26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

11. mál, launamál

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mér þótti jómfrúrræða hv. 1. þm. Suðurl. athyglisverð. Samt verð ég að játa að mér finnst hann hafa beitt dálítið venjulegri ræðubrellu, sem er sú, að þegar hann gerir úttekt á málflutningi stjórnarandstöðunnar auðveldar hann sér leikinn með því að tína til málflutning Alþb. og gera síðan þann hluta af heildinni að málflutningi stjórnarandstöðunnar í heild. Lítum aðeins nánar á þessar röksemdafærslur.

Í fyrsta lagi segir hv. þm.: Stjórnarandstaðan andmælir tímabundinni sviptingu samningsréttar aðila vinnumarkaðar. Hvað vildi hún í raun og veru? Er hún ekki raunverulega að segja að hún hafi viljað beita lögum til þess að breyta launahlutföllum á vinnumarkaði?

Það er mikið rétt að þessi mál komu mjög til umr. í stjórnarmyndunarviðræðum. Og það er líka mjög athyglisvert að talsmenn launþegasamtakanna í e.t.v. öllum flokkum voru eindregið sammála fyrrv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins um að slíkt mætti ekki ske. Talsmenn bæði vinnuveitenda og talsmenn flestra verkalýðsfélaga voru m.ö.o. á þeirri skoðun, að launahlutföllin væru hlutur sem aðilar vinnumarkaðarins ættu að koma sér saman um og það væri ekki æskilegt að löggjafinn hlutaðist til um það.

Þá spyr maður: Ef við tökum góða og gilda þá röksemd að þjóðartekjur hafi farið lækkandi að undanförnu og muni e.t.v. fara það enn á næsta ári og það sé minna til skiptanna, er þá ekki einmitt kominn tími til að líta á tekjuskiptinguna innbyrðis? Og svara þeirri spurningu, hvort ekki sé æskilegt við slík skilyrði að breyta launahlutföllunum? Hverjir eiga að gera það? Á ríkisvaldið að gera það? Eiga aðilar vinnumarkaðarins að gera það?

Ég þykist fara með rétt mál þegar ég segi að það er yfirlýst stefna Sjálfstfl. að kjarasamningar eigi að fara fram með frjálsum hætti. Það var snar þáttur í kosningabaráttu sjálfstæðismanna fyrir kosningar að svo skyldi vera. Og ef menn eru sammála um að ytri skilyrði þjóðarbúsins séu slík að það kalli ekki á annað, ef menn vilja bæta kjör þeirra sem skarðastan hlut bera frá borði, en að breyta tekjuskiptingunni innbyrðis, er það ekki einmitt rökstuðningur fyrir því að standa nú við þessa sannfæringu og segja: Aðilar vinnumarkaðarins skulu víst frjálsir að því — og gerðir ábyrgir fyrir því —að breyta tekjuskiptingunni innbyrðis?

Ég hef ekki tekið undir þann áróður að lífskjarafórnin hafi ekki verið orðinn hlutur, þvert á móti. Minn flokkur hefur alla tíð haldið því fram með meiri rétti en flokkur hv. 1. þm. Suðurl., að afleiðingarnar af stjórnarfari síðustu ríkisstjórnar, sem m.a. komst á laggirnar á ábyrgð og með meiri hluta þm. þessa sama flokks, hafi verið slíkar að lífskjarafórnin var því miður orðinn hlutur. Einmitt þess vegna bar brýna nauðsyn til að líta ekki á þá tekjuskiptingu sem um var samið í seinustu kjarasamningum sem orðinn hlut og óumbreytanlegan. Einmitt þess vegna var ástæða, ef ríkisstjórn ætlaði að grípa til ráðstafana eins og afnáms vísitölukerfis, sem ég er sammála og minn flokkur var sammála í stjórnarmyndunarviðræðum, — einmitt þess vegna var ástæða til þess að segja: Aðilar vinnumarkaðarins skulu um leið frjálsir að því að gera kjarasamninga upp á nýtt, að breyta launahlutföllunum upp á nýtt, þannig að hlutur þeirra, sem sannanlega bera ekki úr býtum lengur mannsæmandi laun, skyldi leiðréttur. En þá á kostnað hverra? Á kostnað hinna sem ofar voru staddir í launastiganum. Það var einmitt kjörið tækifæri til þess fyrir þá menn sem halda því fram að verkalýðsforusta Alþb. hafi á undanförnum árum gert sig seka um — eigum við ekki að segja andlegan óheiðarleika, sem lýsti sér í því að þeir létu þá yfir sig ganga hverja kjaraskerðinguna á fætur annarri af hálfu Alþb., létu sig hafa það að setja sína eigin flokkshagsmuni ofar hagsmunum umbjóðenda sinna í verkalýðshreyfingunni. Hvers vegna þá ekki, ef sjálfstæðismenn beina þessum orðum að Alþb.-forustunni í verkalýðshreyfingunni, að gera þessa aðila nú ábyrga fyrir því að breyta launahlutföllunum hinum verst settu í hag?

