14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2820 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umr. fyrst og fremst vegna staðhæfingar hv. 1. flm. þessarar þáltill. að ekkert væri til sem héti kvennamenning eða kvennasaga. Það er mér sönn ánægja að fá að uppfræða hv. 5. landsk. þm. svolítið um þessi efni héðan úr ræðustól á Alþingi enda er nokkuð freklega eftir kallað.

Svo ég snúi mér fyrst að kvennamenningunni vil ég byrja á því að upplýsa hv. þm. um að konur og karlar eru ekki eins, ekki aðeins líkamlega heldur einnig menningarlega. Frá alda öðli hafa konur haft með höndum önnur störf en karlar og frá alda öðli hafa konur — en ekki karlar — gengið með börnin, fætt þau í þennan heim og annast um þau fyrstu æviárin. Þetta hvort tveggja gerir það að verkum að lífsreynsla kvenna og karla er ekki sú sama, þar á er óhjákvæmilega um nokkurn mun að ræða.

Þegar rætt er um menningu kvenna er því verið að ræða um þau viðhorf kvenna, hugmyndir og lífssýn sem eiga sér uppsprettu í sérstakri lífsreynslu þeirra, þeirri reynslu sem mótast af þeirri staðreynd að félagsleg staða kvenna hefur ávallt verið önnur en staða karla og að móðurhlutverkið hefur ekki verið og er ekki sama hlutverk og föðurhlutverkið.

Vitaskuld er hluti menningar sérhvers samfélags sameiginlegur konum og körlum og það er einfaldlega greiningaratriði en ekki þrætumál hvernig hinir mörgu og mismunandi þættir sérhverrar heildarmenningar fléttast saman og mynda þá samverkandi heild sem við í daglegu tali köllum einfaldlega menningu. Sú er niðurstaða allra þeirra vísindagreina sem við menningu fást.

Hitt er svo annað mál að menningarþættir eru misjafnlega sýnilegir í sérhverju samfélagi og þannig er því einmitt farið með menningu kvenna í íslensku samfélagi. Konur hafa löngum verið hinn þögli hópur þessa lands enda ekki einleikið hversu fáar konur hafa náð því að komast á spjöld þeirrar sögu sem við nefnum sögu Íslendinga.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson nefndi til tvær konur fyrr í þessari umr., þær Ólöfu Loftsdóttur og Guðrúnu á Bæ, báðar valdamiklar konur eins og hann tók fram. Það er engin tilviljun að hv. þm. nefndi þessar tvær konur. Hann veit um þær vegna þess að báðar voru karlmannsígildi eins og sagt er, báðar gegndu stöðu og höfðu völd sem sambærileg eru við hefðbundin völd og stöðu karla í íslensku samfélagi. Þess vegna er munað eftir þeim.

Við sem hér sitjum gætum sjálfsagt ef við legðum saman nefnt til ríflega tylft kvenna til viðbótar á sömu forsendum. Ég geri ráð fyrir að svokölluð söguþekking okkar þm. dugi samanlagt til þess. En spurningin er: Hvar er getið allra hinna kvennanna, allra þeirra þúsunda kvenna sem byggt hafa þetta land í 1100 ár? Hvar finnum við upplýsingar um ævi þeirra og störf og framlag þeirra til íslenskrar menningar? Svarið er einfalt: Hvergi.

Um þessar konur þegir Íslandssagan þunnu hljóði. Það er því hárrétt athugað hjá hv. 1. flm. þessarar till. að saga íslenskra kvenna er ekki til, hún er ekki til í þeim skilningi að hún er hvergi til niðurskráð, hún er ekki hluti af opinberri sögu Íslendinga. Eigum við þá þar með að álykta að íslenskar konur eigi sér enga sögu? Eigum við að álykta að störf unnin í svokölluðum kyrrþey séu engrar athygli verð? Eigum við að hugsa sem svo að konur þessa lands hafi aldrei hugsað neitt af viti, aldrei haft neitt sérstakt til málanna að leggja, aldrei borið líf þessa lands í höndum sínum? Svo við snúum okkur frá konunum sem unnu og vinna enn störf sín í þessum margfræga kyrrþey, þessi störf sem enginn tekur eftir og sem virðast vera ósýnileg og snúum okkur að þeim konum sem kvöddu sér hljóðs opinberlega af því að þær voru konur og vildu vekja athygli á málefnum kvenna, hvar er þeirra saga? Hvar er saga 100 ára skipulagðrar kvennabaráttu hér á landi? Hún er heldur ekki til í sögubókunum og fór hún þó ekki fram í neinum kyrrþey.

