26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

11. mál, launamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. flutti hér áðan alllangt mál að því er mér skildist um afstöðu sína og síns þingflokks til brbl. sem hér eru til umr. Og hvert leiddi svo allt þetta langa mál hæstv. utanrrh.? Jú, hann komst svona í stórum dráttum að því að það mundi sennilega ekki veita af þremur mánuðum til þess að gera kjarasamninga, þeir tækju oft langan tíma. Og síðan komst hann að þeirri niðurstöðu og lýsti því yfir að þingflokkur hans og hann sjálfur þar með mundu samþykkja þessi brbl. hér í þinginu en þeir væru þó að sjálfsögðu tilbúnir í að breyta þeim í einstökum atriðum ef þannig verkaðist. Ég held að til séu í íslensku máli tvö stutt og laggóð o:ð sem hefðu sagt miklu meira en þessi langa ræða um afstöðu hæstv. utanrrh. og þau eru já og nei. Eru þm. Sjálfstfl. hér á Alþingi tilbúnir til þess að fella út úr þessum brbl. þau ákvæði sem afnema samningsréttinn í landinu? Já eða nei, þessu á að vera hægt að svara svona.

Það er skoðun mín að með setningu þeirra brbl., sem hér eru til umr., hafi hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr, rænt sjálfa sig því veganesti sem mikilvægast ætti að vera og nauðsynlegast hverri stjórn. Með því að taka af launþegum þegar á öðrum starfsdegi sínum samningsréttinn þá skapaði þessi ríkisstjórn sér megnustu tortryggni og andúð launþega þegar í upphafi starfsferils síns. Menn eiga því ekki að venjast hér í þessu landi að nýjar ríkisstjórnir kynni sig með þessum hætti. Þau vinnubrögð og þau viðhorf, sem þarna opinberast, ættu að heyra fortíðinni til. Með þessu eru þessir menn að stíga aftur í tímann — marga áratugi aftur í tímann til þess að atvinnurekendur og stjórnvöld skammti launþegum úr hnefa eftir því sem þeim þóknast. Ágreiningurinn snerist ekki um það eins og oft hefur verið haldið fram hér í þessum stóli hvort eitthvað þyrfti að gera eða ekki. Það voru allir sammála um það hér í vor að efnahagsráðstafanir þyrfti að gera. Það voru hins vegar deildar meiningar um það hverjar þær ættu að vera og hvernig ætti að þeim að standa og það er það sem þessi umr. hér hlýtur að snúast um að verulegu leyti.

Engri stjórnmálahreyfingu á Íslandi nema Framsfl. — ekki einu sinni Sjálfstfl. — datt í hug né hefur dottið í hug fram að þessu að fara þá leið að afnema samningsréttinn sem raun varð á og í þessum brbl. felst. Það hefur komið fram oftlega að undanförnu og þessi hugmynd er ættuð frá Framsfl. Þeir hafa gengist við króanum. Þetta eru endurbætur hugmyndafræðinga

Framsfl. á leiftursóknarstefnu sjálfstæðismanna. Það hefur og komið fram að þessi tilhögun er málamiðlun, m.ö.o. skemmra en þetta gat Framsfl. ekki hugsað sér að ganga í því að afnema samningsréttinn. Ég tel að afnám samningsréttar og bann við vísitölubindingu á laun — já, jafnvel bann við því að reikna hana út — sé siðleysi og algjörlega óhæf framkoma gagnvart launþegasamtökunum í landinu.

Í gærdag gerðist sá atburður að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar gengu af fundi, sem hæstv. forsrh. boðaði til, til að ræða um þjóðhagsáætlun. Í bréfi, sem fulltrúar viðkomandi launþegahreyfinga sendu hæstv. forsrh. í framhaldi af þessum atburði, segir eftirfarandi, með leyfi forseta: „Á samráðsfundi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í dag var af okkar hálfu spurt um það hvort ríkisstjórnin hafi endurskoðað afstöðu sína til samningsréttar samtakanna. Afstaða ríkisstjórnarinnar reyndist óbreytt þó svörin væru ekki eins afdráttarlaus og áður. Varð því niðurstaðan sú að fulltrúar okkar samtaka ákváðu að tefja ekki lengur á þessum samráðsfundi en skoruðu á ríkisstjórnina að endurskoða afstöðu sína.