Þau rök sem hv. þm. nefndi, að óæskilegt hefði verið að ganga til kjarasamninga fyrr en tímabundinn árangur af afnámi vísitölukerfis hefði komið í ljós, reynast ekki vera mjög veigamikil. Sá árangur var kominn í ljós á haustmánuðum um það leyti sem kjarasamningar runnu út. Hafi það átt að vera meginröksemdin, að kjarasamningar mættu ekki fara fram fyrr en fyrsta vísbending um hjöðnun verðbólgu vegna pennastriksaðgerðarinnar um afnám vísitölukerfis, þá var það allt í lagi. Kjarasamningar runnu út nú í haust og hefðu þá farið fram við þau skilyrði að það var búið að sanna það, hafi menn ekki verið trúaðir á það fyrir fram, að unnt var að ná tímabundnum árangri á venjulega hefðbundna mælikvarða með því að afnema sjálfvirkt vísitölukerfi launa.

Röksemd númer tvö var sú að stjórnarandstaðan í heild héldi því fram að kjaraskerðingin væri nú orðin mun meiri en fall þjóðartekna. Þessu svarar hv. þm. á þá leið, að við höfum á undanförnum árum búið við fölsk lífskjör. Þetta má orða á annan veg. Það má orða á þann veg, að gjaldföllnum vanskilaskuldum fyrrv. ríkisstjórnar og ríkisstjórna átti eftir að framvísa. Hin erlenda skuldasöfnun var komin á það stig, viðskiptahallinn var kominn á það stig, hrun ríkisfjármála var komið á það stig, að almenningur þurfti að taka á sig ekki aðeins fall þjóðartekna, heldur afleiðingarnar af óstjórn margra undanfarinna ára.

Ekki hef ég gert ágreining um þetta. Ég held að þetta sé laukrétt lýsing á ástandinu. Þegar hv. ráðh. tíunda þar hins vegar á fundum sínum um landið, þar sem þeir reyna að sannfæra sig um að þeir séu á réttri leið, hversu slæm aðkoman var að ríkisstjórn þegar þeir tóku við, er ekki nema eðlilegt að þeir sem voru í stjórnarandstöðu allan tímann bendi hæstv. ráðh. á að þeir voru flestir hverjir að taka við af sjálfum sér. Að afleiðingar þeirra eigin óstjórnar bitna ekki á þeim, heldur á þjóðinni af fullum þunga. Og það er bara partur af pólitískum veruleika að ekki er við því að búast að þjóðin taki því sem sjálfsögðum hlut að menn sem sannanlega bera ábyrgð á því hvernig komið er komi nú fram, látist vera alsaklausir af óförum okkar, en framvísi aðeins reikningunum.

Þriðja röksemdin var sú að annars vegar sé því haldið fram að með aðgerðum núv. ríkisstj. sé verið að færa atvinnurekendum í sjóð hluta af launum launþega; hins vegar sé verið að benda á að samdráttaráhrif af þessum aðgerðum séu slík að fyrirtækin kveinki sér undan. Hv. þm. svarar því með því að samkeppnisstaða íslensks iðnaðar hafi batnað. Það eru ekki ný tíðindi að samkeppnisstaða íslensks iðnaðar batnar við pennastriksaðgerð sem heitir gengislækkun. Hún gerir það til skamms tíma. Eftir því sem innflutningsverðlag hækkar, ef það tekst um leið að halda verðlagi innanlands niðri, gerist þetta til skamms tíma. Þetta hefur hins vegar verið endurtekið mjög oft og reynslan sýnir að til lengri tíma er þessi aðgerð haldlaus.

