14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2811 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Menn heyrðu hæstv. utanrrh. greina frá því að það væri hans mat að það skaðaði ekki íslenska hagsmuni að þessi skýrsla yrði í heild sinni birt almenningi. Hins vegar vísaði hæstv. ráðh. því frá sér og sínu rn. að beita sér fyrir birtingu skýrslunnar og það væri verkefni höfunda hennar að hafa um það frumkvæði. Ég tel þetta furðulega afstöðu eins og þetta mál er vaxið. Hæstv. ráðh. hefur ekki getað greint hér frá neinni könnun eða rannsókn þessa máls heldur aðeins viðtölum sem hann hefur átt við sína embættismenn varðandi vörslu gagna almennt og dregur af því sínar ályktanir. Það liggur þannig ekkert fyrir, engin niðurstaða rannsóknar um það hvaðan þessi skýrsla er komin í hendur Morgunblaðsins en þar hafa birst hlutar úr þessari skýrslu.

Ég tel það vera eðlilegt ef ekki skyldu þess aðila sem ræður yfir þessu gagni sem trúnaðarmáli fyrir hönd íslenska ríkisins að hann hafi að því frumkvæði að kanna bæði að eigin mati — og það mat höfum við heyrt hér frá hæstv. ráðh. — og að mati höfunda skýrslunnar, hvort ekki sé óhætt að birta þessa skýrslu. Ég tel að almenningur í landinu eigi kröfu á að sjá þetta málsgagn í heildinni eins og mál hafa þróast varðandi það. Ég skora á hæstv. ráðh. að endurskoða afstöðu sína og hafa um það frumkvæði að trúnaði verði aflétt af þessu málsgagni, láta þá einnig á það reyna gagnvart höfundum skýrslunnar og að hún verði út gefin.