14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég tel ekki að ófyrirsynju að hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason hefur vakið máls á því sérkennilega fyrirbrigði sem heitir sala hlutabréfa í eigu ríkisins. Ég hygg að í því sambandi hljóti að vakna ýmsar spurningar sem eðlilegt er að ræða á Alþingi.

Í fyrsta lagi hlýtur að vakna sú spurning, hvort hæstv. fjmrh. hefur heimild til að selja hlutabréf í eigu ríkisins. Í öðru lagi vaknar sú spurning, með hvaða hætti eðlilegast sé að salan eigi sér stað. Og í þriðja lagi væri svo kannske gott að ræða í framhjáhlaupi hvort nauðsynlegt og skynsamlegt sé að selja hlutabréf í eigu ríkisins.

Varðandi fyrstu spurninguna, þ.e. hvort hæstv. fjmrh. hafi heimild til að selja hlutabréf í eigu ríkisins, þarf enginn að efast um svarið. Hann hefur enga heimild til að selja hlutabréf í eigu ríkisins. Hann er hins vegar nýlega búinn að fá afgreidd fjárlög fyrir árið 1984 þar sem vikið er að heimildum sem hann hefur til sölu á eigum ríkisins. Þar er hvergi minnst á þessi hlutabréf, ekki einu einasta orði. Þannig er atveg ljóst að hæstv. fjmrh. skortir allar lagalegar heimildir til sölu hlutabréfa og þegar látið er að því liggja í blöðum, bæði dagblöðum og fjölmiðlum öðrum, útvarpi og sjónvarpi, að hlutabréf séu til sölu í fjmrn. og fjmrh. sé að velta því fyrir sér hvort hann eigi að selja þessum eða hinum einhver hlutabréf er alveg fullkomlega ljóst að þetta er ekkert annað en tóm della frá upphafi til enda vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur ekki heimild til að selja hlutabréf. Það liggur ekkert fyrir um hvort Alþingi er reiðubúið að veita honum þessa heimild, liggur meira að segja ekkert fyrir um hvort ríkisstj. óskar eftir því við Alþingi að veitt verði til þess heimild. Og hvað eru menn þá að auglýsa hlutabréf og kalla eftir tilboðum og rökræða við fjölmiðla um hvort þessi eða hinn eigi að fá keypt viðkomandi hlutabréf, þegar vel getur svo farið að það sé alls ekki vilji fyrir hendi hjá ríkisvaldinu til að selja þessi hlutabréf? Hæstv. fjmrh. fer sem sagt ósköp einfaldlega ekki með málið, heldur Alþingi. Alþingi þarf fyrst að gefa honum heimild til að selja og þá fyrst, þegar Alþingi hefur veitt þá heimild, er hægt að fara að ræða við einstaka kaupendur og ræða í alvöru hvort líklegt sé að þessi eða hinn fái hlutabréfin keypt. Ég sé ekki betur en að það sem hefur verið að gerast undanfarnar vikur í þessu máli sé ósköp einfaldlega að menn hafa látið hafa sig að fíflum. Það er verið að skrifa langar greinar í blöð um hvort þessi eða hinn hafi átt að fá hlutabréf keypt, en það liggur nákvæmlega ekkert fyrir um hvort þessi hlutabréf eru til sölu, hvort þau eru fáanleg, eða hvort það er meiri hl. á Alþingi fyrir því að selja þessi hlutabréf. Ég dreg mjög í efa að sá meiri hl. sé fyrir hendi og ég vek athygli á því að það hefur ekkert komið fram um hvort Alþingi er reiðubúið að selja þessi ákveðnu hlutabréf.

Varðandi þá spurningu með hvaða hætti sala hlutabréfa ætti að eiga sér stað ef heimild væri fyrir hendi, þá held ég að þurfi ekki mörgu við að bæta það sem fram kom hér, bæði hjá fyrirspyrjanda og hæstv. ráðh. Ég hef nú ekki kynnt mér svo nákvæmlega hvernig að hefur verið farið í fjmrn., en ég vek á því athygli að hægt er að selja hluti með þrennum hætti: Í fyrsta lagi með því að leita tilboða, í öðru lagi með því að útboð fari fram og í þriðja lagi með því að uppboð fari fram. Ég held að aðalatriðið sé að það sé valin ein aðferðin, en ekki sambland af þeim. Og síst af öllu má þetta vera á þann veg að tilboða sé leitað og þau eigi að vera komin fyrir ákveðinn tíma en tilboðin séu jafnóðum opnuð og það kunni þá að fréttast hvað hefur verið boðið í þannig að þeir sem bjóða á allra seinustu stundu hafi aðstöðu umfram aðra til að hreppa þann hlut sem er til sölu. Annaðhvort verður salan að eiga sér þannig stað að tilboða sé aflað og það sé ósköp einfaldlega beðið þangað til ekki berast fleiri boð og þetta sé allt opið og gerist í fjölmiðlum, eins og nokkrir tilburðir hafa verið til. Það má ekki heldur vera einhver lokafrestur, þannig að það ráði úrslitum hver er seinastur að koma með tilboð. Svo er aftur hin leiðin, að það sé útboð, það sé bundið við ákveðinn tíma og að ekkert tilboðanna í útboðinu sé opnað fyrr en útboðsfrestur sé liðinn þannig að allir standi örugglega fullkomlega jafnt að vígi. Þetta er leið númer tvö. Þriðja leiðin er sú að selja hlutabréfin á uppboði þannig að allir viðstaddir eigi þess kost að bjóða. En sem sagt, án þess að orðlengja frekar um með hvaða hætti salan hefur verið boðuð í fjmrn. undanfarnar vikur, kannske skiptir það ekki öllu máli eins og málum er háttað, þegar vitað er að allar heimildir skortir, má alls ekki vera um að ræða einhvers konar sambland af útboðsleiðinni og uppboðsleiðinni þannig að menn geti haft spurnir af því hversu mikið einhverjir aðrir hafa boðið í viðkomandi bréf, menn geti síðan lagt fram tilboð í samræmi við það og verið þeir seinustu sem senda inn tilboð áður en frestur rennur út.