Það er ljóst að aðilar án samningsréttar hafa ekki eðlilega aðstöðu til efnislegra viðræðna og á það ekki síst við um þætti eins og forsendur þjóðhagsáætlunar sem óhjákvæmilega tengjast samningaviðræðum með beinum hætti. Samtök okkar hafa lýst sig fús til viðræðna við stjórnvöld fái þær viðræður að fara fram á jafnréttisgrundvelli. Með góðri þátttöku í undirskriftasöfnun samtakanna hafa félagsmenn okkar áréttað stuðning sinn við kröfuna um samningsrétt. Óski stjórnvöld eftir samráði við samtök launafólks hljóta þau því að koma til móts við þann eindregna vilja.

Við ítrekum því kröfu samtakanna og skorum á ríkisstjórnina að þæfa málið ekki frekar en beita sér fyrir því að samtökin fái samningsréttinn án tafar.“

Og undir þetta rita fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Sambands íslenskra bankamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Ég held að þetta svari ágætlega þeim ummælum sem hæstv. utanrrh. hafði hér um tímaeyðslu í þessu sambandi. Það er alveg ljóst hver er að eyða tímanum þegar þetta bréf frá launþegahreyfingunni liggur fyrir. Hver urðu viðbrögð hæstv. forsrh.? Hann varð forundrandi og harmaði þetta ákaflega. Málgagn hæstv. forsrh., Tíminn, birtir í morgun hið mjög svo jákvæða svar sem hæstv. forsrh. að eigin sögn gaf fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar við spurningunni um það hvort ríkisstjórnin hefði endurskoðað afstöðu sína til samningsréttarins. Og lítum nánar á þetta jákvæða svar — á þetta mjög svo jákvæða svar. Dagblaðið Tíminn hefur það eflaust rétt eftir hæstv. forsrh. og með leyfi forseta:

„Steingrímur sagði“ segir Tíminn „að þjóðhagsáætlun hefði verið skýrð í upphafi fundarins og þegar almennar umræður hefðu hafist þá hefði Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, krafist svars við þeirri spurningu hvort ríkisstjórnin væri reiðubúin til þess að fetla niður ákvæðið um bann á samninga fram til 31. janúar og sagðist forsrh. hafa svarað þeirri spurningu á sama máta og hann hefði gert í þingræðu í fyrradag en þar sagðist hann telja sjálfsagt að þingið skoðaði þann möguleika og að ríkisstjórnin legði áherslu á meginmarkmiðið að koma verðbólgunni niður í 30%. Ef það væri tryggt þá teldi ríkisstjórnin vel koma til reina athugun á breytingu sem þessari á lögunum. „Ég tel því að ég hafi verið mjög jákvæður í þessu svari mínu,“ sagði forsætisráðherra, „en það dugði ekki til...“

Og ég spyr nú bara hæstv. forsrh. Átti verkalýðshreyfingin og á hún að gangast í persónulega ábyrgð fyrir því að markmið hæstv. forsrh. í efnahagsmálum nái fram að ganga? Eiga þeir að veðsetja eignir sínar og hús sín og tryggja forsrh. það að þeir muni bæta honum skaðann ef þessi markmið nái ekki fram að ganga? Er það það sem verið er að fara fram á hér? Og með leyfi forseta langar mig til að vitna aftur í Tímann og áfram er það Steingrímur Hermannsson sem talar:

„Ég verð að segja það,“ sagði forsrh., „að ég harma þetta því ef mönnunum er alvara um að ná samningum sem fyrst. Þá veitir ekkert af að hefja viðræður.“ Og svo segir hann: „Það er ekkert sem bannar það að viðræður séu hafnar — og hér kemur nú rausnin. Það er sko ekkert í þessum brbl. sem bannar það að viðræður séu hafnar. Og áfram: „enda hef ég og reyndar fleiri ráðherrar lagt áherslu á að þær þyrftu að byrja. Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin tekið mjög jákvætt í tillögur ASÍ og BSRB og óskað eftir því hvað eftir annað að fá frá þeim tillögur um það hvernig viðræður um fjárfestingarmál, opinbera geirann og fleira gætu best farið fram en við höfum engar ábendingar fengið um það.“ Forsætisráðherra sagði jafnframt: „Ég lít á þennan atburð sem ákveðinn þátt í sýningu og vona að þegar sýningunni er lokið þá átti menn sig á því að það er alltaf réttast að ræðast við og reyna að leysa málin með samkomulagi.“ Og það var nú það.

