14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

419. mál, gæða- og öryggisreglur varðandi hjólbarða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka eindregið undir orð síðasta ræðumanns og vil minna hv. þm. á það sem ég sagði um sama efni á fundi hér í Sþ. 7. febr. s.l. en það er virðingarleysi framkvæmdavaldsins fyrir því sem Alþingi samþykkir. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. Eiði Guðnasyni. Það er alveg skýrt hvað Alþingi ákvað í þessu máli á síðasta þingi og það hlýtur að valda okkur þm. mikilli undrun þegar farið er að senda ákvarðanir Alþingis hinum og þessum aðilum úti í þjóðfélaginu til umsagnar. Það er rn. sjálft sem á að láta gera þá hluti sem við samþykkjum hér. Það væri vissulega athyglisvert og forvitnilegt að kanna hversu margar þáltill. liggja í hinum ýmsu ráðuneytum, samþykktar af hinu háa Alþingi og ekkert hefur verið gert með. Það væri sannarlega verkefni til að kanna.

Sannleikurinn er sá, að þegar Alþingi er búið að samþykkja tillögur, þá ber að framkvæma þær. En eins og margir hv. þm. kannast við stöndum við hér ár eftir ár og spyrjum um framkvæmd á okkar eigin samþykktum þáltill. til þess að vita hvar þær eru staddar. Það er hámark virðingarleysisins fyrir störfum okkar að þm. rétti hér upp hendurnar og samþykki hvers konar ágæt mál, sem hér eru lögð fram, og þau komist síðan alls ekki til framkvæmda. Ég vil því hvetja hv. þm. til að fylgjast mjög náið með því hvað verður um það sem þeir fá samþykkt hér á hinu háa Alþingi.