27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

1. mál, fjárlög 1984

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Það fjárlagafrv., sem ég mæli hér fyrir, endurspeglar á margan hátt þær miklu efnahagsþrengingar sem ríkisstjórnin og þjóðin öll glímir nú við. Þetta frv. og sú lánsfjáráætlun sem lögð hefur verið fyrir Alþingi bera það glöggt með sér að ríkisfjármálunum í heild er mjög þröngur stakkur skorinn á næsta ári, eins og raunar einnig í ár. Þetta er því aðhaldsfrumvarp, frumvarp sem ber það mér sér að ríkið hefur orðið að taka á sig byrðar til jafns við landsins þegna.

Það er reyndar fátítt að hægt sé að ræða samtímis á Alþingi um fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun, þrátt fyrir lagafyrirmæli um að lánsfjáráætlun skuli fylgja fjárlagafrv. Núverandi ríkisstjórn einsetti sér hins vegar að ganga frá báðum þessum skjölum um svipað leyti, þannig að hægt væri að fjalla um þau samtímis á Alþingi, enda brýn nauðsyn að svo sé, jafnnáskyld og þessi plögg eru.

Ég vil taka það fram í upphafi, að út fyrir þann ramma sem útgjöldum ríkisins hefur verið settur með fjárlagafrv. fyrir 1984 og lánsfjáráætlun verður ekki farið. Þingmenn, sem hafa vafalaust margir uppi góðviljuð áform um útgjaldaaukningu, verða strax að gera sér grein fyrir því að hvorki er hægt að auka við erlendar skuldir né yfirdrátt í Seðlabankanum. Og það kemur ekki til greina að auka álögur á landsmenn við núverandi aðstæður. Eina færa leiðin er að draga saman seglin, eins og ráðgert er með þessu frv.

Ríkissjóður hefur nokkur undanfarin ár nærst á umframeyðslunni í þjóðarbúinu og fengið tolltekjur af innflutningi sem keyptur hefur verð fyrir lánsfé og söluskattstekjur af viðskiptum sem byggst hafa á lánum erlendis frá. Þetta getur ekki gengið lengur, eins og öllum má vera ljóst.

Segja má að við undirbúning þessa fjárlagafrv. hafi þrjú meginmarkmið verið höfð í huga.

Í fyrsta lagi að styðja við hina almennu efnahagsstefnu ríkisstj. og stuðla að því að sá veigamikli þáttur efnahagskerfisins sem ríkisbúskapurinn er sé samstiga öðrum þáttum í hagstjórninni. Ríkisfjármálin eru, eins og kunnugt er, alls staðar afar mikilvægur liður í almennri efnahagsstjórn og fjárlög ríkisins áhrifamikið hagstjórnartæki sé þeim rétt beitt. Í baráttunni við verðbólgu og viðskiptahalla á Íslandi á næsta ári skiptir ekki síst máti að taumhald sé haft á útgjöldum ríkisins og öflug stjórn verði á öllum ríkisbúskapnum með heildarjafnvægi í huga. Að því er stefnt með þessu frumvarpi.

Í öðru lagi hefur það verið meginmarkmið í fjárlagagerðinni að gera fjárlögin á ný að raunhæfu, marktæku plaggi gagnvart þeim aðilum sem fjárveitinga njóta samkvæmt fjárlögum. Á síðustu árum hefur því farið víðs fjarri að fjárlögin hafi verið raunhæf þótt í ár hafi tekið út yfir allan þjófabálk að þessu leyti þegar margar stofnanir og ráðuneyti voru búnar með fjárveitingu alls ársins löngu fyrir mitt ár.

Þess eru t.d. ýmis dæmi að fjárveiting til stofnana og ráðuneyta á fjárlögum ársins 1983 hafi verið lægri en raunverulegur kostnaður var 1982 samkvæmt ríkisreikningi, þrátt fyrir gríðarlegar verðhækkanir milli þessara tveggja ára. Þetta er auðvitað skrípaleikur og nær engri átt. Í fjárlagafrv. nú er gerð alvarleg hreingerning í þessu efni og reynt að áætla raunhæft fyrir þeim rekstri sem ráðgerður er.

