14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, spurðist fyrir hvort utanrrh. ætlaði ekki að hlutast til um það að skjalið verði gert opinbert og kvaðst hafa minnst á það á fundi utanrmn. Ég vil af því tilefni segja að ég tel það ekki innan verkahrings utanrrn. að hafa frumkvæði að því að gera þetta skjal opinbert. Þeir sem sennilega hafa merkt þetta skjal sem trúnaðarmál eru væntanlega höfundar skýrslunnar. Þeir geta hvenær sem er birt þessa skýrslu ef þeir svo kjósa. Það verður þá að vera að frumkvæði þeirra þegar það verður.

Þá spurði hv. þm. hvenær trúnaði verði aflétt. Ég hygg að það hafi verið oftar en einu sinni gerð tilraun hér til að semja löggjöf um þessi efni, þ.e. um birtingu opinberra skjala. En þær tilraunir hafa, ef mig minnir rétt, runnið út í sandinn vegna þess að slíkar reglur er erfitt að setja. En ég get vel tekið undir það sem hér hefur komið fram í umr. að æskilegt væri að slíkar reglur væru til. Það sem kann að vera trúnaðarmál í eitt skipti þarf ekki að vera það um aldur og ævi.

Þá spurði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson: Á hvaða rökum er byggt að þessi skýrsla hafi ekki lekið frá utanrrn.? Ég hlýt fyrst og fremst að byggja þar á þeim umsögnum sem þeir menn er fara með vörslu trúnaðarskjala í utanrrn. hafa gefið mér. Einkum er athyglisvert að skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið er talið að þessi skýrsla hafi á þeim tíma sem hún var gerð verið í höndum allmargra manna. Þess vegna er frekar ætlandi að frá þeim sé þessi skýrsla komin en utanrrn. sem geymir trúnaðarmál með sérstökum hætti þar sem hver sem er hefur ekki aðgang að þeirri skjalageymslu. Hv. þm. Stefán Benediktsson spurðist fyrir um það hvort ég hefði enga athugasemd að gera við það að skýrsla sem merkt er trúnaðarmál og send utanrrn. sé birt opinberlega. Auðvitað hef ég þá athugasemd að gera við það að slíkt er ekki eðlilegur framgangsmáti. En á hinn bóginn tek ég það ekki nærri mér, ekki eingöngu vegna þess að ég var ekki ábyrgur fyrir vörslu þessa skjals eða fylgdist með tilurð þess eða geymslu þegar það barst rn., heldur vegna hins að ég tel að þetta skjal hafi farið í gegnum hendur svo margra manna og efni þess sé — í það minnsta nú orðið — þess eðlis að það sem úr því hefur verið birt skaði ekki hagsmuni Íslands og raunar sé ég ekkert í því sem það gerir eins og nú standa sakir.

Þá ræddi hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson um þátt Morgunblaðsins í þessu efni og minntist sömuleiðis á það hvort ekki væri tími til kominn að svipta skýrsluna auðkenni sem trúnaðarmáli. Ég vil aðeins ítreka það að meðan engar reglur eru til sé ég ekki ástæðu til þess að utanrrn. hafi frumkvæði að þessu leyti heldur hljóti það frumkvæði að hvíla á höfundum skýrslunnar.

En ég hlýt að mótmæla mjög kröftuglega þeim getsökum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að einhverjir Treholtar væru innan utanrrn. Ég tel þetta mál eða annað ekki gefa tilefni til svo alvarlegra getsaka eða getgátna og vil því taka þau orð sem síðar féllu af vörum þessa hv. þm., að hann vildi ekki vera með neinar getgátur um það hvaðan plaggið er komið, góð og gild.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson taldi að um ákveðna léttúð væri að ræða af hálfu rn. varðandi þetta mál

Ég tel svo alls ekki vera. En hins vegar getur rn. ekki verið að eltast við rannsókn þessa máls þegar það er talið hafa verið í höndum allmargra manna og þessi skýrsla gat því hafa komið hvaðan sem væri. Ég hef kynnt mér nokkuð hvernig háttað er skjalavörslu trúnaðarmála í utanrrn. og að mínu mati er þar tryggilega frá öllu gengið. Ég sé enga ástæðu til að ætla að þeir sem ábyrgð bera á vörslu slíkra skjala séu ekki starfi sínu vaxnir og trúverðugir í alla staði.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi það sérstaklega athugandi að í þessu máli væri utanrrh. og formaður útgáfustjórnar Morgunblaðsins einn og sami maðurinn. Ég tek þetta ekki nærri mér, svo smekklega athugasemd sem hv. þm. gerir með þessum hætti. En ég get fullvissað hann um að starfshættir Morgunblaðsins eru í stuttu máli þeir að ritstjórn blaðsins er sjálfstæð og óháð útgáfustjórn. Útgáfustjórn kveður ekki á um það hvað er birt í Morgunblaðinu og hvað er ekki birt í Morgunblaðinu, það er á ábyrgð ritstjórnar. Þetta sjálfstæði ritstjórnar er þessum hv. þm. líklega óskiljanlegt, svo vanur sem hann er sósíalísku hugarfari og einræðishneigð þar sem öllu skal stjórnað af Flokknum með stórum staf og Stóra Bróður.

Ég get sagt það sem svar við fsp. hv. þm.utanrrh. þurfti einmitt af þeim sökum sem ég nú hef skýrt ekki sérstaklega að hafa formann útgáfustjórnar með í ráðum. Ég tel að ég skilji á milli þeirrar ábyrgðar sem ég ber sem utanrrh. og þeirrar ábyrgðar sem ég ber vegna annarra trúnaðarstarfa. Ábyrgð mín sem ráðh. er óumdeilanlega sú sem hlýtur að víkja öðrum trúnaðarstörfum til hliðar. Meðan ég tel að ég þurfi ekki að víkja þeim til hliðar gegni ég þeim. En um leið og ég kemst að þeirri niðurstöðu að svo geti ekki verið mun ég segja af mér öðrum trúnaðarstörfum en ráðherrastörfum.

Ég sé ekki ástæðu til fleiri orða um þetta mál að sinni.