13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um það frv. sem hér liggur fyrir. Það er alveg ljóst og það vita þdm. að þetta frv. er lagt fram til þess að reyna að lækka skatta svo sem unnt er. Er að því stefnt að þeir verði ekki hærri, miðað við tekjur gjaldárs, en á s.l. ári. Þetta er höfuðtilgangurinn á bak við frv. og að sjálfsögðu felur það í sér mjög verulegar skattalækkanir miðað við tekjur á skattaári. Þetta vita menn. (SvG: Vill ekki hv. þm. nefna tölur um þetta?) Ég skal ekki, hv. 3. þm. Reykv., hafa uppi langa tölu um það, en ég minni hv. þm..á hvernig hann brást við þegar hann samdi við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma um lægra kaup en elfa og lofaði skattalækkunum í þeim sömu svifum. Og ég bið hann um að reikna út hver skattbyrðin hefði orðið ef hann hefði staðið við þau verðbólgumarkmið sem sett voru fram samtímis. Ég bið hann um að rifja þetta upp. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. með almennum skattaumræðum, en hitt vil ég líka minna á og mætti hv. 3. þm. Reykn. einnig muna það, að þessir tveir ráðherrar voru ekki fyrr komnir í ráðherrasæti á árinu 1978 en þeir lögðu tekju- og eignarskatt á öðru sinni á sama árinu. Var það gert í septembermánuði 1978 og hygg ég að það sé algert einsdæmi.

En ástæðan fyrir því að ég stend upp er sú, að á þskj. 248 er gerð till. um að heimilt sé að lækka skatta ef gjaldþol skerðist verulega vegna atvinnuleysis, aflabrests, eða af öðrum skyldum orsökum. Við vitum það sem höfum lengi fjallað um skattamáf að höfuðókostur eftirágreiddra skatta er einmitt sá, að þeir koma illa niður þegar tekjur minnka verulega frá einu ári til annars. Þessi mál hafa oft verið rædd hér í þingsölum. Ég vil aðeins minna á það, að þessi mál komu sérstaklega til umfjöllunar þegar loðnubresturinn varð og bæði loðnusjómenn og menn sem unnu í loðnuverksmiðjum urðu fyrir mjög verulegum tekjusamdrætti á einu ári. Sú ríkisstjórn sem lét af völdum á s.l. vori treysti sér ekki til að fella niður skatta á þessu fólki. Á hinn bóginn var skattstjórum skrifað og þeir beðnir um að gefa einstaklingum kost á frestun á greiðslu skatta sinna, en þó þannig að greiddir yrðu fullir refsivextir. Þeim var gert að skila skattinum að fullu og með fullum refsivöxtum, þó svo að samkomulag næðist við skattstjóra eða innheimtumenn ríkissjóðs um greiðslu. Ég vil aðeins minna á þetta atriði. Ég er ekki að halda því fram að sá fjmrh. sem þá sat hafi verið illviljaður í þessu máli, síður en svo. Þetta mál er á hinn bóginn svo víðfeðmt að stjórnvöld hafa ekki treyst sér til að setja þá almennu reglu að menn eigi að greiða lægri skatt ef tekjur verða verulega lægri eitt ár en annað, en svo njóta háu teknanna ef þær vaxa að nýju. Það hefur ekki verið farið út í þetta, enda er það nú ekki réttlæti. Eina leiðin til að bregðast við vanda af þessu tagi er auðvitað staðgreiðslukerfi skatta. Við bjóðum nýju ranglæti heim ef við leiðréttum þetta. Það hefur verið reynslan, það var reynsla síðustu ríkisstjórnar þegar hún var að fást við vanda þeirra sem miklar tekjur höfðu haft af loðnuveiðum og loðnuvinnslu, og hið sama gildir að sjálfsögðu nú og fyrir tveim, þrem árum.