15.02.1984
Efri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera langorður. Það er tvennt sem mig langar til að víkja aðeins að. Það er sjálfsagt rétt að hæstv. fjmrh. er kannske ekki alveg ljóst hvað er verið að gera með þessum frv. og hvað hann er að gera, en hinum háu herrum sem sitja með honum í ríkisstj. er það alveg fullkomlega ljóst. Hér er auðvitað stefnt að því ákveðna marki, sem ég minnist á hér áðan, að breyta þessu þjóðfélagi til hagsbóta fyrir hina efnuðu. Það eru hreinar línur.

Í öðru lagi vekur það mér ævinlega furðu þegar hv. þm. Tómas Árnason, 4. þm. Austurl., kemur í þennan ræðustól og segir: Hvernig væri ástandið ef ekkert hefði verið gert? Staðreyndin er sú, að það voru allir flokkar sammála um að það þyrfti að grípa til róttækra ráðstafana. Það var enginn flokkur sem taldi að það væri í rauninni valkostur að láta reka á reiðanum. Eftir samfellda stjórnarsetu Framsfl. frá 1971 var þannig komið í íslensku þjóðfélagi — (ÓU: Hún var ekki alveg samfelld.) Ja, svona næstum því, hv. þm. Ólafur Jóhannesson, það voru skömm hlé þar á. Eftir langa stjórnarsetu Framsfl. og margrómaðan framsóknaráratug var verðbólgan komin lengra og ástandið orðið alvarlegra í íslensku þjóðfélagi en nokkru sinni fyrr. Svo kemur hv. þm. Tómas Árnason og segir okkur að nú hafi verið farin leið sem er sambland niðurtalningarinnar og leiftursóknarinnar. Það var þá niðurtalning í einu stökki. Það var engin niðurtalning, það var ekki nokkur niðurtalning sem hér átti sér stað. Þetta var bara ómenguð leiftursókn og meira að segja sýnu harðari og sýnu óbilgjarnari en sú sem Sjálfstfl. boðaði 1979 og framsóknarmenn sællar minningar börðust þá af mikilli hörku gegn og töldu að mundi leiða til hins mesta ófarnaðar fyrir íslenska þjóð, einkum fyrir láglaunafólkið. Það hefur nú sýnt sig að þessi útgáfa leiftursóknarinnar, sem er mun harðari og óbilgjarnari en nokkuð það sem boðað var 1979, hefur leitt láglaunafólkið í ógöngur. Hún hefur stöðvað verðbólguna á kostnað launanna, en dýrtíðin heldur áfram og kaupmáttarskerðingin er hrikalegri en nokkurn hafði órað fyrir. Við þm. erum nýbúnir að fá fréttabréf kjararannsóknanefndar. Vill ekki hv. þm. líta þar á síðustu bls.? (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að stytta mál sitt?) Já, ég mun stytta mál mitt, virðulegi forseti, ég er ekki vanur að tefja mjög lengi í þessum ræðustól, en ég ætla að ljúka við þessa setningu. Ég vil biðja hv. stjórnarþingmenn að skoða línuritið yfir kaupmátt lífeyristrygginganna sem er í fréttabréfi kjararannsóknanefndar. Og nú skal ég láta máli mínu lokið, virðulegi forseti.