14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2823 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er til umr. merkt málefni þar sem er sjálf Íslandssagan. Þrír hv. alþm. hafa hér lagt fram þáltill. um kennslu í Íslandssögu.

Ástæða er til þess að ræða nokkuð þau viðhorf sem koma fram jafnt í tillöguflutningi og grg. og þann bakgrunn sem er á bak við þessa till. og þá umr. sem fram hefur farið frá því þann 13. nóv. s.l. um sögukennslu í íslenskum skólum, því að augljóst er að flutningur þessarar till. er sprottinn upp af þeirri umr. sem Morgunblaðið hleypti af stað fyrir tilverknað blaðamannsins Guðmundar Magnússonar þann 13. nóv. s.l. og sem hefur orðið kveikja að meiri blaðaskrifum um þetta efni á þeim tíma sem síðan er liðinn en ég man eftir að hafa séð um Íslandssögumálefni og raunar um málefni skólanna almennt.

Það verður að segjast að um málefni skóla í okkar landi ríkir allt of mikið tómlæti í opinberri umr. almennt og þá ekki siður hér á hv. Alþingi. Sárast er þó að sjá oft og tíðum hvaða meðferð fjárveitingar til þessa grundvallarþáttar í fræðslustarfi þjóðarinnar fá þegar tekin er afstaða um skiptin á útgjöldum ríkissjóðs.

Ég ætla hins vegar ekki að ræða það hér sérstaklega að þessu sinni. Þessi þáltill. er afar almennt orðuð. Það er vissulega einkenni margra slíkra till. sem við fjöllum hér um en þegar rætt er um svo víðfeðmt efni sem kennslu í Íslandssögu hljóta menn að spyrja sig að því frekar en fram kemur í till. og fram hefur komið í máli hv. flm., hvað vakir fyrir honum, hvaða fyrirmæli eru það sem hv. Alþingi er ætlað að gefa framkvæmdavaldinu um kennslu í Íslandssögu.

Í upphafi þáltill. segir. „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að í grunnskólanámi verði kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar aukin.“ Þetta er fyrsti efnisþátturinn. En hægt er að auka sögukennslu með ýmsum hætti og ég sé ekki að framkvæmdavaldið sé miklu nær um það hver sé vilji Alþingis í þessum efnum ef ekki fylgir nánari skilgreining á því ef löggjafarsamkoman vill gefa þær forskriftir með hvaða hætti slík kennsla skuli aukin og á kostnað hvers. Á það að vera á kostnað tíma nemenda, þess tíma sem þeir eyða í skólum landsins og njóta þar kennslu? Á það að vera á kostnað annarra námsgreina? Og svo sem inn í þessi mál blandast og ekki síst í dagblaðaumræðunni, hvaða stefna og viðhorf varðandi sögukennslu eru það sem hv. flm. bera fyrir brjósti og vilja að njóti þeirrar aukningar sem hér er verið að leggja til?

Að vísu segir í framhaldinu í till. orðrétt: „og við það miðuð að nemendur öðlist ekki aðeins þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar heldur og trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast í ellefu aldir.“ Það er vissulega ekki lítið lagt undir í þessum efnum hjá hv. flm. og ekki skal ég draga úr þýðingu þess að efla með mönnum heilbrigða trú á landið og möguleika okkar til lífsbjargar hér í landi okkar og að efla það menningarsamfélag sem hér hefur þróast því að ég vil trúa því að það sé það sem fyrir hv. flm. vakir þegar talað er um varðveislu á menningarsamfélaginu. En vegna þess hversu mjög almenn þessi till. er, þá hljóta menn að leita fanga í greinargerð fyrir rökstuðningi af hálfu hv. flm. Þar bregður fyrir nokkuð sérstökum atriðum sem óhjákvæmilegt er að vekja athygli á og leita kannske eftir enn þá dýpri rökum frá hv. flm. fyrir nauðsyn á eflingu Íslandssögukennslunnar en þar eru.

