13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2794 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla eins og fleiri að bíða með hluta ræðu minnar ef svo kynni að fara að hæstv. fjmrh. kæmi í salinn.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur þegar gert grein fyrir afstöðu minni hl. í fjh.- og viðskn. til þessa frv. Það er náttúrulega margt um það að segja. Ég vil t.d. minnast á að nýlegar upplýsingar um afkomu almennings í þessu landi renna ekki beinlínis stoðum undir að fólkið í landinu eigi að bera hærri jaðarskatt en fyrirtækin. Ég legg mikla áherslu á að brtt. Guðrúnar Agnarsdóttur og fleiri nái fram að ganga. Það er mikilvægt að hafa ljósa heimild til að bregðast við skertu gjaldþoli. Nú berast á hverjum degi upplýsingar um stórkostlegra atvinnuleysi og meiri örbirgð en nokkru sinni fyrr. Þetta atvinnuleysi ásamt breytingum á afla mun vafalaust valda því að fjöldi fólks mun eiga í miklum erfiðleikum með að greiða skattana sína, þannig að ég held að brtt. hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur eigi endilega að ná fram að ganga.

Í framhaldi af því sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson talaði um vil ég segja að nú fer saman að það berast á hverjum degi upplýsingar um innreið örbirgðar á Íslandi og Alþingi er um leið að fjalla um skattamál. Þó að vísu sé takmarkað hve hægt er að beita skattakerfinu til að hjálpa þeim sem allra verst hafa kjörin held ég að bæði nefndir Alþingis og deildir ættu virkilega að nota tækifærið til að gera þær breytingar sem hægt er að gera á skattakerfinu til að bæta hag þessa fólks.

Það er kannske ekki þinglegt að grautast mikið í skattamálum núna þegar langt er liðið fram á árið 1984, en það er ekki heldur þinglegt að horfa upp á það sem virðist vera að gerast og upplýsingar berast um á hverjum degi án þess að þing reyni á nokkurn hátt að bregðast við.

Ég hafði íhugað fleiri atriði sem ég vildi vekja máls á, en mun bíða þess að hæstv. fjmrh. gangi í salinn.