15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2856 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er alger misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að ríkisstj. hafi verið kjörin af fólkinu, af þjóðinni. Það er alger misskilningur á okkar stjórnkerfi og þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Þó að þessir tveir flokkar hafi núna slysast saman í ríkisstj. held ég að þjóðin hafi miður góða reynslu af helmingaskiptastjórnum íhalds og framsóknar í gegnum tíðina. Ég veit að það er engin allsherjar hrifning yfir því t.d. í Sjálfstfl. að starfa með Framsfl. undir þeim formerkjum sem nú er starfað eftir.

En það voru nú aðrir og alvarlegri hlutir sem ég ætlaði að minnast á hér. Hvað heldur hæstv. fjmrh. að konan sem ég sagði frá áðan, sem hefur 2154 kr. heim með sér á föstudögum, hafi mikið afgangs til að leggja í fyrirtæki í þjóðfélaginu? Ég skal segja honum það. Hún hefur ekki einn eyri og langt í frá, hún er áreiðanlega í mínus. Ég skil ekki hvernig hægt er að draga fram lífið á þessum launum. (Fjmrh.: Ég tók undir þetta með þér.)

Hæstv. fjmrh. segir: Við skulum breyta þjóðfélaginu. Jú, við erum sammála um að breyta þjóðfélaginu, en hann vill breyta því á annan veg en við. Hann er að breyta því til hagsbóta fyrir fyrirtækin í hvívetna, en tekur ekki undir það, sem er í nál. okkar í minni hl., að það þurfi að bæta kjör láglaunafólksins. Hvers vegna gerir ríkisstj. ekkert í því máli? Vegna þess að það er ekki pólitískur vilji. Sá pólitíski vilji var ekki fyrir hendi þegar var verið að mynda þessa ríkisstj. í sumar. Við Alþfl.-menn létum þá á það reyna. Sá vilji var ekki fyrir hendi. Ég óttast satt að segja að hæstv. ráðh. séu það langt fjarri, óravegu fjarri, venjulegu launafólki að þeir viti ekkert um hvernig kjör hinir lægst launuðu verða að búa við í þjóðfélaginu. Mér finnst allt þetta tal, allt þeirra hátterni, allur þeirra tillöguflutningur benda eindregið til þess að þeir viti ekki um þann napra veruleika sem snýr að hinum lægst launuðu í þjóðfélaginu. Ég held að þeir ættu að gera sér grein fyrir ástandinu eins og það raunverulega er hjá þeim sem eru tekjulægstir. Það er kannske ekkert mjög stór hópur, en sá hópur á við erfiðleika að etja og efnahagsráðstafanir þessarar ríkisstj. hafa komið feiknalega hart niður á því fólki. Það virðist bara ekki vera neinn vilji til að bæta þarna úr.

Ég held að ráðh. átti sig hreint ekki á því hvernig ástandið í þjóðfélaginu er. Þeir búa einhvers staðar óralangt í burtu. Og ég spyr hæstv. fjmrh. aftur: Hvað heldur hann að fólk sem hefur 2500 kr. á viku hafi afgangs? Fátækt fólk á líka afgang, sagði hæstv. ráðh. áðan. Þetta er misskilningur. Fátækt fólk á engan afgang í dag og þeir sem hafa lægstu launin í þjóðfélaginu eiga engan afgang. Þessu verða menn að átta sig á og þess vegna eiga menn ekki að tala eins og hæstv. fjmrh. gerði hér áðan. Hvað sagði hæstv. ráðh.? (Fjmrh.: Hefur þm. aldrei verið fátækur?) Ég ætla ekkert að fara að rekja mín persónuleg mál úr þessum ræðustól eða lýsa mínum einkahögum, hvorki á unga aldri né nú. Þm. hafa ágæt laun. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki, hæstv. ráðh. að rekja slík mál héðan úr ræðustól. Ég skal segja, hæstv. fjmrh. einhvern tíma í rólegheitum, þegar við sitjum tveir saman, frá mínum uppvaxtarárum. (Fjmrh.: Hér og nú.) Það er alveg sjálfsagt. Ég tel ekki ástæðu til að gera persónuleg málefni einstakra þm. að umtalsefni úr ræðustól. (Fjmrh.: Talaðu af reynslunni.) Við skulum ekki hafa hátt um það. Kannske hef ég ýmsa reynslu í þeim efnum sem hæstv. fjmrh. ekki grunar, en það getum við rætt seinna.