Hvaða áhrif hefur gengislækkunin á afkomu annarra atvinnugreina, ekki síst útflutningsgreinanna sem við byggjum afkomu okkar á? Það þarf ekki að tíunda það í löngu máli. Fjölmiðlar eru nú fullir af hrollvekjandi lýsingum á stöðu útgerðar. Náinn pólitískur samstarfsmaður hv. þm., Kristján Ragnarsson, lýsir því yfir að flotinn sé að stöðvast af sjálfu sér. Framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækja austur í Neskaupstað skrifar skörulegar greinar um það í blöð hvernig komið er og vísar því til framkvæmdastjóra LÍÚ, hvernig á því standi að hann hegði sér nú í stéttarbaráttu atvinnurekenda með svipuðum hætti og Alþýðubandafagsforustan í verkalýðshreyfingunni gerði áður. Hann skorar á LÍÚ að beita sér fyrir því að flotinn komi í höfn. Framkvæmdastjórinn svarar því hins vegar til að þess þurfi ekki, honum verði lagt af sjálfu sér, svo hrikaleg sé skuldastaðan.

Hæstv. forsrh. fer um landið og lýsir því yfir að útgerðin búi nú þegar við fjögurra milljarða króna skuldasöfnun. Þegar kíkt er nánar í það dæmi sjá menn að sá hluti útgerðarinnar sem verst er settur, „hin algjör“ gjörgæslufyrirtæki, sem varla er hægt að bjarga með nokkrum mannlegum ráðum, eru ekki hvað síst þau fyrirtæki sem hafa þegið bjarnargreiða hæstv. ráðh. að fá til afnota frá skattgreiðendum landsins ný og ný skip, nýja togara, á sama tíma og engar forsendur voru fyrir slíkri fjárfestingu í þessari atvinnugrein. Gengislækkun bætir í engu stöðu þessarar greinar, þvert á móti.

Fjórða röksemd hv. þm. var sú, að ríkisstjórnin hefði í undirbúningi margvíslegar aðrar aðgerðir um aðhald í opinberum rekstri og hún hefði í undirbúningi ýmiss konar aðgerðir til þess að breyta stjórnkerfi fjárfestingar. Við vitum að ríkisstjórnin hefur sett sér það mark að draga úr erlendri skuldasöfnun. Hún mun skera niður framlög til opinberra framkvæmda, bæði á fjárlögum og lánsfjáráætlun. Það er út af fyrir sig alveg rétt. En af þessu tilefni er líka rétt að rifja upp að þetta snýst ekki bara um að draga úr ríkisútgjöldum á fjárlögum og lánsfjáráætlun. Þessi spurning snýst fyrst og fremst um eitt: Hvað þarf að gera til þess að tryggja til frambúðar tímabundinn árangur í hjöðnun verðbólgu, sem náðst hefur bara með afnámi vísitölukerfis? Ég held að til þess þurfi mjög róttæka kerfisbreytingu á íslenskri efnahagsstjórnun og þá einkum og sér í lagi, eins og ég hef áður leitt rök að, allri stjórnun fjárfestingar í landinu. Ég rifja upp að það voru settar fram í stjórnarmyndunarviðræðum við núverandi stjórnarflokka mjög ítarlegar kröfur um þessar breytingar. Og ég rifja upp að þeim var yfirleitt öllum saman hafnað. Ég segi fyrir mína parta að ég hef ákaflega takmarkaða trú á að hv. þm. Þorsteini Pálssyni verði mikið ágengt í samstarfi við Framsfl. um að breyta því sem breyta þarf við uppstokkun á stjórnkerfi fjárfestingar eða atvinnustefnu til frambúðar í sjávarútvegi eða landbúnaði. Kannske átti að skilja orð hans þannig, að hann telji enga ástæðu til þess sem núverandi hv. 1. þm. Suðurl. að miklar breytingar verði í því stjórnkerfi sem nú er ríkjandi í landbúnaðinum.

