14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

419. mál, gæða- og öryggisreglur varðandi hjólbarða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svar hans, en jafnframt verð ég að lýsa vonbrigðum með það sem fram kom í hans máli. Tillagan, sem samþykkt var hér á hinu háa Alþingi í fyrra, er alveg skýr og ótvíræð. Hún fjallar um það að Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta setja gæða- og öryggisreglur um innflutning hjólbarða. Hér felur Alþingi ríkisstj. ákveðið verkefni. Ég sé ekki hvers vegna ríkisstj. þarf að senda þetta verkefni Bifreiðaeftirliti ríkisins til umsagnar. Það er mér alveg óskiljanlegt hvers vegna ríkisstj. felur ekki dómsmrn. að láta setja slíkar reglur eins og Alþingi er búið að samþykkja.

Nú er það svo að hjól dómsmrn. mala ákaflega hægt. Það vitum við, sem fylgst höfum með endurskoðun umferðarlaganna, sem er búin að vera í gangi í mörg ár og vonandi fer nú að sjá fyrir endann á. Þetta er ákaflega einfalt mál. Á öllum Norðurlöndunum og í velflestum ef ekki öllum löndum Vestur-Evrópu eru í gildi alveg ákveðnar reglur, sem segja fyrir um það hvernig hjólbarðar skuli vera gerðir og hvernig merktir, svo að þeir séu leyfðir til notkunar á bifreiðum. Ég held að það væri einfaldast fyrir okkur að sníða okkar reglur t.d. eftir norskum reglum um þetta efni, eða þá sænskum sem eru bæði ítarlegar og fullkomnar. Ég sé ekki hvers vegna þarf að senda þetta Bifreiðaeftirlitinu til umsagnar. Alþingi er búið að marka stefnu í þessu máli. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að hæstv. dómsmrh. getur ekki svarað fyrir fjmrn., en engu að síður kom fram í hans máli að þessar tollareglur munu vera í endurskoðun.

Ég er ekki frá því að í ófærðinni í vetur hafi það haft sín áhrif hversu dýrir hjólbarðar eru. Það hafi kannske átt þátt í því umferðaröngþveiti sem hér hefur oft myndast í höfuðborginni og raunar víðar að ökutæki eru á lélegum hjólbörðum. Menn hafi ekki ráð á því að kaupa almennilega hjólbarða undir bíla sína vegna þess hversu dýrir þeir eru og hátt tollaðir. Sömuleiðis er alveg tvímælalaust að lélegir hjólbarðar eiga oft þátt í umferðaróhöppum og slysum, því miður.

Ég verð enn að lýsa vonbrigðum með þetta. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að ætla sér að taka upp eftirlit með vinnu hjólbarðaverkstæða. Ég er hins vegar ekki viss um að það sé að byrja á réttum enda. Við eigum að tryggja það að hér séu einungis notaðir hjólbarðar sem standast öryggiskröfur. Ég ítreka það að Alþingi er búið að lýsa ótvíræðum vilja sínum í þessu máli með þál. frá 8. mars 1983 og ég skora á hæstv. dómsmrh. að beita sér nú fyrir því að svona reglur verði settar. Það er auðvelt að leita fyrirmynda því að slíkar reglur eru til hjá öllum Norðurlandaþjóðunum og öllum þjóðum í Vestur-Evrópu.