14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans. Þau voru upplýsandi svo langt sem þau náðu. Ég verð þó að lýsa yfir furðu minni yfir mati hans á þessu máli því að hann telur sig annars vegar geta fullyrt að skýrslan hafi ekki borist úr hans rn. Þar með hlýtur hópur þeirra sem við þetta mál voru riðnir upphaflega að þrengjast nokkuð og því vera augljós möguleiki að komast fyrir um hver af þeim aðilum sem skýrsluna hafði undir höndum hefur látið hana Morgunblaðinu í té. Að öryggisvarsla Íslendinga í málum sem þessum eigi að hvíla á því hvort Morgunblaðið vill eða vill ekki gefa upp hver afhenti þeim skýrsluna virkar nánast eins og skrýtla á mann því að maður hefði haldið að öryggismálum hér væri betur komið en svo að menn væru upp á upplýsingar komnir sem kæmu frá einhverjum og einhverjum aðilum utan úr bæ. Ég get ekki samþykkt það fyrir mitt leyti að þetta mál sé það lítilsgilt burtséð, eins og ég sagði áðan, frá innihaldi skýrslunnar að pappírar sem merktir eru trúnaðarmál og koma inn í rn. en eru bornir þaðan af öðrum mönnum sem um málin hafa fjallað séu virkilega ekki þess eðlis að það þarfnist rannsóknar og að þess verði krafist að slík rannsókn komist að einhverri ákveðinni niðurstöðu og dragi þá menn til ábyrgðar sem við málið eru riðnir.