14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2814 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

418. mál, geislavirk mengun í Norður-Atlantshafi

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Þar sem hv. fyrirspyrjandi, 11. þm. Reykv., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, greindi frá fsp. sérstaklega þarf ég ekki að endurtaka þær. Ég hef óskað eftir því að starfsmenn utanrrn. hefðu samráð við siglingamálastofnun ríkisins sem annast framkvæmd milliríkjasamninga á þessu sviði við samningu eftirfarandi grg. sem er svar við fsp.

Ísland er aðili að svonefndri Lundúnasamþykkt frá 1972 um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna. Samþykktin var staðfest skv. heimild í lögum nr. 53 frá 1973, þ.e. lögum um heimild fyrir ríkisstj. til að staðfesta fyrir Íslands hönd atþjóðasamning er gerður var 29. des. 1972, um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það. Samþykktin hefur lagagildi á Íslandi sbr. 3. gr. laganna.

Í samþykktinni eru ákvæði er takmarka losun geislavirkra efna í hafið, þ.e. þegar úrgangi er varpað í hafið. Þannig er í samþykktinni í viðauka I lagt algert bann við losun efna sem eru geislavirk í ríkum mæli. Ef um er að ræða efni eða úrgang sem inniheldur geislavirk efni í litlum mæli á stjórnun skv. samþykktinni að tryggja að losun valdi ekki mengun sjávar. Er um það fjallað í viðaukum II og III. Eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða hefur verið í höndum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og Kjarnorkustofnunar OECD. Á Norður-Atlantshafi er eitt svæði þar sem losun geislavirkra úrgangsefna hefur átt sér stað í samræmi við eftirlitskerfi samþykktarinnar. Svæðið er um 4000 km2 að stærð og er um 700 km suðvestur af Írlandi og 700 km norðvestur af Spáni.

Alþjóðasiglingamálastofnunin annast almenna framkvæmd samþykktarinnar í umboði aðildarríkjanna. Þar sem Siglingamálastofnun ríkisins sér um samskipti Íslands við stofnunina var ákveðið að fela henni að annast framkvæmd Lundúnasamþykktarinnar hér á landi. Í Siglingamálastofnun starfar sérstök mengunardeild. Tilkynningar ríkja um losun og almennar upplýsingar um þetta mál eiga að berast Siglingamálastofnun annaðhvort beint eða fyrir milligöngu utanrrn.

Ísland er enn fremur aðili að svonefndum Parísarsamningi um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum. Samningurinn var staðfestur skv. heimild í lögum nr. 67 frá 1981, lögum um heimild fyrir ríkisstj. að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, og hafa ákvæði hans lagagildi hér á landi sbr. 2. gr. laganna. Siglingamálaráðherra fer með mál er varða samninginn og annast siglingamálastjóri eftirlit með framkvæmd samningsins á vegum ráðh. sbr. 4. gr. laganna. Sérstök nefnd, svokölluð Parísarnefnd, var sett á stofn skv. samningnum og eiga fulltrúar frá öllum aðildarríkjum sæti í henni. Embættismenn Siglingamálastofnunarinnar hafa sótt fundi nefndarinnar fyrir Íslands hönd.

Í samningnum eru ákvæði er skuldbinda aðila til að takmarka stranglega losun geislavirkra úrgangsefna í frárennsli frá landi. Til skamms tíma hefur ekki þótt ástæða til að fjalla sérstaklega um þennan þátt mengunar hafsins á vegum Parísarnefndarinnar þar eð starfsemi annarra atþjóðastofnana hefur verið talin fullnægjandi hvað varðar mengunarvarnir. Frá árinu 1982 hefur þetta mál þó verið tekið sérstaklega á dagskrá hjá nefndinni. Vegna umfjöllunar á næsta fundi nefndarinnar í júní n.k. vinna aðildarríkin nú hvert fyrir sig að því að meta heildarmagn og geislun þess úrgangs sem losaður er í sjó frá landstöðvum. Er þess vænst að þessar upplýsingar liggi fyrir á júnífundinum þannig að hægt verði að meta hvort sérstakra aðgerða sé þörf. Reiknað er með því að komið verði á fót sérstakri eftirlitsnefnd þar sem fylgst verður með geislun í hafi.

Íslensk stjórnvöld hafa staðið að margvíslegum aðgerðum vegna losunar geislavirkra efna enda Ísland í sérstöðu vegna legu sinnar og þess hversu mjög Ísland er háð sjávarafurðum. Undanfarin ár hafa 4 ríki stundað losun geislavirks úrgangs, Bretland, Sviss, Belgía og Holland. Árið 1979 lét utanrrn. senda orðsendingar til stjórnvalda þessara ríkja og var lýst áhyggjum íslenskra stjórnvalda vegna slíkrar losunar.

Á fundi aðildarríkja Lundúnasamþykktarinnar í febr. 1983 var fjallað um tillögur um algert bann við losun geislavirks úrgangs. Ísland stóð ásamt hinum Norðurlöndunum að till. um að banna alla losun frá og með 1. jan. 1990 og um hert eftirlit fram að þeim tíma. Ekki náðist samkomulag um breytingar á Lundúnasamþykktinni en staðfest var ályktun þar sem aðildarríki voru hvött til að hætta losun þar til niðurstöður sérstakrar könnunar liggja fyrir. I framhaldi af þeirri ályktun komu Norðurlöndin sér saman um að beina tilmælum til breskra stjórnvalda um að falla frá fyrirætlunum um að losa geislavirk efni s.l. sumar.

Mál þetta verður aftur á dagskrá á næsta fundi aðildarríkja Lundúnasamþykktarinnar 20. 24. þ.m. Magnús Jóhannesson, settur siglingamálastjóri, verður fulltrúi Íslands á fundinum.

Íslensk stjórnvöld hafa stutt tillögur um auknar rannsóknir á áhrifum geislavirks úrgangsefnis, t.d. á vegum Kjarnorkustofnunar OECD og Parísarnefndarinnar. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur hingað til aðeins fjallað um áhrif geislavirks úrgangs vegna losunar en tekur nú þátt í störfum nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem metur áhrif alls geislavirks efnis í hafinu.

Ég vænti þess að ég hafi svarað fsp. hv. þm. með þessari greinargerð.