13.02.1984
Neðri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Bara örstutt athugasemd. Ég er nú sammála því hjá hæstv. forsrh. að vellingur er besti matur og það er hver fullsæmdur af því að neyta hans ef hann er vel tilbúinn. Hins vegar er líka gott að hafa kjöt með og ég held að það væri illa farið að koma í veg fyrir að fólk gæti neytt þess. Niðurgreiðslur hafa verið tíðkaðar hér um alllangt árabil og hafa verið notaðar fyrst og fremst sem hagstjórnartæki en ekki til að örva sölu á offramleiðslu eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vildi vera láta.

Ég verð að segja að mér þykja þetta ótrúlegar fréttir um skattsvik ef hér ætti að vera svikið undan skatti kannske upp á 12–14 milljarða eins og menn hafa verið að fullyrða hér í ræðustól með margföldun á ágiskun Ólafs Björnssonar. Ég vil vekja athygli á því að þegar Ólafur Björnsson áætlaði þessa tölu sína voru hér önnur skattalög og vonandi hefur okkur farið eitthvað fram í lagasetningu og innheimtu síðan. Það getur vel verið að veruleg skattsvik viðgangist hér en ég fæ mig ekki til að trúa svona að óreyndu fullyrðingum upp á 12–14 milljarða.