14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2813 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

418. mál, geislavirk mengun í Norður-Atlantshafi

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 318 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. utanrrh. um geislavirka mengun í Norður-Atlantshafi. Undanfarin ár hafa af og til birst greinar í erlendum tímaritum og okkur borist fregnir með margvíslegum hætti af losun geislavirks úrgangs á hafsvæðum jarðarinnar. Af þeim má ráða að losun slíks úrgangs í hafið sé umtalsverð og þá ekki hvað síst á hafdýpinu suður af landgrunni Íslands. Mun þannig vera um þennan úrgang búið að hann er í einhvers konar tunnum sem ekki eru betur úr garði gerðar en svo að áættað er að um þriðjungur þeirra springi á leiðinni niður á hafsbotn, að annar þriðjungur þeirra springi innan 10 ára frá því að þeim er varpað í hafið og afgangurinn láti undan þrýstingi á hafsbotni og springi innan u.þ.b. 50 ára. Á árinu 1982 er talið að um 12 þús. tonnum af geislavirku efni hafi með þessum hætti verið sökkt í Norður-Atlantshafið.

Engum blöðum er um það að fletta hve ógnvænleg áhrif mengun af þessum sökum hefur á allt líf til lands og sjávar og ætti það að liggja einkar ljóst fyrir okkur Íslendingum vegna þess hve nátengd lífsafkoma okkar er afurðum sjávarins. Vitað er að mengun af þessu tagi skilar sér með tíð og tíma inn í lífskeðju jarðarinnar allrar og jafnframt er vitað að hægfara geislavirkni leiðir til ýmissa banvænna sjúkdóma í mönnum eins og blóðkrabbameins og getur einnig valdið erfðabreytingum ýmiss konar. Mengun vegna losunar geislavirks úrgangs í hafið hefur því í reynd í för með sér hægfara dauða fyrir allt það sem lífsanda dregur á þessari jörð og má jafna áhrifum hennar við áhrif gereyðingar sprengjunnar sem okkur eru nú fullkomlega ljós. Munurinn er aðeins sá að við sem nú lifum munum sennilega ekki farast af þessum sökum heldur afkomendur okkar og ekki í einu vetfangi heldur smám saman. Skammsýni og lífsfyrirlitningu þeirra sem fyrir því standa að menga náttúru jarðar á þennan máta eru engin takmörk sett og er það beinlínis tilvistarspurning fyrir jarðarbúa að stöðva nú þegar þessa óhugnanlegu aðför að lífsskilyrðum á jörðinni. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. utanrrh. í fyrsta lagi: Hvernig er fylgst með og hvaða upplýsingar eru fyrir hendi í utanrrn. um losun geislavirks úrgangs í Norður-Atlantshaf og mengun sjávar af þeim sökum? Og í öðru lagi: Hafa stjórnvöld beitt sér fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir geislavirka mengun í hafinu kringum Ísland?