Helsta undirstaðan sem þeir setja fram í grg. sinni fyrir þeirri skoðun sinni að hér beri að brjóta í blað — því þannig skil ég hv. flm. og hv. 1. flm. sem mælti hér fyrir þessu, að brjóta ætti í blað varðandi Íslandssögukennslu — er dagblaðið Tíminn sem skýrði frá niðurstöðum skoðanakönnunar um söguþekkingu hjá almenningi hér á landi. Ekki er greint frá því hvenær hún kom fram í Tímanum þessi umrædda tilvitnun í niðurstöður skoðanakönnunar en birt er tilvitnun í greinargerðina í Dagblaðið og þar segir orðrétt:

„Söguþekking 16–20 ára Íslendinga bágborin: Aðeins 13.1% vissu um fyrsta forseta Íslands.“

Og síðan er þetta flokkað nánar hvernig þetta kom út:

„Aðeins 58.8% vita að Sveinn Björnsson var fyrsti forseti íslenska lýðveldisins samkvæmt skoðanakönnun sem fyrirtækið Kaupþing gerði nýlega. 17.5% héldu að það hefði verið Jón Sigurðsson, 5.7% að það hefði verið Ásgeir Ásgeirsson og heil 18% sögðust alls ekki vita það.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins virðast samkvæmt könnuninni vera aðeins betur að sér en fólk úti á landsbyggðinni“ — ég geri ráð fyrir og skil það af framhaldinu að það sé varðandi þetta merka atriði um fyrsta forseta lýðveldisins — „en 62.7% svöruðu spurningunni rétt. Í þéttbýli annars staðar á landinu svöruðu 55.9% rétt en 52.9% í dreifbýli. Sé þeim sem spurðir voru“ — ég bið hv. alþm. að taka eftir — „skipt niður í aldurshópa kemur í ljós að aðeins 13.1% fólks á aldrinum 16–20 ára svaraði rétt. Eftir því sem fólk eldist virðist það betur að sér en 83.9% fólks á aldrinum 56–67 ára vissi hver var fyrsti forseti lýðveldisins.“

Hér blasa við stórmerki mikil sem eru ein aðalkveikjan í þessum tillöguflutningi. Fólk sem komið er um og yfir miðjan aldur er talsvert betur að sér um þetta þekkingaratriði en fólk á aldrinum 16–20 ára, hver var fyrsti forseti lýðveldisins, Sveinn Björnsson 1944–1952. Heil skoðanakönnun er dregin fram í öðru aðalmálgagni ríkisstjórnarinnar til að leiða þessi stórmerku sannindi í ljós. Ég veit að hv. þm. átta sig á því að hér eru stórmerk sannindi á ferðinni. Ég býst t.d. við að ástæða þætti til að ég væri eitthvað betur að mér um þessi efni en þeir sem nú eru að ljúka skyldunámi vegna þess að ég á að muna þann tíma sem Sveinn Björnsson var forseti lýðveldisins og kom við sögu í mörgum málum svo sem kunnugt er.

Hinn meginrökstuðningurinn fyrir utan þennan er um hvenær kristni var lögtekin. Þar vill svo undarlega til að ekki er sama fylgni í skoðanakönnuninni varðandi hvað margir gata á því hvenær lögtekin var kristni á Íslandi eins og í þessu atriði varðandi fyrsta forseta lýðveldisins. En þeir ljúka þessari tilvitnun í könnun fyrirtækisins Kaupþings með að segja: „Þessar niðurstöður hljóta að vera alvarlegt íhugunarefni.“ Já, það er von að svo sé hermt að þetta sé alvarlegt íhugunarefni.

Nú ætla ég ekki að vefengja það að margt mættu menn vita betur um sögu þjóðarinnar og gildi þess að menn jafnt þekki það sem geta talist staðreyndir í þeim efnum og öðlist þekkingu og færni til að viða að sér gjaldgengum heimildum varðandi sögu þjóðarinnar og draga af henni ályktanir. En ég hefði ekki viljað standa að tillöguflutningi sem þessum, reistum á jafnveikum grunni varðandi söguþekkingu landsmanna eins og hér kemur fram. Ég spyr hv. flm. og þar í hópi er sjálfur hæstv. forseti Sþ.: Hvað fleira en það sem þeir vilja bera fram hér ber vott um að sögukunnáttu þjóðarinnar hafi hrakað svo stórlega að nú sé nauðsyn til þess að spyrna við fæti? Hvað fleira rennir stoðum undir það og getur talist gjaldgengur vitnisburður um að menn séu svona mun verr að sér en á árum áður og að söguþekkingu og kunnáttu fari hrakandi? Ég er forvitinn að fá vitneskju um þessi efni því að hér er vissulega hreyft stóru máli um að auka kennslu í Íslandssögu.

