á undan öðru.

Um erlendu lánin er það að segja að við árslok 1983 námu þau 60% af þjóðarframleiðslu. Það eru margar ástæður fyrir því hvers vegna erlendar lántökur hafa aukist á undanförnum árum. Ég vil aðeins nefna þrjár.

Í fyrsta lagi höfum við óvefengjanlega lagt ofurkapp á vissar fjárfestingar. Það er alveg sérstaklega á sviði orkumála sem fjárfesting hefur verið mikil. Líklega yfir helmingur af öllum erlendum lánum hefur farið til orkumála. En við höfum alveg sérstaklega lagt áherslu á það á undanförnum árum að flýta fjárfestingu og framkvæmdum við hitaveitur vegna þess að olíuverðhækkanir hafa verið svo miklar að menn hafa séð sér hag í því að flýta þessum fjárfestingum með tilliti til utanríkisviðskiptanna og greiðslujafnaðar við útlönd. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þegar við erum búnir að greiða þau lán sem tekin hafa verið til hitaveitna — yfirleitt stutt lán, 8–10 ára lán, þau lengstu kannske 12 ár — njótum við gífurlegs hagræðis. Þessar framkvæmdir munu vonandi endast um áratugi með tiltölulega litlu viðhaldi. Hér erum við því í raun og veru að standa undir lántökum og greiðslubyrði um tiltölulega skamman tíma til framkvæmda sem koma til með að skila stórkostlegum arði í þjóðarbúið um áratugi. Ástæða er til að undirstrika þetta.

Í öðru lagi vildi ég nefna það sem hefur valdið verulegu um það að erlendu lánin hafa hækkað, þ.e. þróunina á gjaldeyrismörkuðunum. Við höfum tiltölulega langmest af okkar lánum í dollurum. Dollarinn hefur hækkað gífurlega núna á síðustu 2–3 árum. Út af fyrir sig væri fróðlegt að gera athugun á því hvaða þýðingu þetta hefur haft á heildarskuldir okkar í íslenskum krónum til úttána og einnig hvaða áhrif það hefur haft á greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum. Þetta hefur haft talsvert verulega þýðingu.

Nú hefur það hins vegar gerst að fiskistofnarnir hafa reynst miklu veikari en menn töldu að þeir myndu verða fyrir 2–3 árum síðan. Þá var gert ráð fyrir því að við gætum veitt 400–500 þús. tonn af þorski á ári og gífurlegt magn af 1oðnu eins og menn muna. Þetta hefur breyst. Þó veit maður nú aldrei fyrr en upp er staðið hvað ofan á verður í þessum efnum. Nú er talið að loðnustofninn sé miklu sterkari en við töluðum um fyrir tveimur mánuðum síðan eða varta það. Ég skal ekkert segja um þorskstofninn, kannske er hann miklu sterkari en menn hafa gert ráð fyrir. Kannske verður meira af Grænlandsþorski á okkar fiskimiðum en gert er ráð fyrir í spádómum fiskifræðinganna en þeir gera einmitt ekki ráð fyrir að þorskur af Grænlandsmiðum komi yfir á okkar mið þannig að margt er í þessu sem erfitt er að spá um. Það var gagnrýnt mjög mikið og kannske réttilega að við ættum 52 loðnuskip sem lægju ónotuð. En hvernig verður þá gagnrýnin nú? Ætli sé ekki gott að grípa til þessa flota nú? Þannig að það eru miklar sveiflur í okkar sjávarútvegi bæði upp og niður og tiltölulega hraðar sveiflur eins og við þekkjum.

Í sambandi við viðmiðanir í þessum málum öllum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þær eru breytilegar því að miðað er við þjóðarframleiðsluna sem kannske fyrst og seinast byggist á aflanum. Ég heyrði það að hv. þm. Eiður Guðnason, 5. landsk. þm., ræddi um að hæstv. fjmrh. ætlaði að segja af sér, ef skuldasúpan færi yfir 60% eða eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í: Ef skattar væru hækkaðir.) Nú, ef skattar væru hækkaðir, ekki ef hlutfallið — (Gripið fram í.) Jú, var það ekki. Mér fannst hann hafa sagt það ef ég heyrði rétt. Þá varð mér hugsað til þess ef loðnan tæki upp á því að synda eitthvað annað allt í einu. (Fjmrh.: Og ég með.) Ja, þá er spurningin þessi, hvort fjmrh. slæst í förina. Ég held satt að segja að þær viðmiðanir sem þarna er um að ræða séu það óábyggilegar að erfitt sé að festa hendur á þeim og miða alfarið við þær þó að menn noti þær sem mælikvarða af því að ekkert annað er tiltækt í þessum efnum.

Ég sé að hv. þm. Lárus Jónsson er að benda á klukkuna. Ég veit ekki hvort við höfum átt að fara á fund eða hvað. Ég er ekki vanur að halda langar ræður hér í deildinni en hafði áhuga á því að taka til máls um þetta stóra mál og gera að umræðuefni ýmsa þætti þess sem ég held að sé gott að ræða öðru hverju til að glöggva fyrir sér hvað er að gerast og hvernig framvindan er í þessum efnum.

Sjálfsagt er skynsamlegt að vera, má ég segja, hóflega svartsýnn í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Vissulega eru mörg vandamál sem við þurfum að fást við. Þ. á m. eru vandamál útgerðarinnar og vandamál bændanna en ríkisstj. er að fást við hvort tveggja. Ég vil t.d. benda á að vel kann að vera að við höfum einmitt núna möguleika á að leysa þessi mál að hluta til á þann hátt sem við höfum ekki getað gert fyrir eins og 1–2 árum síðan. En þannig háttar nú til á alþjóðlegum lánamörkuðum að það er gífurlega mikið framboð af peningum og sennilega er hægt að fá lán til allmiklu 1engri tíma nú en hefur verið á s.l. svona þremur árum en þau lán sem við höfum tekið hafa verið mjög stutt. Vel getur verið að hægt væri að leysa þessi mál að hluta til án þess að auka við erlendar lántökur en taka heldur lán til lengri tíma og greiða upp þau sem eru til styttri tíma þannig að það hjálpi til við að leysa þessi annars erfiðu mál án þess að auka á erlendar skuldir hvað heildarupphæðina snertir.