14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2830 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mælti hér skörulega fyrir málstað kvenna áðan og þarf þar engu við að bæta. Þó vil ég í krafti máltækisins „aldrei er góð vísa of oft kveðin“ segja nokkur orð um stöðu, menningu og sögu kvenna.

Hv. þm. Eiður Guðnason trúir því ekki að til sé sérstök kvennamenning, bara menning, ekki nein kvennasaga, bara mannkynssaga. Það er kannske ekki nema von og hann er ekki einn um þessa skoðun. En þetta er enn eitt dæmi þess aðstöðuleysis kvenna, að þær hafa ekki verið gerendur og skrifendur sögu sinnar, en fyrst og fremst þotendur hennar. Þó hlýtur hv. þm. að samþykkja að konur og karlar eru frábrugðin og gegna mismunandi líffræðilegum hlutverkum. Hann hlýtur líka að samþykkja það að störf kvenna hafa frá örófi alda verið samofin og nátengd því kynhlutverki okkar að ala og annast börn. Í tímanna rás hefur svo þessi umönnun einnig færst yfir á alla þá sem minna mega sín í lífsbaráttunni vegna sjúkleika, aldurs eða annarra orsaka. Meginviðfangsefni kvenna hafa því iðulega verið bundin umönnun annarra og velferð, andtegri og líkamlegri, í smáu og stóru. Slíkt framlag, svo nátengt sem það er tilfinningum, er erfitt að meta til fjár, enda hefur það oftast verið tekið sem sjálfsagður hlutur. Þó er það ómissandi til að vefa þann vef samheldni og friðar milli mannanna sem hefur myndað það öryggisnet sem fleytir daglegu lífi þjóðanna áfram kynslóð fram af kynslóð.

Þrátt fyrir þetta mikilvæga hlutverk hafa konur svo frá alda öðli að auki unnið flesta þá vinnu sem þurfti til framfæris sjálfra þeirra og fjölskyldna við margháttuð störf. Hv. þm. getur tæpast dregið í efa að þessi störf hafi veitt þeim starfsreynslu sem þau unnu. En ekki bara starfsreynslu, heldur hafa hin nánu afskipti kvenna af umönnun lífs gefið þeim lífssýn og verðmætamat sem eru rætur og undirstöður þeirrar menningar sem þær bera kynslóð fram af kynslóð. Hún er mótuð af sérstakri upplifun og reynslu og um hana gilda sömu lögmál og um aðra menningu. Hún er jafnframt hluti af heimsmenningunni og það mjög mikilsverður hluti.

En hvers vegna er henni afneitað? Og hvers vegna hefur hún verið næstum ósýnileg? Jú, konur hafa verið fyrir utan valdakerfi heimsins. Rödd þeirra og viðhorf hefur ekki verið með til að ráða stefnu eða mati, hvorki á sjálfum sér né öðrum. Menntunarskortur og efnahagslegt ósjálfstæði samfara hinum víkjandi, mjúku eiginleikum, sem lögð hefur verið áhersla á í fari kvenna, hefur gert það auðveldara að hlunnfara þær og skáka þeim í hefðbundin hlutskipti sín. Þegar svo konur hafa leitað út á hinn almenna vinnumarkað hefur meginþorri þeirra hafnað í störfum skyldum þeim sem þær vinna ólaunuð inni á heimilum sínum. Þá bregður svo við að þessi störf eru metin lægst til launa. Hvað ræður því eiginlega? Hvaða forsendur liggja til grundvallar slíku verðmætamati? Er hægt að ætla að við höfum valið okkur það hlutskipti sjálfar að vera ekki matvinnungar þrátt fyrir mikið vinnuframlag? Er það okkar sjálfviljug ákvörðun að gefa vinnu okkar og skipa fyrst og fremst ófaglærða láglaunahópa, án forræðis eða áhrifa til að breyta og bæta kjör okkar? Nei, það er líklegra að það séu einhverjir aðrir sem taka þessar ákvarðanir, en konur taka síðan afleiðingunum. Það er líklegt að þeir sem þarna vega og meta störfin þekki þau ekki af eigin raun og á eigin kroppi. Hinar rótgrónu venjur um hegðun og viðfangsefni kvenna og karla gera ekki ráð fyrir því að konur séu virkar í stefnumótun eða ákvarðanatöku þjóðfélagsins, né heldur að vinnuframlag okkar, hvort heldur er innan heimilis eða utan, sé jafnverðmætt til framfæris og vinnuframlag karla.

