14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka auðsýnda velvild. Ég kem nú hér eingöngu upp vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur orðið á ákveðinn hátt tvísaga í þessu máli. Núna seinast segir hann að höfundar skýrslunnar séu einráðir um það hvenær þeir birti þessa skýrslu en í upphafi máls síns sem svar við minni fsp. sagði hann greinilega að ráðh. ákvæði dreifingu skýrslunnar. Þar með eru höfundar náttúrlega ekki einráðir um það hvenær skýrslan er birt eða öllu heldur geta þeir ekki gert það öðruvísi en í samráði við ráðh. Að ráðh. ákveði dreifingu skýrslunnar segir okkur náttúrlega fleira. Hann veit hvert skýrslunni hefur verið dreift, þ.e. hverjir hafa hana undir höndum, og ræður, eins og áður er sagt, hvenær birt er.

Ráðh. sagði annað í sínu máli núna seinast sem ég hjó eftir, ég vona að það hafi kannske að einhverju leyti verið mismæli. Hann sagðist ekki vera ábyrgur fyrir vörslu þessa skjals sem þýðir þá annað tveggja að hann telur sig einfaldlega ekki bera ábyrgð á því á einn eða annan hátt hvað verður um þetta skjal eða að hann veit að þetta skjal var farið til Morgunblaðsins áður en hann settist í ráðherrastól.

Ég get verið sammála hæstv. ráðh. um að innihald þessarar skýrslu, að svo miklu leyti sem maður hefur í það rýnt, skaðar ekki hagsmuni Íslendinga. En ég tel að sá skortur á málafylgju sem hér hefur orðið vart skaði hagsmuni Íslendinga.