Staðreyndin er einfaldlega sú að í Íslandssögunni er að miklu leyti þagað um íslenskar konur. Af henni má ráða að þær beri það nafn með rentu að vera hinn þögli hópur íslensks samfélags eins og ég sagði áðan. Við þurfum reyndar ekki að skoða fortíðarsögu Íslendinga til að komast að þessari niðurstöðu. Okkur nægir að skoða þá mynd af nútíðarsögunni sem birtist okkur dags daglega í dagblöðunum. Þar er þagað þunnu hljóði um það sem konur hafa til málanna að leggja.

Það er því e.t.v. ekki svo undarlegt að hv. þm. Eiður Guðnason haldi að ekkert sé til sem heitir kvennamenning eða kvennasaga. Vitneskjan um það liggur ekki á lausu, henni er síður en svo otað að landsmönnum. Ég get þó upplýst hv. þm. um það að fræðimenn hér á landi jafnt sem í öðrum Evrópulöndum eru farnir að láta þennan vanrækta þátt sérhverrar þjóðarsögu til sín taka. Hér á landi hefur Kvennasögusafn Íslands starfað um árabil fyrir þrotlausan dugnað og eljusemi frú Önnu Sigurðardóttur. Við Háskóla Íslands er þegar kominn vísir að rannsóknum á sögu og menningu íslenskra kvenna og undanfarin tvö ár hefur verið kennt námskeið í kvennasögu við heimspekideild Háskóla Íslands. Fyrst ég er hér að nefna Háskóla Íslands þætti mér gaman að vita hvort hv. 1. flm. þessarar till. veit hver voru tildrögin að stofnun þeirrar merku stofnunar. Svari hann mér því ef hann má.

Sú þáttill. sem hér er til umfjöllunar virðist ganga út frá því að til sé einhver ein og óumdeilanleg Íslandssaga, að allir skilji söguna á sama máta. Því fer vitaskuld fjarri. Ég hef hér gert einn þátt söguskilnings að umræðuefni, aðrir ræðumenn hafa bent á aðra þætti. Kjarni málsins er sá að saga Íslendinga verður aldrei endanlega rituð í eitt skipti fyrir öll. Hún hlýtur ávallt að vera í sífelldri umfjöllun og endurskoðun af hálfu fræðimanna. Það vita allir sem nálægt fræðimennsku hafa komið að liggur í hlutarins eðli.

Jafnframt gengur till. út á það að efla skuli með börnum þessa lands ást og virðingu á sögu lands og þjóðar. Ég hef að sjálfsögðu ekki nema gott eitt um það að segja og þá er ég vitaskuld að tala um söguna í þeim skilningi að um sé að ræða sögu landsmanna allra en ekki sögu hluta þeirra.

Hitt er svo annað mál að það er til lítils fyrir Alþingi að skipa kennurum þessa lands að innræta nemendum sínum ættjarðarást, þeirri göfugu tilfinningu er ekki hægt að miðla nema kennarinn skilji hana sjálfur. Það er ekki hægt að skipa mönnum að hafa ákveðnar tilfinningar, yfir tilfinningar manna ná engar þáltill.

Hins vegar er hlutverk okkar sem hér sitjum að stuðla að því að á Íslandi fái þrifist mannlíf sem gefur tilefni til tilfinninga og hugsana af því tagi sem hér um ræðir. Það er okkar hlutverk fyrst og fremst að sjá til þess að hér þrífist réttlátt og lífvænlegt samfélag sem menn geta virt og borið ást í brjósti til. Þannig getum við þm. best stuðlað að þeirri trú og þeirri virðingu fyrir landi og þjóð sem þessi þáltill. fjallar svo grunnfærnislega um.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.