15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2864 í B-deild Alþingistíðinda. (2482)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Kannske er fullmikið sagt með því að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. 6. landsk. þm., að fjmrh. viti ekki hvað hann er að gera. Fleiri standa að þessu máli en hann einn persónulega. En ég held að enn þá sé hægt að fullyrða og leggja enn og aftur áherslu á að fyrirætlunin kann að vera mjög góð en þeir sem að henni standa hafa enn þá ekki hugmynd um né geta á nokkurn hátt sýnt fram á hver árangur eða afleiðing þessara aðgerða er. Fjármagnið á að auka atvinnu, segja þeir. Þeir vita ekki hvaða upphæðir er hér verið að tala um og hafa lýst því yfir að þær upplýsingar sé í raun og veru ekki að hafa og ekki að fá. Þeir vita ekki hvert fjármagnið á að fara, ekki hvar verður fjárfest. Það er mjög alvarlegt mál að segja slíkt æ ofan í æ þegar margítrekað er í allri stjórnmálaumræðu hér, bæði á þessu þingi og undanfarandi þingum, að það sem einkum er að í þessu landi er röng fjárfestingarstjórn. Þá liggur eiginlega beinast við að áætla að þessi ríkisstj. hafi ekki áhuga á því að stjórna enda virðast mjög margar aðgerða hennar benda mjög eindregið í þá átt.

Hv. 4. þm. Austurl. benti réttilega á að verðbólga hefur þau áhrif á kjör manna að þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari. En þá er að svara því hvað gerist þegar verðbólgan er horfin. Þá kemur í ljós hverjir að því standa að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Þá er ekki lengur hægt að kenna verðbólgunni um.

Ég sagði áðan að næstum virtist sem þessi ríkisstj. hefði ekki áhuga á að stjórna þó að hún marglýsi því yfir að hún sé hér til þess. Til þess eru fjölmörg dæmi. Í fyrsta lagi eru þau brbl. sem gefin voru út við upphaf þessa stjórnarferils. Síðar meir kom í Ijós að ríkisstj. hafði varla haft grun um hvaða áhrif þau hefðu því árangur þeirra varð miklu meiri og skjótari en þeir höfðu nokkurn tíma gert sér í hugarlund að vænta mætti. Það kemur kannske einkum og sér í lagi til af því að menn hafa ekki, bæði þá og að því er virðist alls ekki nú heldur, enn þá gert sér grein fyrir því að laun eru ekki það sama og kjör. Kjör fólks eru allt annað en þau laun sem það hefur. Maður getur boðið fólki allstórar fjárfúlgur í launum án þess að maður bæti í raun og veru mikið úr kjörum þess. Ég var á fundi á laugardaginn var. Þar stóð upp maður, einstæður faðir, með 18 þús. kr. laun. Þegar hann lagði niður fyrir okkur sitt dæmi, þ.e. þann kostnað sem hann þarf að útleggja mánaðarlega, kom í ljós að hann hafði afgangs 2 þús. kr. fyrir mat og klæðum.

Maður getur nefnt fleiri dæmi um áhugaleysi þessarar ríkisstj. á því að stjórna og það á sviðum þar sem henni hefur verið margbent á að hún gæti haft mikinn ávinning af því. Svo er t.d. í stórum fjárfrekum framkvæmdum eins og flugstöðinni þar sem henni hefur verið bent á að hugsanlega megi spara allt upp í 40% í byggingarkostnaði. En hún hefur ekki áhuga á að vita af því einu sinni.

Ég hef reyndar sagt að í sjálfu sér séu þau frv. sem nú eru á okkar borðum ekkert annað en það sem viðgengst víðast hvar í okkar nágrannalöndum þannig að í eðli sínu eru þau ekki óeðlileg. En menn geta þó ekki horft fram hjá því og mega ekki snúa sér undan þeirri gagnrýni með einhverjum frammíköllum og útúrsnúningi sem fram hefur komið, menn verða að viðurkenna að á þeim hvílir ákveðin sönnunarbyrði þegar málin eru gagnrýnd. Skiljanlegt er að menn vilja vita hvað í raun og veru er á ferðinni, hverjar eru afleiðingarnar og hver er árangurinn sem vænst er. Svarið er eitt, að fjármagnið auki atvinnu. Það segir í sjálfu sér ekki neitt og er enn þá ekkert annað en væntingar.