Hæstv. forsrh. er aldeilis hlessa og hann harmar það að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar skuli ekki vilja sitja og rabba .við hann svona í ró og næði í huggulegheitum yfir kaffibolla sennilega þó að það vanti samningsrétt. (Gripið fram í: Hjá hinum.) Já, og hvað varðar hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson um það þó krafa verkalýðshreyfingarinnar um samningsrétt sé studd af tæplega 36 þús. undirskriftum launþega í landinu. Ekkert, ekki nokkurn skapaðan hlut. Úr því að hann fékk ekki heimilisföngin þá kemur honum þessi undirskriftasöfnun ekkert við. Og hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson talaði líkt og véfrétt á fundi suður í Hafnarfirði á dögunum sem segir að það sé ekki mark að draumum nema Sverrir Hermannsson, hæstv. iðnrh., sagði: Það er ekki mark að undirskriftum.

Nei, það virðist ekki valda þessum herramönnum ósköp miklu hugarangri þótt tæplega 36 þús. launþegar í landinu krefjist samningsréttar. Og þegar fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar undirstrika mikilvægi þessarar kröfu sem þeir gerðu í gær þá heitir það „sýning“ á máli hæstv. forsrh. Það er einhvers konar sýning. Hann ætlast til þess m.ö.o. maðurinn að fulltrúar launþega í landinu setjist niður og ræði forsendur þjóðháðsáætlunar, rabbi við hann um ástand og horfur í efnahagsmálum án þess að þeir hafi nokkurt vald, án þess að þeir hafi lagalegan rétt til þess að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna og gera þar með skyldu sína. Það er búið að taka af verkalýðshreyfingunni með banninu við kjarasamningum réttinn til þess að gera skyldu sína og gæta hagsmuna launþega. Þeir hafa því í sjálfu sér um ósköp lítið að ræða við hæstv. ráðherrana og það hefur ósköp lítið upp á sig að þeir séu að rabba svona saman fyrr en og ef þeir fá samningsréttinn aftur. Þetta ættu hæstv. ráðherrar að fara að skilja.

Verkalýðshreyfingin er í fjötrum. Hún er handjárnuð á bak og hún er heft á fótum og það hefur aldrei þótt merki um gott réttarfar svo ekki sé nú minnst á lýðræðisleg vinnubrögð að annar aðilinn væri bundinn á pínubekk þegar setjast ætti við samninga. Svo er hæstv. forsrh. hissa og harmar og grætur það að verkalýðshreyfingin skuli ekki vera þægileg og góð þegar hann vill fá hana til að rabba við hana um samninga. En verkalýðshreyfingin hefur einmitt rétt fram hendurnar og sagt við hæstv. herra forsrh.: Viltu taka af okkur handjárnin? Og hverju hefur hæstv. forsrh. svarað? Jú, ég er svo sem til í það, segir hann, ef ég má binda ykkur með einhverju öðru, ef ég má t.d. binda ykkur með girni, svona grannri sterkri nælonlínu svipaðri þeirri sem er notuð á laxveiðum. Það er allt í lagi að taka af ykkur handjárnin og leysa af ykkur haftið ef ég má binda ykkur með einhverju öðru í staðinn. Þetta er auðvitað gamla svarið um það að það er allt í lagi að gefa ykkur samningsréttinn ef þið bara notið hann ekki.

