13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2786 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Margt gera alþm. skemmtilegra en ákveða skatta á þjóðina en samt sem áður er það óhjákvæmilegt verk og undan því verður ekki vikist. Það er hins vegar álitamál hvert á að vera form skattheimtunnar á hverjum tíma. Ríkið þarf tekjur, félagslegar framkvæmdir og þjónusta verða ekki greiddar nema með peningum. Að mínum dómi er tekjuskattur eðlileg leið til skattheimtu. Hann er réttlátari en margar aðrar leiðir sem til greina koma vegna þess að tekjuskatturinn getur haft og á að hafa áhrif til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu þannig að þeir beri byrðarnar sem fremur geta það.

Í þessari umr. hefur ríkisstj. og stjórnarflokkunum verið legið á hálsi fyrir það að létta heldur skatta á félögum. Því er til að svara að atvinnureksturinn í landinu verður náttúrlega að skrimta. Ef við stöðvum hjól atvinnulífsins hleypum við öllu í strand. Þá er ekki svo gott að ýta á flot aftur.

Menn hafa verið að deila hér um þegar þetta mál var bæði til 1. umr. og 2. umr. hvort tekjuskattsinnheimtan í ár sé há eða ekki. Mér finnst að ekki þurfi að deila um það. Tekjuskattsbyrðin þyngist á hærri tekjum og sem betur fer á mörgum gjaldendum. Hins vegar léttist tekjuskattsbyrðin vitund á lægri tekjum miðað við fyrra ár. Það er liður í þeirri kjarajöfnunarstefnu sem ríkisstj. vill marka.

Betra hefði verið að geta létt þessa skattbyrði enn meir af lægri og meðaltekjum og hækka skattleysismörk enn. En eins og ég sagði áðan þarf ríkið sitt. Ég geri ráð fyrir að skattgreiðendur telji, þegar að því kemur að borga, að tekjuskattar séu nógu háir í ár. En sem stjórnarliði fyrirverð ég mig ekki fyrir það og vísa til tekjujöfnunaráhrifanna.

Það sem mér þykir hins vegar ástæða til að fyrirverða mig fyrir er að við skyldum asnast til þess að sleppa sveitarstjórnum, svo sem borgarstjórn Reykjavíkur á skattborgarana með því frelsi sem þær hafa nú fengið til ákvarðana á gjaldskrám og útsvari. Auðvitað stórhækka útsvör milli ára og ég held að gjaldendur megi illa við því. Það er verulegt áhyggjuefni þegar ákvarðanir sumra sveitarfélaga — svo sem eins og borgarstjórnar Reykjavíkur sem ákveður útsvarsprósentu sem er miklu hærri en í fyrra þar sem hún verður greidd með verðmeiri krónum — að ákvarðanir sveitarfélaga skuli ekki vera í neinu samræmi við markaða stefnu ríkisstj. Mér finnst að hart sé til þess að vita þegar sumar sveitarstjórnir og fyrirtæki sveitarfélaganna misnota þannig frelsi sem við illu heilli gáfum þeim á sínum tíma. Það er það sem veldur mér áhyggjum en ekki hitt að tekjuskattsálagning á þessu ári sé í neinn máta óeðlileg.