En ég ætla í framhaldi af þessu að víkja aðeins að því sem er kveikja þessa tillöguflutnings, kveikja sem Morgunblaðið setti upp þann 13. nóv. eins og ég hef þegar nefnt og þar hefur endurspeglast á síðum þess blaðs og fleiri blaða síðan. Þann 15. nóv. skrifaði einn ritstjóra Morgunblaðsins leiðara í sitt málgagn undir fyrirsögninni „Engin Íslandssaga“ og byggir þar á skrifum blaðsins tveimur dögum áður, skrifum sem leitt hefur verið í ljós síðan að ekki eru nú betur saman sett af blaðamanni blaðsins en svo, að hann fór í ýmsum greinum ekki rétt með ummæli viðmælanda síns, Ertu Kristjánsdóttur námsstjóra í Íslandssögu. Hún sá ástæðu til þess að rita ítarlega grein í Morgunblaðið um þetta efni, m.a. til þess að skýra sitt mál og leiðrétta rangfærslur þann 24. nóv. s.l. En Morgunblaðið hefur yfirskriftina í þessum leiðara „Engin Íslandssaga.“ Þar segir í upphafi, með leyfi hæstv. forseta.

„Íslandssaga er ekki lengur sjálfstæð námsgrein í grunnskólum, hún hefur, ásamt fleiri svokölluðum „lesgreinum“ verið felld inn í námsgrein sem nefnd er samfélagsfræði ...“ Á þennan veg hófst grein hér í blaðinu á sunnudag um umritun Íslandssögunnar. Þar kemur jafnframt fram að skólarannsóknadeild menntmrn. stendur þannig að undirbúningi námsefnis í Íslandssögu, að nemendur í grunnskótum fá ekki nema takmarkaða fræðslu um sögu þjóðarinnar.“

Og síðar í leiðaranum segir:

„Það kemur á óvart að í kyrrþey skuli hafa verið ákveðið að hætta að kenna Íslandssögu í grunnskólum og hefja í hennar stað kennslu í samfélagsfræði ...

“ Og enn síðar:

„Af þessari upptalningu er ljóst að búin hefur verið til námsgrein í grunnskólum sem spannar yfir allt það sem hæst ber í „umræðunni“ hverju sinni og vekur undrun að námsstjórinn skuli ekki tíunda friðarmálin sem hluta samfélagsfræðinnar.“

Já, friðarmálin hafa orðið Morgunblaðinu umhugsunarefni upp á síðkastið, eftir að þessi leiðari var skrifaður. Og enn segir Morgunblaðið:

„Er sú skipan í sjálfu sér furðuleg, að innan ráðuneytis skuli slík vinna innt af hendi, en hitt þó enn furðulegra að niðurfelling Íslandssögunnar á vegum menntmrn. skuli hafa komist til framkvæmda þegjandi og hljóðalaust án þess að valda deilum í okkar íhaldssama þjóðfélagi.“ Og þessu lýkur þannig: „Nú liggur sem sé fyrir að deild innan menntmrn. við Hverfisgötu hefur ákveðið að í grunnskólum á Íslandi skuli hætt að kenna sögu þjóðarinnar. Hvenær kemur röðin að tungunni?“

Ekki er farið fram með vægum orðum í ritstjórnargrein þessa fjöllesnasta blaðs landsins, málgagns sem eðlilegt er að líta svo á að túlki viðhorf hæstv. menntmrh.

Þessi skrif Morgunblaðsins urðu ýmsum öðrum tilefni til þess að taka með svipuðum hætti á þessu máli, að fjalla um þetta mál út frá matreiðslu Morgunblaðsins. Þar má nefna, án þess að ég ætli að fara að vitna þar til blaðaskrifa einstakra manna, Dagblaðið og Vísi þann 18. nóv. þar sem Haraldur Blöndal ritar grein undir fyrirsögninni „Aðför að þjóðerninu“ og er það fróðleg lesning.