Lokaspurning mín í þessu sambandi var sú, hvort skynsamlegt eða nauðsynlegt sé að selja þessi bréf. Ég vil ekki yfirgefa þennan ræðustól án þess að láta þá skoðun mína í ljós að það er gjörsamlega ónauðsynlegt með öllu að selja þessi bréf. Það getur ekki gegnt neinum öðrum tilgangi en að friða þá sem hafa þá trúarkreddu í höfðinu að ríkið megi alls ekki eiga hlut í fyrirtækjum og eigi alls ekki að stunda atvinnurekstur. Ég veit vel að sjálfstæðismenn af yngri kynslóðinni hafa verið haldnir af þessum sjúkdómi. Þessi trúarkredda hefur verið að breiðast út og menn hafa sumir hverjir verið fársjúkir. Ég veit að þeir sem eru af eldri kynslóðinni eru yfirleitt miklu rólegri í þessum efnum og alls ekki þeirrar skoðunar, eftir því sem ég best veit, að ekki geti komið til greina að ríkið eigi hlutabréf í fyrirtækjum og jafnvel hafi atvinnurekstur með höndum. Þeim finnst þetta sjálfsagt heldur ofstækisfullt, en hafa þó leiðst til að hlaupa eftir því vegna þess ástands sem hefur verið ríkjandi innan Sjálfstfl. Þess vegna held ég að allt þetta umtal um sölu ríkisfyrirtækja og sölu hlutabréfa í eigu ríkisins sé til komið. Auðvitað verður það að vera matsatriði í hverju tilviki hvort eðlilegt sé að ríkið eigi hlut í fyrirtækjum eða ekki. Ég heyri að hæstv. fjmrh. kann vel að meta að ríkið skuli eiga hlut í Eimskipafélaginu vegna þess að hann tók þannig til orða áðan að hlutabréf gætu skipt verulega miklu máli á aðatfundum Eimskipafélagsins, væru mættir hluthafar eða eigendur hlutabréfa sem dreifð væru víða um land, og þessi hlutdeild ríkisins væri því mjög mikilvæg. Ég er algjörlega sömu skoðunar og hæstv. ráðh. Ég hygg að meiri hl. Alþingis vilji alls ekki selja þessi bréf og vonast til að sú skoðun mín verði staðfest hér á þingi sem fyrst.

Hæstv. ráðh. var að fara fram á það við hæstv. forseta Sþ. að mál þetta fengi afgreiðslu hér í þinginu og Alþingi skæri úr um hvaða leið ætti að fara í þessum efnum og hvort hann hefði farið rangt að. Ég býst við að hæstv. forseta vefjist nokkuð tunga um tönn þegar hann ætlar að leggja þetta mál fyrir okkur hér í þingsölum og hann muni vænta þess að hæstv. fjmrh. leysi hann úr vandanum með því að flytja hér í þinginu eitthvert mál sem getur komið til atkvgr. því auðvitað getur hæstv. forseti ekki haft frumkvæði að því að þingið taki afstöðu til málsins. Til þess þarf málið að koma frá ríkisstj. í einu eða öðru formi þannig að það sé hægt að taka það hér til afgreiðslu og meðferðar.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að óskynsamlegt og algjörlega ónauðsynlegt sé að selja hlutabréf í eigu ríkisins, að hlutdeild ríkisins gegni í flestum ef ekki öllum tilvikum ákveðnu hlutverki og það sé þá aðeins í undantekningartilvikum að til greina geti komið að selja þessi hlutabréf.

Ég vænti þess að meiri hl. Alþingis sé svipaðrar skoðunar og mundi eindregið mælast til þess að þessum einkennilega leik með hlutabréfin yrði hætt og úrskurður Alþingis í málinu fengist sem fyrst, en það verður því miður ekki öðruvísi en að hæstv. ráðh. flytji málið inn í þingið.