Þegar svo farið er að segja frá athöfnum manna og rás sögunnar, þá eru það ekki konur sem segja frá, það eru fyrst og fremst karlar. Og alveg á sama hátt og þeir meta og hafa metið framlag kvenna eftir þeim mælistikum sem lagðar hafa verið á verðmæti einstaklingsins, eins og t.d. að greiða þeim laun, þá meta karlar söguna út frá sínu sjónarhorni og sinni reynslu en sleppa fremur því sem þeir þekkja ekki af eigin raun.

Til gamans — og til að varpa ljósi á ólíkar áherslur karla og kvenna á sama vettvangi langar mig að nefna að sænski málvísindamaðurinn Kerstin Nordin Thelander hefur gert rannsókn á málnotkun kynjanna með því að rýna í ræður 56 sænskra þingmanna af báðum kynjum. Helmingurinn eru konur og helmingurinn karl ar. Síðan spurði hún þá spjörunum úr.

Hvort skyldi svo karl eða kona hafa sagt oftar eftirfarandi orð: Barn, konur, foreldrar, menntun? Jú, alveg rétt, það var kona. Hins vegar tók karlmaður sér í munn orðin: Fyrirtæki, ég, framleiðsla. Að þessu komst Thelander með því að renna ræðum ofangreindra þm. frá árunum 1978–1979 í gegnum tölvu. Algengustu karlmannsorðin voru auk þeirra sem ég hef áður getið um: Burtu, hann, Svensson, Erik, ríkið, vinnumálaráðherra. Algengustu kvennaorðin voru: Skóli, allir, þörf, nemendur, rými — auk þeirra orða sem ég áður gat um. Án þess að fara ítarlegar út í ástæður þessa mismunar í málnotkun vil ég þó leyfa mér að álykta að þar sé að hluta til um ólíka menningarlega afstöðu að ræða.

Langflest ef ekki öll lýðræðisríki hafa það að megin markmiði að ná jafnrétti fyrir alla þegna sína. Þó að mörg þeirra standi á gömlum merg hefur samt engu þeirra enn tekist að tryggja konum jafnrétti á við karla í reynd. Þegar svo karlar reyna að gera gott úr hlutunum taka þeir gjarnan dæmi um herskáar, ófyrirleitnar konur sem hafa náð völdum vegna ættartengsla eða vegna þess að þær voru harðari og ákveðnari en þeir karlar sem sóttu í sama sess. Þær stjórna gjarnan í anda karla og hafa sjáldan eða aldrei komist í stöðu sína í valdi kvenleika síns.

En nú eru breyttir tímar og konur vilja ekki lengur vera meðsekar um áhrifaleysi sitt. Ótrúlegt langlundargeð þeirra er þrotið og þær vilja bæta kjör sín og leita þess eðlilega réttar sem þeim ber til að ráða meiru um lífsferil sinn og val og jafnframt að hafa meiri áhrif til að móta það þjóðfélag sem þær búa í. Þær vilja verða gerendur og skrifendur eigin sögu, ekki bara þolendur.

Konur hafa verið aðskildar hver frá annarri inni á heimilum sínum eða vinnustöðum, hver með sína persónulegu reynslu af vandamálum og áhrifaleysi, án þess að finna því samnefnara. Persónuleg reynsla hverrar fyrir sig hefur verið gerð að einkamáli og því ekki baráttumáli hóps. Það er því pólitísk aðgerð að uppgötva samræmi milli persónulegrar reynslu sinnar og annarra kvenna og gefa henni gildi. Þetta hafa konur fundið og jafnframt hefur reynslan kennt þeim að réttindi verða þeim ekki færð á silfurfati. Þær hafa lært að sækja þarf fram með staðfastri baráttu og þá er tryggara að vera liðmargur og standa þétt saman.

Konur vilja að mennskan og hið mjúka gildi komist að til að móta söguna og skrifa hana. Þess vegna er Kvennalistinn til og þess vegna stend ég hér.