Síðan kemur þar á sömu síðu hv. 3. þm. Vestf., sá er nú situr, Sighvatur Björgvinsson, með fyrirsögnina „Snorra Sturluson eða samfélag bavíana“. Af því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson situr nú á þingi get ég ekki stillt mig um að sýna mönnum aðeins stílbrögðin sem byggja á málflutningi Morgunblaðsins því að þessir tilgreindu menn hafa ekki haft fyrir því að kynna sér stöðu mála varðandi Íslandssögukennslu í landinu áður en þeir geysast fram á ritvöllinn fullir vandlætingar og hella úr skálum reiði sinnar, hafa ekki haft fyrir því að kynna sér mikið stöðu mála ef marka má af þeim blaðaskrifum. Þar segir Sighvatur Björgvinsson og vitnar í námsstjórann eða það sem eftir honum er haft:

„„Námið á að vera raunvirkara“, er eftir námsstjóranum haft. Raunvirkara? — Enn ein orðaflækjusmíð engrar merkingar til þokukenndrar tjáningar á reikandi hugsun gervivísinda í þeim eina tilgangi gerð að varpa blæ yfirborðsþekkingar yfir óljósan ruglanda. Eins konar málfræðilegur voodooismi; málkukl nútíma alkemista, samanrimpingur gats og rifu eins og nýju fötin keisarans.“

Það er gullaldarmál sem hér er á ferðinni. Það vefst ekki fyrir neinum að svo er.

Áfram var lopinn teygður í Morgunblaðinu um þessi efni af mönnum sem vilja telja sig málsmetandi og byggja á þeim dæmalausa málflutningi sem ritstjóri Morgunblaðsins byggði á leiðara sinn undir fyrirsögninni „Engin Íslandssögukennsla“. Vísa ég til þeirra skrifa því að þau eru aðgengileg þeim sem fletta Morgunblaðinu þessa síðustu mánuði.

Hins vegar hafa aðilar fjallað um þessi mál að undanförnu sem bera nokkra ábyrgð á því hvernig um þetta hefur verið fjallað, aðrir en hæstv. menntmrh. sem hér hefur svarað fsp. og látið í ljós sín viðhorf, menn sem hafa unnið sem ráðgjafar menntmrn. og íslenskra stjórnvalda um langa hríð eins og t.d. Wolfgang Edelstein sem er prófessor við háskólann í Vestur-Berlín, Freie Universität í Berlín og einn af stjórnendum Max Planck rannsóknastofnunarinnar. Hann hefur verið ráðgjafi menntmrn. varðandi þróun sögukennslu og kennslu í fleiri greinum frá árinu 1966 að telja og er maður sem er virtur á alþjóðavettvangi og þekktur fyrir vönduð vinnubrögð. Wolfgang hefur verið trúnaðarmaður margra menntmrh. hérlendis varðandi þróun sögukennslu og kennslu í samfélagsfræði sem er einn þáttur þessa máls sem gerður var að umtalsefni strax þegar Morgunblaðið hleypti af stað tortryggnisskrifunum varðandi það hvernig að þessum málum hafi verið unnið.

Wolfgang Edelstein leiddi vinnuhóp um þessi efni frá árinu 1974 að telja, en þá höfðu grunnskólalög nýlega verið samþykkt. Ég held að ástæða væri til þess fyrir þá hv. þm. sem hér standa að tillöguflutningi að fara yfir það hvernig mælt er fyrir í grunnskólalögum varðandi fræðslustefnu í landinu og varðandi samfélagsfræðina sem Ístandssagan er hluti af eins og að því máli er unnið og hefur verið unnið á undanförnum árum af hálfu menntmrn.