Ég tók eftir því að fimmta röksemd hv. þm. átti að vera sú, að stjórnarandstæðingar teldu ranga fjárfestingu vera ávísun á óðaverðbólgu og notuðu mjög þau rök að ríkisstjórnin hefði ekki breytt því sem breyta þarf í fjárfestingarpólitík sinni, t.d. hvorki í landbúnaðarmálum né sjávarútvegsmálum. Þm. féllst á að þetta væri rétt. Hann sagði að vissulega væri rétt að röng fjárfesting væri ávísun á verðbólgu, en spurði síðan hvort stjórnarandstæðingar, þegar þeir gerðu kröfu til breytinga á landbúnaðarmálum, ætluðust til þess að bændur flyttu á mölina eða þegar stjórnarandstæðingar leggja fram till. um breytingar á stjórnkerfi fjárfestingar í sjávarútvegi, hvort þar með væri verið að kalla yfir okkur stórfellt atvinnuleysi við sjávarsíðuna, hvort þeir ætluðu að láta stöðva flotann, hvort þeir mundu láta loka frystihúsunum. Þetta er atvinnuleysisgrýlan. Í mörg mörg ár hafa alþýðubandalagsmenn og framsóknarmenn svarað öllum skynsamlegum till. um breytta atvinnustefnu, um hóf í fjárfestingu, um breytingar í málefnum landbúnaðarins, með klisjum af þessu tagi: Á nú að afnema landbúnað á Íslandi, á nú að flytja bændur á mölina? Þessar röksemdir eru ekki svaraverðar.

Rökin, sem við erum að fara með, eru einfaldlega þessi: Þessi ríkisstjórn kemur fram fyrir launþega í landinu og segir: Þið verðið nú að taka á ykkur tímabundna kjarafórn. Hún er að vísu afleiðing af rangri stjórnarstefnu og hvers kyns mistökum, sem gerð hafa verið á undanförnum árum, en engu að síður óhjákvæmileg. Þetta eru staðreyndir. Þá höfum við sagt sumir hverjir, stjórnarandstæðingar, a.m.k. við jafnaðarmenn, að á sama tíma og launþegum í þéttbýli sé ætlað að taka á sig þessar fórnir sé það lágmarkskrafa að öðrum sé ætlað að bera hinar sömu byrðar. Hvað eigum við við? Við teljum t.d. óforskammað og ósvífið að fulltrúum landbúnaðarkerfisins að ætlast til þess að á sama tíma og launþegar taka á sig þessar fórnir verði þeir áfram krafðir um hundruð millj. kr. í formi skattpeninga til að greiða áfram útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir. Við teljum það líka ósvífni að halda áfram að halda uppi tilbúinni eftirspurn og kynda undir of mikla framleiðslu í landbúnaði með niðurgreiðslum sem nema hátt á annan milljarð króna.

Á sama tíma og hæstv. fjmrh. kvartar undan því að hann nái ekki endum saman í ríkisbúskapnum, vegna þess að hann tók við ríkisbúskap að hruni komnum frá forvera sínum, tel ég það ósvífni að ekki megi orða það að þessu verði breytt. Þessar breytingar þurfa ekki að kalla á neitt atvinnuleysi. Í því efni held ég að við ættum allir að tala dálítið varlega. Ég held að ríkisstjórnin sjálf renni í raun og veru blint í sjóinn með hver verða að lokum samdráttaráhrifin og hvaða áhrif hefur það á atvinnustigið þegar fram í sækir á næsta ári.

Þeir hlutir gerast nokkuð hægt. Það er alveg ótvírætt að það var þensla ríkjandi í okkar þjóðarbúskap, það var umframeftirspurn eftir vinnuafli og það mátti talsvert slaka á áður en við nálgumst þau hættumörk að raunverulegt atvinnuleysi gerði vart við sig, nema þá tímabundið eða staðbundið. En þegar hnífnum er nú beitt, sem ég viðurkenni að er óhjákvæmilegt, þegar dregið er úr fjárfestingu og opinberum framkvæmdum, fer það ekki að hafa áhrif sem máli skipta fyrr en á næsta ári og að verulegu leyti ekki fyrr en á næsta sumri.