Það vekur nokkra athygli manna sem hlusta á mál þeirra hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar og Geirs Hallgrímssonar að þeir vísa mikið í þinglega meðferð þessara brbl. Þeir segja að málið sé komið til kasta Alþingis og það sé sjálfsagt að þingið skoðaði þetta eða hitt. En hvers vegna er svona talað? Það er verið að spyrja um afstöðu hæstv. ríkisstj. Það er verið að spyrja hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson hvað honum finnist um þetta ákvæði samningsréttarins og hann skýtur sér á bak við þingið. Hvers vegna talar maðurinn svona? Því er ekki sagt já og nei þegar spurt er um þessi bláeinföldu atriði? Því er ekki notað skýrt orðafar? Er það kannske vegna þess að þessir menn eru í einhverjum vafa um að meiri hl. Alþingis standi að baki ríkisstj. hvað þetta varðar? Ég spyr. Eða leikur kannske einhver vafi á því að þetta ákvæði um bann við samningsréttinn komist í gegnum þingið? Er það þess vegna sem svona orðaleikur er hér við hafður?

Það var ljóst þegar í vor að launþegar á Íslandi höfðu tekið á sig kjaraskerðingu vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar höfðu verið í efnahagsmálum, um það bil sem nam falli þjóðartekna þá. Það var þar við þessa markalínu sem Alþb. vildi verjast a.m.k. hvað kjör hinna lægst launuðu varðaði. En kjaraskerðingarstefna núv. ríkisstj. gengur jafnt yfir alla og þar af leiðandi bitnar hún þyngst á þeim sem minnst hafa og þetta segi ég minnugur þeirra svokölluðu mildandi aðgerða sem hæstv. ríkisstj. gerði hér í vor. Ég segi þetta minnugur þeirra því að þær voru að mínum dómi þess eðlis að hefði mönnum á annað borð verið hlátur í huga á Íslandi í vor þá hefðu þeir hlegið að þessum svokölluðu mildandi aðgerðum og hækkun í krónutölu sem var auðvitað hægt að kalla 100%. Það var af því að krónurnar voru svo fáar.

Það sem að mínum dómi er næstverst við þessi lög, fyrir utan afnám samningsréttar og grófa kjaraskerðingu, er að þetta eru algerlega einhliða lög. Þetta er einhliða kaupmáttarskerðing og afnám á réttindum launþega. Þetta eru m.ö.o. ekki lög sem binda skyldur atvinnurekenda á erfiðleikatímum. Þetta eru ekki lög sem lögbinda skyldur eignanna. Þetta eru ekki lög sem draga úr umsvifum milliliða eða annarra í þjóðfélaginu. Nei, þetta eru einhliða lög á almenning þar sem honum er gert að axla byrðarnar á erfiðleikatímum og honum einum.

Hæstv. utanrrh. sem hér talaði áðan, hefði að mínum dómi getað sparað bæði sjálfum sér og ríkiskassanum útgjöldin af ferð sinni til Madrid á dögunum. Hann fór að mínum dómi yfir lækinn til þess að sækja vatnið eða leita með öðrum orðum langt yfir skammt, þegar hann fór til Madrid til að halda þar ræðu um réttindaleysi launþegahreyfinga úti í heimi. Það var nógur efniviður í ræðu handa ráðh. hér heima á Íslandi og það voru líka nógir sem hefðu haft gott af því að hlusta á boðskapinn, m.a. hæstv. starfsbræður hans í ríkisstj. Og ég geri það að till. minni hér að hæstv.utanrrh., Geir Hallgrímsson, láti þýða þessa ræðu sína og lesi hana á næsta ríkisstjórnarfundi. Það væri þarfur boðskapur fyrir starfsbræður hans að hlýða á. (ÓÞÞ: Hví ekki hér í þinginu?) Ég vona að það komi í ljós við atkvgr. um þessi lög, sem verður sennilega bráðlega, að hæstv. utanrrh. sé trúr sinni sannfæringu um nauðsyn á frjálsri og óskertri starfsemi verkalýðshreyfinga sem hann talaði svo fagurlega fyrir úti í Madrid á dögunum. Hann hefur nú ágætis tækifæri til að undirstrika áhuga sinn á þessum málum og vera trúr sinni sannfæringu.

Það er skoðun mín, herra forseti, að lög þau, sem hér eru til umr., séu ranglát og óréttmæt og það beri að afnema þau hið fyrsta, þannig að aðilar vinnumarkaðarins geti aftur sest niður sem jafningjar og samið um kaup og kjör hér á landi. Annað er óhæfa að mínum dómi og engan veginn samrýmanlegt þeim lýðræðisháttum sem við viljum búa við og byggja á.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.