Í 2. gr. grunnskólalaganna segir:

„Hlutverk grunnskólans er, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun ... Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á mannlegum kjörum og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og skyldum einstaklingsins við samfélagið.“ Og í framhaldi í sömu grein:

„Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð, sem stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.“

Síðar í 42. gr. grunnskólalaga segir: „Menntmrn. setur grunnskólum aðalnámsskrá, þar sem m.a. skal kveðið nánar á um meginstefnu varðandi kennslufræði og kennsluskipan, auk þess sem ákvæði skulu sett um:“ — og það er undir stafliðnum d — „fræðslu um mannlegt samfélag, umheim og umhverfi í fortíð og nútíð, um Íslandssögu, mannkynssögu, samfélagshætti og landafræði.“

Þetta eru allt saman fyrirmæli í grunnskólalögum. Á grundvelli þessara fyrirmæla grunnskólalaganna hefur á vegum menntmrn. verið unnið að endurmótun námsefnis í Íslandssögu og ýmsum fleiri greinum og verið horfið að því ráði að samþætta þar ýmis þau atriði sem boðið var upp á fræðslu um — boðið og boðið ekki með mismunandi hætti — aðgreint á fyrri stigum. Ég er þeirrar skoðunar að sú stefna sem þar var tekin um samþættingu efnis á þessu skólastigi undir heiti samfélagsfræðinnar hafi verið rétt stefna og það sem unnið hefur verið undir þeim formerkjum hafi horft til réttrar áttar þó að eflaust megi finna að einu og öðru ef grannt er skoðað og menn geti haft mismunandi skoðanir á einstökum þáttum og málinu í heild að sjálfsögðu.

Wolfgang Edelstein ritar um samfélagsfræðikennsluna og þar með um þátt Íslandssögunnar í samfélagsfræðikennslu í Morgunblaðinu 8. febr. s.l. Hann bregst þar við þeim áróðri og fullyrðingum sem fram hafa komið í blaðaskrifum að undanförnu varðandi óvandaðan undirbúning í sambandi við þessi mál. Ég vil hvetja hv. alþm. að lesa hans grg. í tengslum við það mál sem hér er til umr. því að ekki er hægt að kalla margt af því sem sagt hefur verið eða sumt af því sem sagt hefur verið, þ. á m. af ritstjórn Morgunblaðsins, annað en tilraun til að sá fræjum úlfúðar og tortryggni gagnvart þeim aðilum sem unnið hafa á grundvelli laga og reglugerða og ákvarðana þar til bærra stjórnvalda að því að bæta kennsluefni í sögu, Íslandssögu og mörgum öðrum greinum sem tekið er á undir merki samfélagsfræðinnar.

Wolfgang Edelstein svarar þessum staðhæfingum mjög skilmerkilega í sinni vönduðu grein. Ég ætla ekki að hafa langar tilvitnanir í hans mál en með leyfi hæstv. forseta örfáar. Hann segir hér:

„Endurskoðun námsefnis í sögu, landafræði, svo og átthagafræði og fleiri efnisþáttum undir heitinu samfélagsfræði er hluti af heildarendurskoðun námsefnis í öllum námsgreinum og öllum árgöngum grunnskólans.

Þessi endurskoðun hefur fylgt reglum og venjum sem allir geta kynnt sér.“

Hann segir einnig:

„Það er hrein firra að halda að samfélagsfræði sé samsæri eða tilraun til vinstri innrætingar, svo sem hverjum verður ljóst á augabragði sem kærir sig um að berja námsefnið augum. Samfélagsfræðin er vísvitandi tilraun til að framfylgja markmiðsgrein grunnskólalaganna, og að svo miklu leyti sem þessi námsgrein er pólitísk er hún „borgaraleg“, lýðræðissinnuð og tekur mið af velferð einstaklingsins.“

Hann segir einnig:

„Það er fráleitt að gefa í skyn að ákvarðanir um breytingar á stöðu námsgreina, t.d. sögu og landafræði, hafi farið leynt. Hitt er svo annað mál að kennarar hafa verið sjálfráðir um þá ákvörðun hvort þeir kenndu samþætt efni eða héldu hefðbundnum hætti. ... Þegar öllu er á botninn hvolft virðist óhætt að segja: (a) að fáar ákvarðanir í skólamálum hafi fengið eins rækilega, almenna og lýðræðislega umfjöllun og þær sem teknar voru um endurskoðun og nýskipan samfélagsgreina og (b) að fáar ákvarðanir hafi veitt kennurum sjálfum eins mikið svigrúm um framkvæmd. Enginn, sem ekki kaus svo sjálfur, var skyldaður til að taka upp nýtt efni eða nýja aðferð.“

