14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst einhver undarleg léttúð svífa yfir vötnum ráðuneytismanna vegna þessa máls. Það er eins og þetta sé einhvers konar leiðinlegt óhapp sem hafi skeð, að plögg sem eru merkt trúnaðarmál frá utanrrn. séu komin út um víðan völl. Ég held að menn hljóti að hafa þann metnað fyrir hönd rn. og ríkisstj. að reyna að komast til botns í því hvernig á því stendur að slíkt trúnaðarmál virðist vera á hvers manns vörum. Menn hljóta að sækja það fastar en svo að menn láti gott heita að fá eitt nei sem niðurstöðu slíkrar rannsóknar.

Í öðru lagi þá hlýtur þetta að vera, ef til lengri tíma er litið, spurning um það traust sem menn telja sig geta borið til skjalavörslu ríkisins, bæði almenningur og embættismenn.