Þetta ástand hefur ekki aðeins skapað óþægindi og óvissu fyrir alla hlutaðeigandi, heldur einnig grafið undan því fjárhagslega aðhaldi sem fjárlögin eiga að veita þeim sem fjárveitingar hljóta. Útilokað hefur verið að beita greiðsluáætlunum í alvöru í þessu skyni. Loks hefur þetta ástand leitt til þess, að hjá einum manni, fjmrh., hefur safnast mikið og óeðlilegt geðþóttavald. Þetta vald birtist í aukafjárveitingum sem fjmrh. hefur vald til að heimila. Með þessu valdi er Alþingi í raun svipt hluta fjárveitingavaldsins, þótt seint og um síðir sé flutt frv. til fjáraukalaga, sem í raun er ekki hægt að gera breytingar á. Í þessu efni er mál til komið að sporna við fótum og takmarka þetta óþingræðislega vald. Áhrifaríkasta leiðin til þess að setja ríkinu raunhæf fjárlög, eins og stefnt er að með þessu frv.

Ég vil vekja athygli alþingismanna á viðhorfum ríkisendurskoðunar í þessu efni. Í skýrslu hennar um framkvæmd fjárlaga árið 1982 segir m.a.:

„Ríkisendurskoðun telur mjög mikilvægt að fjárlög séu þannig afgreidd af Alþingi, að þau sýni raunverulegan vilja Alþingis um fjárveitingar til einstakra viðfangsefna og að fjárlög séu marktæk til stjórnunar á ríkisbúskapnum. Þá telur ríkisendurskoðun enn fremur að kveða verði fastar á um heimildir framkvæmdavalds til ákvarðana um aukafjárveitingar en gert er nú. Ríkisendurskoðun vill benda á, að lausn á þessu máli gæti verið að Alþingi tæki fjárlög til endurmats innan fjárlagaársins.“

Þriðja meginmarkmiðið, sem haft hefur verið að leiðarljósi við samningu þessa fjárlagafrv., er að draga úr umfangi ríkisins í þjóðarbúskapnum, minnka ríkisumsvifin og takmarka hlutdeild ríkisins í þjóðartekjunum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er þetta markmið orðað á eftirfarandi hátt:

„Gagnger endurskoðun fari fram á ríkisfjármálum við undirbúning og gerð fjárlaga framvegis með það fyrir augum að draga úr ríkisumsvifum og útgjöldum.“ Þetta þýðir einfaldlega að ríkið hyggst soga minna til sín af aflafé því sem atvinnuvegir og einstaklingar skapa. Þetta kemur glöggt fram í fjárlagafrv., eins og ég mun víkja nánar að síðar. Hitt er svo annað mál, að margra ára þróun í átt til aukinnar útþenslu ríkisbáknsins verður ekki snúið við á einni nóttu eða með einum fjárlögum. Þar verður að vera um að ræða skipulega áætlun til nokkurs tíma. M.a. verður í því sambandi að huga að lagabreytingum vegna tilfærslu verkefna og tekjustofna til sveitarfélaga. Mun ríkisstjórnin væntanlega beita sér fyrir tillögum í þessu efni von bráðar.

Ljóst er að minnkun ríkisumsvifa kallar á verulegt sparnaðar- og hagræðingarátak af hálfu hins opinbera. Ég vil nota þetta tækifæri til að skýra frá því, að samstarf hefur tekist milli ríkisins og sambands íslenskra sveitarfélaga um sérstakt hagræðingarátak í opinberum rekstri á næsta ári. Í undirbúningi er sérstök herferð í þessu skyni, sem kynnt mun verða almenningi fljótlega. Ætlunin er m.a. að leita eftir hugmyndum hjá starfsmönnum opinberra fyrirtækja og stofnana og þeim sem njóta opinberrar þjónustu um aukna hagkvæmni í rekstri og bætta þjónustu. Markmiðið er að sjálfsögðu að leita leiða til að bæta þjónustuna og lækka tilkostnað.

Ég vil þakka Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir frumkvæði og gott framtak í þessu máli.

Þetta fjárlagafrumvarp ber merki þeirrar upplausnar og þess hættuástands er ríkti þegar ríkisstj. tók við völdum á síðastliðnu vori. Þegar hafist var handa um undirbúning frv. kom í ljós að ástandið í efnahags- og ríkisfjármálunum var enn verra en haldið hafði verið þegar stjórnin var mynduð.

