26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Út af ummælum seinasta ræðumanns, hv. þm. Páls Péturssonar, þá þótti mér það mjög einkennandi að í framhaldi þessa viðtals við Þorkel hrossaræktarráðunaut þá kemur það fram að hann hefur áhyggjur af þessum vantöldu upphæðum út af þessum Stofnverndarsjóði, ekki úf af skattsvikunum. Það er tilefni þess að hann ritar í Búnaðarritið og segir að þetta sé svona á pappírnum. Það kemur greinilega fram í viðtalinu í Alþýðublaðinu að hann hefur áhyggjur af því að verið sé að snuða þennan Stofnverndarsjóð, en ekki að verið sé að snuða ríkissjóð, ekki að það sé verið að snuða skattborgarana yfirleitt í landinu, alla hina, sem borga skattinn sinn. Og þetta er náttúrlega sjónarmið sem er ótækt. Þetta bendir til þess að við séum orðin allt of sljó í þessum efnum, allt of sljó að því er varðar skattsvikin.

Mér fannst hv. síðasti þm. tala um það, — jú, jú, það væri sjálfsagt að skoða þetta, hvort þetta væri rétt hjá Þorkeli og þar fram eftir götunum. En í mínum huga er það skylt — ekki sjálfsagt. Ekki í einhverjum hálfkæringi. Ég tel að það sé skylda opinberra aðila, skylda fjmrh. og ríkisstj. hvenær sem kemur fram upplýsing af þessu tagi á opinberum vettvangi um undandrátt að þegar í stað sé farið í opinbera rannsókn. Hérna er þetta skýrt, það eru teknar fram tölur, það eru ekki bara stóðhestarnir heldur voru það líka hryssur og betri hestar, svo að teknir séu þeir þrír flokkar sem Þorkell getur um í grein sinni eða þessu viðtali.

Mér sýnist að augljóst sé af þessu að fremsti ráðunautur í þessum efnum, ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, telji ekki þá tryggingu í þessum Stofnverndarsjóði sem kom fram í máli hv. síðasta þm.

En það er ekki meginmálið þó hér sé verið að tala um hross. Meginmálið er skattsvikin, meginmálið er það að fram komi opinber upplýsing um hvort eigi sér stað skattsvik, komi fram upplýsing á opinberum vettvangi eða vísbending eins og gerir í þeirri skýrslu sem ég var með hér áðan, að menn sitji þá ekki bara á rassinum og geri ekki neitt eða yppi öxlum og segi: Jú, það má skoða það. Þegar svo er komið þá eru menn orðnir sljóir, þá hafa menn brugðist skyldu sinni, þeir sem eru í forsvari fyrir þessari þjóð.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. En ég vil þakka fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan, þau náðu að vísu mjög skammt. En þar kom líka fram að það höfðu engar ráðstafanir verið gerðar, hvorki í þessu máli né í öðrum málum sem varða vantaldar tekjur og skattsvik í landinu þó að vísbendingarnar hafi komið fram. Og ég vil eindregið hvetja fjmrh. til þess að taka nú á þessu af myndarskap vegna þess að hér getur legið möguleikinn og liggur möguleikinn á því að létta skattbyrðina í landinu. Því að ég er sannfærður um að það er a.m.k. fjórðungur af tekjum sem ekki kemst til skita í framtali til skatts. Og það bitnar á hinum.