Ég er ekki með neinar hrakspár í því efni. Auðvitað eru allir hér á Alþingi, hvaða stjórnmálaflokki sem þeir tilheyra, sammála um að þessar samdráttaraðgerðir mega ekki undir neinum kringumstæðum leiða til atvinnuleysis og til þess er auðvitað ákveðið svigrúm. En alveg eins og það er svigrúm til þess, þá er eins svigrúm til þess að gera nauðsynlegar breytingar á úreltri og heimskulegri landbúnaðarpólitík og líka svigrúm til þess að gera nauðsynlegar breytingar í stjórnunarkerfi sjávarútvegs, m.a. til að víkja frá sér þeim beiska kaleik að hinn kosturinn, að því er sjávarútveginn varðar, er aðeins einn: Hann er sá, að grípa aftur til gengisfellingar eina ferðina enn. Sú gengisfellingarþörf er hins vegar svo hrikaleg, ef það á að koma útgerð á réttan kjöl með gengislækkun einni saman, að það segir sig sjálft, og það hljóta allir að viðurkenna, að þar með væru öll markmið núverandi ríkisstjórnar um hjöðnun verðbólgu fokin út í veður og vind.

Herra forseti. Ég tel að þær röksemdir, sem hv. 1. þm. Suðurl. hér beitti og að stjórnarandstöðunni í heild sinni, fái að vísu prýðilega staðist ef hann er að ávarpa þann hluta stjórnarandstöðunnar sem borið hefur að mestu leyti ábyrgð á þrotabúi undanfarandi ríkisstjórnar. En ég vísa því algjörlega á bug að því er Alþfl. varðar og vísa því raunar heim til föðurhúsa. Alþfl. hefur verið sjálfum sér samkvæmur í stjórnarandstöðu á undanförnum árum, sem er meira en sagt verður um þann flokk sem hv. þm. tilheyrir.

Annars er það annað tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs í þessum umr.hæstv. forsrh. hafði uppi nokkra viðleitni til að andmæla því fyrr í umr. að þau hrikalegu fjárfestingarmistök, sem hann sem fyrrverandi sjútvrh. og sem flokkur hans sem valdhafi á verðbólguáratugnum s.l. 12 ár bera höfuðábyrgð á, séu í raun og veru að verulegu leyti skýringin á þeirri lífskjarafórn sem almenningur í landinu hefur nú mátt þola. (Gripið fram í: Er áratugur 12 ár?) Í fyrsta lagi sagði hæstv. forsrh. eitthvað á þá leið að hann væri engan veginn sannfærður um að fiskveiðiflotinn væri of stór. Ef við gæfum okkur t.d. þær forsendur að aflinn væri mun meiri, þá væri flotinn ekkert of stór. Þetta er ámóta og að segja: Við erum ekkert viss um að landbúnaðarframleiðslan sé of mikil þótt það sé að vísu staðreynd að við greiðum nokkur hundruð millj. kr. með henni til að koma henni á markað til útlendinga. Bara ef Íslendingar væru svolítið fleiri eða ef Íslendingum mundi þóknast að éta svolítið meira af þessari vöru, þá yrði landbúnaðarframleiðslan ekkert of mikil. En nú vill svo til að ég þarf ekki að svara hæstv. forsrh. um þetta. Það er svo oft, það er eins í þessu efni og mörgum öðrum, að það er einfaldast að láta hæstv. forsrh. svara sér sjálfan. Það þarf ekki nema fletta upp í opinberum gögnum til þess að gera það.

Hæstv. forsrh. hefur lagt hér fram þjóðhagsáætlun fyrir árið 1984. Þar stendur í kafla um málefni atvinnuveganna á bls. 11, með leyfi forseta:

„Afkoma útgerðar er mjög erfið. Í þessu efni veldur ekki síst að afkastageta flotans er miklu meiri en samsvarar aflabrögðum nú. Leitað er leiða til lausnar á þessum vanda.“

M.ö.o.: það er viðurkennt hér sem meginvandamálið í höfuðatvinnuvegi okkar að afkastageta flotans er alltof mikil. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hver það er meðal íslenskra stjórnmálamanna sem fyrst og fremst ber ábyrgð á því að svo er komið.