Hann rekur í þessari grein sinni hvernig gert er ráð fyrir að Íslandssögukennslu verði háttað þegar lokið er þeirri endurskoðun námsefnis sem nú er aðeins hálfnuð eða svo varðandi námsefni í samfélagsfræði og varar við því að menn séu að dæma út frá því sem nú liggur fyrir. Það ættu hv. alþm. að íhuga að ein ástæðan fyrir því að ekki er komin heildarmynd á Ístandssögukennsluna í samræmi við þessa endurskoðun er sú að ónógu fjármagni hefur verið veitt til þessarar starfsemi. Ef hv. Alþingi vildi álykta um að bæta þar úr og veita meira fjármagni til Námsgagnastofnunar eins og ég og fleiri hafa lagt hér til væri vel af stað farið með tillöguflutning.

Wolfgang Edelstein segir hér einnig:

„Deilur um skólastefnur eru deilur fullorðinna um viðhorf gagnvart börnum og umgengni við þau; um leið og deilt er um menningarleg og félagsleg markmið náms og skóla. Hin tiltölulega almenna samstaða um „bernskusinnuð sjónarmið“ og „nýsköpunarstefnu“ í skólamálum, sem ríkt hefur hér á landi s.l. tvo áratugi virðist nú nokkuð á undanhaldi. Við verðum sjálfsagt,“ segir hann, „að sætta okkur við að góðæri vaxtarskeiðsins er liðið í bili og harðæri virðast fylgja harðneskjulegri sjónarmið.“

Ég bið menn að veita þessum orðum hans athygli. Hann vitnar til þeirra þrenginga í efnahagslegu tilliti sem einnig virðast ætla að fylgja þrengingar í sambandi við endurskoðun, tímabæra endurskoðun á námsefni og þau viðhorf sem þar eru að baki.

En hann vekur líka athygli á þessu: „Nýtt samfélagsfræðiefni hefur verið kennt í örfá ár í fáum árgöngum við erfið skilyrði. Þær umvandanir sem mest ber á t.d. um almennan þekkingarskort á sögu hljóta að snerta hefðbundna efnið og kennslu þess frekar en hið nýja sem er ekki komið í skólann nema að litlu leyti.“ Ég vek sérstaka athygli á þessu. Þeir sem eru að kvarta undan lélegri þekkingu nemenda geta ekki borið fyrir sig hið nýja efni því það sem mælt hefur verið t.d. í þessum frægu skoðanakönnunum um sagnfræðiþekkingu er ekki mæling á kunnáttu nemenda sem hafa notið hins nýja kennsluefnis heldur hinna sem lásu Jónas frá Hriflu eins og ég gerði í barnaskóla eða kennslubók Þorleifs Bjarnasonar, kannske að viðbættri blessaðri símaskránni hans Þorsteins M. Jónssonar eins og hún var stundum kölluð, sú upptalning sem var að finna í hans riti á einstökum merkisviðburðum Íslandssögunnar á seinni tímum.

Wolfgang Edelstein mælir viðvörunarorð í lok greinar sinnar. Hann segir þar:

„Vilji menn ræða málefni skólans af alvöru og sanngirni verða þeir að leitast við að setja sig í spor nemenda og kennara. Ekki hefur borið mikið á þessari dyggð í umræðunni um samfélagsfræði að undanförnu. Hefðu menn lagt meiri stund á hana hefði þeim fljótlega orðið ljóst að samfélagsfræðin íslenska er tilraun til að bregðast við vandamálum náms og kennslu í samræmi við aðstæður jafnt á atþjóðavettvangi og úr heimahögum.“

Ég læt þessar fáu tilvitnanir í grein Wolfgans Edelsteins hér nægja en hvet menn aftur til að kynna sér hana í heild.

