14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2815 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

418. mál, geislavirk mengun í Norður-Atlantshafi

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. greinargóð svör og ég fagna því að ýmislegt er á döfinni og hefur verið á döfinni hjá stjórnvöldum í þessum efnum. Þó verð ég að segja að mér finnst þetta heldur hægfara. Við vitum að þegar er um stórkostlega hættu af þessum sökum að ræða. Ef ég skildi hæstv. utanrrh. rétt á að halda fund í júní í Osló þar sem tekin verður ákvörðun um aðgerðir. Það er að vísu ekki langt til júnímánaðar en heldur hefði ég viljað að við beittum okkur fyrr í þessu máli. Þetta er mál sem þolir enga bið.

Ég vil líka sérstaklega undirstrika nauðsyn þess að farið sé að huga að leiðum til að hreinsa upp þann úrgang sem þegar hefur farið í hafið að svo miklu leyti sem það er hægt. Ég veit að til þess þurfum við, og ekki bara við heldur öll þau ríki sem í hlut eiga, að veita umtalsverðum fjármunum í rannsóknir og þekkingaröflun á því hvað er hægt að gera til að hreinsa þennan úrgang úr hafinu. Tel ég að mjög mikilvægt sé og vil beina því til hæstv. utanrrh. að hann gefi þessu máli sérstakan gaum fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi.

Annars hvet ég almennt til þess að þm. hafi vakandi auga með þessum málum og stuðli að því að við reynum að gera það sem í okkar valdi stendur til að hamla hér á móti.