Á öðrum stað í þessari sömu þjóðhagsáætlun, þar sem fjallað er um hag atvinnuvega á næsta ári, segir á bls. 22, með leyfi hæstv. forseta:

„Lakari afkomu árið 1982 má öðru fremur rekja til minni botnfiskafla, en hann dróst saman um tæp 5% á árinu. Enn fremur hefur stækkun fiskiskipastólsins átt sinn þátt í því, að minni afli kemur á hvert skip en ella.“

Menn hafa verið að reyna að hártoga það eða deila um það hvað eftir annað í sambandi við umr. um offjárfestinguna í sjávarútvegi, hvort sami afli gæti virkilega náðst með mun færri skipum. Nú er ég ekkert að halda fram neinni sérstakri skoðun um það efni. Ég er aðeins að vitna til opinbers gagns, sem hæstv. forsrh. hefur sjálfur lagt fram, þar sem þessu er svarað. Þar er fullyrt að minni afli komi á hvert skip en ella væri af þessum sökum.

Hæstv. forsrh. vitnaði í Dagblaðið og Vísi frá því í sept. 1982, þar sem getið var afreka sjútvrh. fyrrv. ríkisstjórna við innflutning skipa og tíundað hvað hver og einn þeirra ætti í hinum alltof stóra flota. Þessar tölur ná að vísu ekki nema fram á haustmánuði 1982, ná t.d. ekki til skipa sem enn er eftir að flytja inn og hafa gleymst og vitnað hefur verið til. En hér er þó saman dregið, að í sjávarútvegsráðherratíð Eggerts G. Þorsteinssonar á viðreisnarárum var veitt samþykki fyrir innflutningi 12 skuttogara. Í ríkisstjórnartíð Ólafs Jóhannessonar 1971–1974 var veitt samþykki fyrir innflutningi á 42 skuttogurum. Í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar, frá því í ágúst 1974 til sept. 1978, í sjávarútvegsráðherratíð hæstv. ráðh. Matthíasar Bjarnasonar, var veitt innflutningsleyfi fyrir 30 togurum. Í ríkisstjórnartíð Ólafs Jóhannessonar, frá því 1. sept. 1978 til okt. 1979, var veitt innflutningsleyfi fyrir 6 togurum.

Það mun hafa verið árið 1976 sem svarta skýrslan var fyrst birt. Hún var fyrsta viðvörunarhringingin um hættuástand fram undan að því er varðaði fiskveiðastefnu og hugsanlega ofveiði á okkar helstu nytjastofnum. Árið 1978 var mjög áréttað af fiskifræðingum að frekari fjárfestingu í togaraflotanum ætti að stöðva. Því verður ekki í móti mælt, að í sjávarútvegsráðherratíð Kjartans Jóhannssonar, árin 1978–79, var að lokum stigið á bremsurnar í þessum efnum. Áður en hann tók við embætti sjútvrh. hafði verið veitt leyfi fyrir innflutningi 84 nýrra togara. Það er enginn ágreiningur um það að fjárfesting í togaraflotanum var nauðsynleg, skynsamleg og skilaði arði upp að vissu marki, meðan við vorum að byggja upp þessi afkastamiklu tæki og meðan við vorum enn á þeirri leið að nýta skynsamlega þessa takmörkuðu auðlind. En eftir árið 1979 var alveg augljóst mál, og um það voru þá eiginlega flestir dómbærir menn orðnir sammála, að stíga þyrfti á bremsurnar. Það sem síðan hefur gerst er það, að þessu var haldið áfram, þannig að í tíð hæstv. fyrrv. sjútvrh., frá því 8. febr. 1980 og þar til þetta er tekið saman, sem er í sept. 1982, hafði verið veitt heimild fyrir 17 nýjum skipum. En sá listi er engan veginn tæmandi. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni?) Já, herra forseti, ég á allnokkuð mál eftir. (Forseti: Þingflokksfundir hafa verið auglýstir núna kl. 4. Ætlunin er að þessum fundi ljúki nú og síðan verður málið tekið fyrir á næsta fundi.) Ég mun þá gera hlé á ræðu minni.