Ég vil undir það síðasta hér varðandi þetta efni hvetja hv. flm. til að gera gleggri grein fyrir því, af því að þeir hafa nánast enga grein gert fyrir því með hvaða hætti þeir vilja að fram sé farið í sambandi við aukna kennslu í Íslandssögu. Vilja þeir lengri skóladag? Ef ekki, hvað á að víkja? Eru þeir að andmæla því að haldið verði áfram því verki sem að er unnið í sambandi við námsefnisgerð í samfélagsfræði að Íslandssögu meðtalinni eða ekki? Hvað vakir fyrir þeim í þeim efnum? Eru þeir reiðubúnir til að standa að því og berjast fyrir því að auknu fjármagni verði varið til þeirrar aukningar sem þeir teldu nauðsynlega, þ. á m. væntanlega endurhæfingarnámskeið fyrir kennara?

Ég tel að ekki sé frambærilegt af þeirra hálfu að standa að tillögugerð á svo veikum grunni eins og hér er fram komið, vegna þess að hún segir framkvæmdavaldinu nánast ekkert hvert skuli halda, með hvaða hætti og hvert skuli halda í þessum efnum. Það verður ekki gert með þeim orðum sem í tillögugreininni felast, nema menn vilji láta það vera í rauninni algjörlega óskrifað blað hvernig að því sé staðið.

Ég skal ekkert fullyrða um það hvernig t.d. hv. 1. flm. hugsar sér þessa aukningu á sögukennslu, hvort hann tekur undir með þeim mönnum sem telja það eitt meginatriði að menn viti hvaða ár kristni var lögtekin á Íslandi eða einstaka slíka þætti, þ.e. staðreyndaþætti svokallaða í sögunámi, hvort hann vill leggja áherslu á það frekar en viðhorfafræðslu eða innrætingu sem líka hefur verið til umræðu í tengslum við þetta. Um það hefur ekki mikið heyrst frá hv. flm.

Hér talaði hv. 11. þm. Reykv., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir um einn þátt í sögukennslu, sem fyllsta ástæða var til að vekja athygli á í umr. um þetta mál, og það kynlega viðhorf sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm. og hv. 5. þm. Vestf. þegar þetta mál var hér til umr. síðast. Ég tek mjög eindregið undir það og tel raunar að eitthvað horfi þó til betri vegar við endurskoðun námsefnis sem nú stendur yfir varðandi þann þátt sem hefur legið utan garðs í sögukennsluefni hér og einnig í starfi skótanna, geri ég ráð fyrir, hjá kennurum, að halda fram þætti kvenna í sambandi við Íslandssöguna og starf þeirra kynstóða sem gengnar eru á undan okkur hér í landinu. Ég tel að sá þáttur þurfi að fá allt annan sess en þann sem við þekkjum sem gengið höfum í gegnum grunnnám. Ég tel að sú aðferð sem beitt er í sambandi við endurskoðun námsefnis, þ.e. að tengja Íslandssöguna fjölmörgum öðrum þáttum innan samfélagsfræði, auðveldi það að koma hlut kvenna, menningarframlagi kvenna og öðru því sem þar þarf að draga fram til skila með eðlilegum hætti.

Að lokum vara ég mjög eindregið, herra forseti, við umr. eins og hún hefur að hluta til gengið fyrir sig um endurskoðun á Íslandssögunni og þörfinni á að bæta þar um. Það er nánast ekki hægt að líkja því við annað en upphaf að eins konar galdraofsóknum eins og þar hefur verið gengið fram. Ég er ekki að mæla það til flm. till. en ég vitnaði hér til blaðaskrifa, þ. á m. fjöllesnasta blaðs landsins, Morgunblaðsins, sem vakti upp þessa umr. í nóv. s.l. og hefur gengið þar fram með þeim hætti í sínum skrifum um það að síst er til þess fallið að tekið verði á þessum málum þannig að til heilla horfi og unnt sé að stilla menn saman um að bæta úr varðandi þennan þátt í starfi skólanna, söguna og samfélagsfræðina, eins og hlýtur að vera áhugamál sem flestra.

Ekki er heldur hægt annað en að áfellast það, að menn sem vilja láta til sín heyra um þessi efni skuli byggja á þeim grunni sem Morgunblaðið gerði í ritstjórnargrein sinni 13. nóv. s.l. og láta það eitt nægja áður en þeir fara að kveða upp dóma varðandi stöðu Íslandssögukennslu í skólum landsins.