14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2469)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil einkum gera að umræðuefni eitt atriði í ræðu hæstv. fjmrh. Það er sú túlkun embættismanna í fjmrn. að ráðh. hafi heimild til að selja hlutabréf upp á sitt eindæmi. Þessi túlkun tel ég að orki tvímælis og að svo komnu máli vefengi ég hana og held að hún geti ekki staðist. Það er a.m.k. í miklu ósamræmi við þá starfshætti sem við höfum vanist hér á Alþingi. Ef ríkið vill selja jarðarpart, þó það sé ekki nema partur úr einu koti, verður að setja um það sérstök lög. Ég finn ekki að sé neitt samræmi í því eða hægt sé að líta svo á að um hlutabréf í fasteign eða hlutabréf í fyrirtæki sem á fasteignir megi gilda allt önnur aðferð. Mér finnst að hlutabréf í fasteign megi líta á sem hluta fasteignar og ef þarf að setja lög um ómerkilega eyðijörð held ég að útilokað sé annað en það þurfi a.m.k. að vera á heimildagrein fjárlaga leyfi til þess að ríkið selji eign, a.m.k. eign sem er jafnverðmæt og 5% í hlutabréfum, t.d. þessi margumræddu 5% í Eimskipafélagi Íslands. Ég lít svo á að 5% í hlutabréfum í Eimskipafélagi Íslands jafngildi 5% af skuldlausri eign Eimskipafélagsins. Ég held að varla sé hægt að komast nær því hvers virði þau bréf eru.

Það getur vel verið að dugi að koma þessu á heimildagrein fjárlaga, en ég vil ekki láta þá túlkun ganga hér mótmælalaust í gegn að ráðh. hafi heimild án vafa. Ég vil hins vegar staðfesta það einu sinni að hæstv. fjmrh. hefur aldrei dottið í hug, og hann hefur gert okkur samstarfsmönnum sínum glögga grein fyrir því að hann mundi aldrei láta sér detta slíkt í hug, að selja eitt eða neitt af þessum bréfum nema hafa samráð við alla stjórnarþm. og hafa þá þar með meiri hl. á þingi fyrir sínum gerðum. Ég hef litið svo á að hver og einn stjórnarþm. hefði neitunarvald um slíkar sölur. Það væri líka mjög óskynsamlegt af ráðh. og það mundi aldrei henda hæstv. fjmrh. að fara að selja hlutabréf í trássi við meirihlutavilja Alþingis. Hann yrði valtur sá ráðherrastóll í framtíðinni ef ráðh. temdi sér þá starfshætti. (Gripið fram í.) Það er margt skynsamlegt sem hæstv. fjmrh. hefur sagt í þessari umr., en mér fannst nú örla á dómgreindarleysi hjá honum þegar hann var að tala um hina ungu sjálfstæðismenn af mikilli hrifningu áðan. Það eru góðir strákar þarna í bland, en það er misjafn sauður í mörgu fé og fáhittir í þessum hópi drengir sem eru afbragð annarra manna þó að þeir kunni að vera til.

Mér fannst hæstv. fjmrh. líka leggja of mikið kapp á að undirstrika nauðsyn þess að vera opinn við blaðamenn. Ég veit að samstarf við blaðamenn er mjög mikilvægt mönnum sem eru í pólitík og það er sjálfsagt að umgangast blaðamenn af nærgætni og auðvelda þeim störf þeirra eftir því sem mögulegt er. Nú kann ég ekkert á fótbolta, það vil ég taka strax fram, og hef aldrei verið atvinnumaður í íþróttum. Þó lít ég á að stjórnmálastarfið lúti alls ekki sömu lögmálum og fótbolti og í ráðherrastarfi sé meginatriðið að vinna skynsamlega miklu fremur en að segja frá því sem menn langar til að gera einhvern tíma í framtíðinni. Það tel ég að ráðh. okkar hafi yfirleitt gert.

Ég kom ekki heldur alveg saman þessu með að fjmrh. ætti að vera fasteignasali. Mér finnst að fjmrh. eigi að forvalta okkar þjóðarbú að svo miklu leyti sem það tilheyrir hans rn., og til þess verks hefur hæstv. fjmrh. minn fulla stuðning.