15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2857 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég á áheyrnaraðild að hv. fjh.- og viðskn. Ed. og hef því getað fylgst með gangi þessa máls. Ég hef lýst því yfir þar í viðræðum að ég er ekki andvígur þessu frv. eða tilgangi þess. Ég átta mig aftur á móti illa á orðum hæstv. fjmrh. þegar hann kemur hér í ræðustól og skilur ekki þann málflutning sem fram kemur í gagnrýni manna á frv.

Það liggur alveg ljóst fyrir að vinnuskipulagning með þeim hætti sem ríkisstj. hefur stundað bendir mjög eindregið til þess að gagnrýni sú sem hér er höfð uppi eigi þó nokkurn rétt á sér. Það fer ekkert á milli mála að þau atriði sem ríkisstj. er að lagfæra eru öll mjög á aðra hliðina og það skortir enn þá mjög alvarlega á að ríkisstj. sýni á einhvern hátt hug sinn í garð launafólks. Það fer ekkert milli mála, hvernig sem menn klóra í bakkann, að frv. af þessu tagi kemur láglaunafólki ekki á nokkurn hátt til góða, nema þá hugsanlega ef það yrði á einhvern hátt til að tryggja atvinnuöryggið. Ég get alls ekki tekið undir þann skilning hæstv. fjmrh., þó að hann hafi þar einhverja reynslu sjálfur sem hann státar af, að fátækir safni auði. Það er mjög undarlegur skilningur á fátæktinni.

Hæstv. fjmrh. segir að frv. sé ætlað að tryggja atvinnuöryggi í þessu landi, tryggja stöðu atvinnuveganna. Ég hef spurt að því áður í umr. um málið og spyr að því enn: Hafa menn á einhvern hátt gert sér grein fyrir því hvert fólk ætlar að beina þeim fjármunum sem gert er ráð fyrir að fyrir hendi séu? Þegar hjón eiga 10 þús. kr. afgangs og ætla að fjárfesta, hvar eiga þau að fjárfesta? Hvar er skynsamlegast að fjárfesta í þessu landi? Það vantar dálítið á að búið sé að ryðja brautina á einhvern hátt þannig að menn bæði átti sig á því hvar sé skynsamlegt að fjárfesta og hins vegar að það komi þjóðinni sem heild að gagni, ekki bara þeim einstaklingum sem eiga í hlut hverju sinni.

Við erum að breyta þjóðfélaginu, segir hæstv. fjmrh., og það má satt vera, en þá er aftur komið að þeirri gagnrýni, sem höfð er uppi af þeim sem á móti þessu frv. eru, að þær breytingar sem séð hafa dagsins ljós hingað til hafa greinilega verið mjög á annan veginn. Þetta er ríkisstj. atvinnufyrirtækjanna, segir hæstv. ráðh., þetta er ríkisstj. stöðugleikans. sá stöðugleiki er ekki fyrir hendi á heimili þeirrar konu sem hv. 5. landsk. þm. var að tala um áðan. Það heimili og allmörg fleiri eru núna bundin skilyrðum mikils óstöðugleika, þar sem fólkið veit varla hvort það á til hnífs eða skeiðar frá degi til dags. Og því vil ég spyrja hæstv. fjmrh., vegna þess að ég tel að ríkisstj. gæti á þessu augnabliki lagt fram frv. og till. að margs konar úrbótum fyrir það fólk sem svo illa er statt í dag: Standa aðgerðir eins og frv. sem við erum að tala um núna raunverulega í vegi fyrir úrbótum til handa láglaunafólki? Þá á ég við úrbætur sem virkilega gera nokkurn veginn það sama fyrir að fólk og hér er verið að gera fyrir atvinnuvegina. Ég á við úrbætur eins og t.d. tvöföldun tekjuskattsmarka ellilífeyrisþega, hækkun tekjuskattsmarka almennt til þess að launafólk verði undanþegið tekjuskatti upp að vissum tekjum, breytingu á lögum um tekjur sveitarfélaga þannig að það fólk þurfi ekki heldur að greiða útsvar sem nánast engar tekjur hefur, eins og unga konan sem var til umræðu áðan. Þau opinberu gjöld sem er verið að taka af henni renna helst til sveitarfélags. Og það má nefna hluti eins og leigustyrk og þar fram eftir götunum.

Þetta eru allt saman hlutir sem hægt væri að ganga frá tiltölulega fljótlega og kynna í frv.-formi. En ríkisstj. hefur ekki sýnt þess nein merki enn þá að það sé ákveðinn vilji fyrir hendi til að taka á þessari hlið vandamálsins. Þess vegna vil ég spyrja aftur: Standa frv. eins og það sem við erum hérna að ræða um í vegi fyrir því að núv. ríkisstj. takist á við vanda launafólksins af svipaðri málafylgju og hér er á ferðinni?