13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2792 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs af gefnu tilefni, vegna ummæla hv. 2. þm. Norðurl. v. hér áðan um skattbyrði, og þá sérstaklega þau orð sem hann hafði um fyrirsjáanlega aukna skattbyrði vegna útsvarsálagningar sveitarfélaga. Eins og menn tóku eftir deildi hv. þm. á sveitarstjórnarmenn, ekki síst borgarstjórn Reykjavíkur, fyrir að hafa ekki í verki metið efnahagsaðstæður í þjóðfélaginu með þeim hætti að þeir reyndu að haga útsvarsálagningunni þannig, að greiðslubyrði beinna skatta í heild færi ekki hækkandi. Þetta var út af fyrir sig athyglisvert og getur skipt verulegu máli. Hv. þm. harmaði það að stjórnarmeirihlutinn hefði heimilað sveitarstjórnarmönnum að ráða einir gjaldskrám sínum með þessum hætti. Af þessu tilefni vil ég beina því til hans og sömuleiðis annarra nm. í fjh.- og viðskn., sem og félmn., hvort ekki er enn tími og tækifæri til að grípa hér í taumana.

Eins og kunnugt er liggur enn fyrir Alþingi frv. til l. um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, 149. mál. Það hefur verið afgreitt frá félmn. Ed. þar sem n. mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Ef ég veit rétt þá er þetta mál í höndum félmn. Nd. nú. Nú er spurningin hvort ekki er tækifæri til að grípa hér í taumana í n. og síðar meir í umfjöllun þingsins út af þessu máli. Það er nefnilega álitamál hvort sú pólitík var rétt hjá sveitarstjórnarmönnum að lækka útsvarsprósentuna sem slíka, eins og t.d. var gert í sumum tilvikum þegar útsvarsprósentan er lækkuð frá því sem hún getur verið í hámarki með undanþáguákvæði niður fyrir kannske 10% eða niður í 9.5%. Spurningin er hvort það er ekki á valdi Alþingis enn að grípa hér í taumana með þeim hætti að hækka það sem við gætum kallað „útsvarsfrelsismörk“. Með öðrum orðum að klippa neðan af útsvarsálagningunni.

Ég segi þetta alveg af sérstöku tilefni. Um s.l. helgi var haldin hér í borg ráðstefna á vegum félagssamtaka sem heita Samhygð um efnið: „Er fátækt á Íslandi? — Hvað er hægt að gera strax.“ Það sem var athyglisvert við þessa ráðstefnu var að þar var ekki hvað síst saman komið það fólk sem sjálft er í daglegu návígi við þessa örbirgð. Þar var m.a. talsverður hópur einstæðra foreldra, sem lögðu á borð með sér í vinnuhópum launaseðla sína, fólk með raunverulegar heimilistekjur jafnvel á bilinu 11–15 þús. kr. Mér sýndist samkv. þeim upplýsingum sem þarna voru gefnar um láglaunafólkið, sem nú lepur dauðann úr skel og er ekki lengur þess umkomið að framfleyta sínum fjölskyldum, að það beri útsvar, verulegt útsvar jafnvel þegar um er að ræða slíkar hungurtekjur. Síðan koma til einhverjar milligreiðslur eins og bótagreiðslur almannatrygginga. Þá hverfa þeir vegna þess að hér er um að ræða útsvarsskyldar tekjur. Flestir foreldrar þekkja það að jafnvel af lítilfjörlegum sumartekjum barna kemur a.m.k. útsvarsgreiðsla.

Ég hef reyndar aðrar upplýsingar, frá starfsmanni sem starfar við launabókhald og launagreiðslur í fjölmennu láglaunafyrirtæki, og hann kemst að sömu niðurstöðu: að ef menn vilji í alvöru kanna það að fara skattaleiðina til að mæta þessu fólki, þá sé ekki hvað síst nauðsynlegt að fara þá leið sem ég er að gera hér að umtalsefni, að klippa neðan af útsvarinu, að hækka útsvarsfrelsismörkin. Sú aðgerð mundi e.t.v. koma flestu þessu fólki að mestu raunverulegu gagni.

Hitt er svo á að líta, að verði þessi leið farin, að tekjur t.d. að upphæð 15 þús. kr. á mánuði eða 180 þús. kr. árstekjur verði gerðar útsvarsfrjálsar og kannske samsvarandi mörk, þ.e. útsvarsfrelsismörk tengd framfærslubyrði og tekjum, þá kann að koma upp vandamál sem snertir mjög aðra till. um tekjuskatt. Það er kannske aðalatriði þessa máls. Ég minni á þá till. sem við Alþfl.- menn höfum flutt í tvígang á þessu þingi og reyndar oftar áður og varðar meðferð á svokölluðum ónýttum persónuafslætti til tekjuskatts. Þá á ég við það, að upp getur komið sá árekstur, ef sú leið verður farin að hækka útsvarsfrelsismörk, að ónýttur persónuafsláttur, meðan hann er ekki útborganlegur, þó um lága tekjuskattsupphæð kynni að vera að ræða, nýttist ekki skattgreiðendum heldur félli til ríkisins.

M.ö.o., ef menn vilja fara þessa skattaleið þá tel ég að það væri mjög nauðsynlegt, ekki síst fyrir þá félmn. sem nú hefur þetta mál til afgreiðslu sem og við lokaafgreiðslu þessa skattamálafrv., að kanna það, hvort raunhæfasta leiðin væri ekki sú að tengja þetta tvennt saman: að hækka útsvarsfrelsismörk og því næst að taka upp þetta form neikvæðs tekjuskatts sem við Alþfl.- menn höfum lagt fram till. um. Þær eru þá í því fólgnar, alveg eins og tekjuskattur á að fara stighækkandi eftir tekjum upp á við, að það fólk sem er neðan við þessi mörk fái, í stað þess að greiða skatt, raunverulega útborgaðan neikvæðan tekjuskatt. Þar með erum við að nálgast það að skilgreina einhvers konar lágmarksafkomutryggingu.

Menn kunna auðvitað eins og venjulega að spyrja að því, er varðar útsvarsleiðina, hækkun á útsvarsfrelsismörkum, hvernig á að bæta sveitarfélögunum upp þennan tekjumissi? Nú er auðvitað ljóst að það er orðið of seint að fara þá leið, sem kannske hefði verið æskilegust, að sveitarfélögin væru frjáls að því að leggja á þá útsvarsprósentu sem þau vilja, jafnvel að hækka hana á hærri tekjur, gegn því að fara þessa leið að klippa neðan af útsvarsálagningunni eða hækka útsvarsfrelsismörkin. Það er kannske ekki lengur raunhæf leið. En þá er að kanna það, hversu stóran hlut í tekjustofnum sveitarfélaga hér er raunverulega um að ræða. Um það hef ég því miður ekki upplýsingar, en ég hygg að það ætti ekki að vera mjög erfitt að afla þeirra. En ef spurt er hvaða leið við viljum fara í því efni, þá liggur fyrir okkar till. Við teljum að tekjujöfnunaráhrif af þessum aðgerðum yrðu til mikilla muna meiri en að fara t.d. þá leið sem felst í niðurgreiðslu á búvöruverði. Við höfum m.ö. o.lagt það til og bent á þá leið, að lækka verulega þá upphæð sem varið er á fjárlögum til almennra niðurgreiðslna og koma öllum til góða, ekki síst tekjuháu fólki, og verja hluta af því fremur til að standa undir millifærslum af þessu tagi, sem mundu koma milliliðalaust betur að gagni þeim sem nú búa við raunverulega neyð.