13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2785 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum um að vera stuttorður. Þetta er orðin löng og æði slitrótt umr. og hefur farið svolítið illa vegna fjarvista ráðh. og annarra sem hér eiga hlut að máli. Hún hófst með spurningum um frjálsa samninga og beiðni um skilgreiningu á þeim vegna ummæla ýmissa ráðh. Hæstv. forsrh. hefur í raun svarað því sem þá var spurt um á þann hátt að hann hefur við ýmis tækifæri ítrekað bæði skilning sinn á frjálsum samningum og fylgi ríkisstj. þar við og minnt Sjálfstfl. á hvað frelsi og ábyrgð þýðir í þessu efni. Ég mun því ekki fara þar fleiri orðum um þótt örugglega sé þar ýmsa hluti að finna.

Aðrar spurningar vörðuðu aðildarmál ÍSALs að Vinnuveitendasambandi Íslands. Þar kom hæstv. iðnrh. mjög kröftuglega við sögu. Ég ætla ekki að elta ólar við ummæli hans ýmis. Ég ætla einungis að draga fram atriði sem ég tel að sé ástæða til að vekja athygli á. Komið hefur fram í máli hæstv. ráðh. að íslenskt forræði í samningamálum ÍSALs sé aðalrökstuðningur stjórnarinnar fyrir því að ÍSAL gerist aðili að VSI. Þá vakna spurningar eins og þessar: Hvers vegna kom þá frumkvæði frá ÍSAL? Er ÍSAL að hafa þar vit fyrir íslenskum stjórnvöldum? Hafa íslensk stjórnvöld þakkað ÍSAL fyrir þessa áminningu?

Maður gæti líka spurt sig: Hvert er þá forræðið núna? ÍSAL er ekki gengið í VSÍ og gerðir verða samningar. Hvert er umboð þeirra sem þar semja? Eru þeir strengbrúður sem stýrt er frá Sviss? Svona mætti spyrja ýmissa spurninga.

Ég ætlaði líka að vekja athygli á ummælum hæstv ráðh. vegna kaups og kaupkrafna þeirra ÍSALs-manna. Það er kapítuli út af fyrir sig. Veifað var upplýsingum um 30–40 þús. kr. laun. Gerð hefur verið grein fyrir því á öðrum vettvangi hvað hið rétta er í þessum efnum. Ég tel það ámælisvert að menn fari svo gáleysislega með staðreyndir sem gert var í umr. fyrir hálfum mánuði. Sömuleiðis var rætt um gífurlegar kröfur um hækkanir, allt að 40% hækkanir. Þá er fróðlegt að skoða gögn frá samninganefnd starfsmanna ÍSALs. Þar kemur fram að þessi svokallaða 40% krafa, sem fjölmiðlar hentu mjög á loft og reyndar ríkisstjórnin, er orðrétt þannig sett fram í gögnum frá samninganefnd starfsmanna ÍSALs í sumar, með leyfi hæstv. forseta:

„Samið verði um launahækkanir sem feli í sér að kaupmáttur launa 1. okt. 1983 verði eigi lakari en hann var að meðaltali 1982.“

Þetta eru sem sagt hinar almennu kröfur sem verkalýðshreyfingin setti fram í sumar. Það er hins vegar reikningskúnst ríkisstj. og VSÍ og mat þeirra aðila á því hvernig launum og lífskjörum hefur hrakað í þessu landi ef þeir telja að 40% launahækkun þurfi til að mæta þessu áfalli.

Sömuleiðis kemur fram í fréttatilkynningu frá samninganefnd verkalýðsfélaganna að á fyrsta fundi í des. lagði nefndin fram hugmynd að bráðabirgðasamkomulagi sem fyrsta áfanga til kjarabóta. Tillagan um bráðabirgðasamkomulag fyrir áramót fól í sér í fyrsta lagi að samið yrði um 4–6% kauphækkun, en það er einmitt sá rammi sem hæstv. ríkisstj. gaf út og vildi að samið yrði innan á sínum tíma. Þetta er nú allt offorsið og þetta er nú heimtufrekjan þar fyrir sunnan. Ég tel nauðsynlegt að þessar upplýsingar komi fram í þessari umr. Að öðru leyti mun ég verða við óskum hæstv. forseta um að lengja þessa umr. ekki úr hófi.