14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi til þál. er flutt af tólf þingmönnum sex þingflokka og með stuðningi flokkanna allra. Enn einu sinni sameinast Íslendingar því í varðstöðu um réttindi á sviði hafréttarins. Auðvitað vilja Íslendingar að Grænlendingar öðlist sem fyrst fullan mátt til þess í senn að vernda fiskimið sín og hagnýta þau skynsamlega. Fiskistofnarnir á Íslands- og Grænlandsmiðum eru meira og minna sameiginleg auðlegð þjóðanna og það er í senn skylda og hagsmunir þessara granna að vernda þá og nýta í samræmi við ákvæði hafréttarsáttmálans og hafa um það samstarf.

Að svo miklu leyti sem Íslendingar kynnu nú að vera betur í stakk búnir til að sinna þessu hlutverki en Grænlendingar ber þeim þess vegna að sinna því. Þar kemur e.t.v. til greina aðstoð íslensku landhelgisgæslunnar sem við gætum að einhverju marki sinnt bæði á sjó og í lofti ef talið væri æskilegt.

Í annan stað er ljóst að fleiri þjóðir eiga mikilla hagsmuna að gæta í því að fiskistofnar norðursins séu verndaðir og fiskimiðin skynsamlega hagnýtt. Eðlilegt er þess vegna að treysta ekki einungis samvinnuna við Grænlendinga heldur líka Færeyinga, Dani, Norðmenn og Kanadamenn en hindra sókn annarra í sameiginlega fiskistofna þessara þjóða. Það hlýtur að koma til skoðunar í utanrmn., hjá utanrrn. og sjútvrn. og ríkisstj. í heild allra næstu daga því að örlagaríkar ákvarðanir sem skipt geta sköpum kunna að verða teknar á næstu vikum.

Þegar Íslendingar hófu lokabaráttu sína fyrir fullum yfirráðum 200 mílna efnahagslögsögu stóðu þeir einir Evrópuþjóða. Þess mættu nágrannar okkar sem þessara réttinda njóta nú minnast. Eðlileg samskipti og verkaskipting þeirra þjóða annars vegar sem eiga land að fiskimiðum og hins vegar fjarlægra iðnríkja felast í verslunarviðskiptum þar sem þau síðarnefndu kaupa sjávarafurðir sem útvegsþjóðirnar afla í skiptum fyrir kaup þeirra á iðnaðarvörum. Þetta er það eðlilegasta og þetta er beggja hagur.

Í vaxandi samvinnu þjóðanna sem lönd eiga að fiskimiðum norðurslóða munu sameiginlegir hagsmunir ráða eins og títt er í samskiptum þjóða þar sem hvorki er að finna þiggjendur né veitendur heldur samtvinnaða gæslu réttinda sem alþjóðalög tryggja þeim sem þau kunna þá að hagnýta. Öll verða mál þessi nú væntanlega rædd í utanrmn. svo og önnur samskipti við Grænlendinga sem einmitt eiga inni heimboð Alþingis og vonandi koma hingað fyrr en síðar.

Þótt allir þingflokkar standi að flutningi þessarar þáltill. legg ég því til, herra forseti, að henni verði vísað til hv. utanrmn. að lokinni umr. hér í dag í von um að hún fái þar skjóta afgreiðslu og geti komið fyrir fund í Sþ. á ný n.k. fimmtudag, væntanlega til einróma samþykktar. Þar með væri afstaða Íslendinga í hafréttarmálum einu sinni enn skýrt mörkuð.