Verðbólgan stefndi langt yfir 100%. Árshraði verðbólgunnar, miðað við verðbreytingar í febrúar-maí á þessu ári, var 132% og hefði orðið 168% í maí-ágúst samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, ef ríkisstj. hefði ekki gripið í taumana. Árshraði verðbólgunnar, miðað við hækkun lánskjaravísitölu í maímánuði, var 159%. Sýnt var á s.l. vori að verðbólgan var að verða stjórnlaus og við svo búið mátti ekki sitja. Þessi þróun stefndi atvinnulífi landsmanna í stórkostlega hættu og hefði hún ekki verið stöðvuð hefði atvinnubrestur fylgt í kjölfarið. Því var sem betur fer afstýrt.

Meginástæða þess hvernig komið var var sú, að vegna innra ósamkomulags í hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn og viljaleysis Alþb. til að taka á vandanum horfði sú ríkisstjórn aðgerðarlaus á það gerast að þjóðarframleiðslan og þjóðartekjurnar stórminnkuðu. Í stað þess að aðlaga útgjöld þjóðarbúsins lækkuðum tekjum þess sat stjórnin með hendur í skauti og lét reka á reiðanum, þrátt fyrir góðan vilja ýmissa sem í henni áttu sæti.

Afleiðingin varð vitaskuld mjög alvarlegur viðskiptahalli, eða 10 af hundraði miðað við þjóðarframleiðslu. Halli varð reyndar einnig á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd á metaflaárunum 1980 og 1981 eða um 2.3% 1980 og 5% 1981 miðað við þjóðarframleiðsluna.

Þetta hafði auðvitað það eitt í för með sér, að skuldir þjóðarbúsins erlendis stórjukust. Á tíma síðustu ríkisstj. voru tekin meiri erlend lán til að fjármagna eyðslu umfram efni en nokkru sinni fyrr. Það voru meira að segja tekin erlend lán til að greiða hluta af útflutningsuppbótum á landbúnaðarvörur og af þessum lánum verðum við að borga 40 millj. kr. á næsta ári, eins og fram kemur í fjárlagafrv.

Nú er svo komið, að því er spáð er að um næstu áramót muni heildarskuldir þjóðarbúsins út á við nema 32 milljörðum kr. eða sem svarar 60.3% af þjóðarframleiðslu. Þetta þýðir að erlendar skuldir á hvert mannsbarn í landinu verða orðnar sem næst 135 þús. kr. eða 540 þúsund á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Það er að vísu svo, að meginhluti hinna erlendu lána er til langs tíma, sem þýðir að greiðslubyrðin dreifist á allmörg ár. En engu að síður er það staðreynd, að í þessu efni er þjóðin komin á ystu nöf og ekkert má hér út af bregða eigi ekki að skapast hættuástand vegna erlendra skulda landsins.

Áður þegar syrt hefur í álinn í efnahagslífi Íslendinga með minnkandi þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum hefur verið hægt að mæta þeim áföllum að hluta til með tímabundnum erlendum lántökum. Þannig var t.d. 1966, þegar nettóskuldastaða þjóðarbúsins var aðeins 10% af þjóðarframleiðslu, og 1973, þegar sambærileg tala var 18%.

Þetta svigrúm er ekki fyrir hendi nú og raunar er ekki um annað að ræða en að draga verulega úr erlendum lántökum á næsta ári miðað við árið í ár og 1982, eins og fram kemur í lánsfjáráætlun. Þetta vænti ég að sé þingmönnum og þjóðinni allri fullkomlega ljóst.

Um önnur almenn atriði í efnahagsmálum 1983 leyfi ég mér að vísa til þjóðhagsáætlunar, sem þingmenn hafa undir höndum.

Ríkisstj. hóf feril sinn með því að lækka skatta. Má segja að það sé nokkurt nýmæli í seinni tíð, miðað við hve skattar hafa verið auknir stórkostlega hér á landi undanfarin ár.

Við myndun stjórnarinnar beitti hún sér fyrir því að beinir skattar voru lækkaðir um sem svaraði 225 millj. á þessu ári. Hér var um að ræða hækkun persónuafsláttar um 135 millj. kr. og barnabóta um 90 millj. kr. Ríkisstj. beitti sér einnig fyrir hækkun lífeyrisgreiðslna um 5% umfram launahækkanir 1. júní s.l. og verulegri hækkun mæðralauna. Samtals kostaði þetta tvennt ríkissjóð 30 millj. kr. Enn fremur var ákveðið að auka framlög ríkissjóðs til jöfnunar hitunarkostnaði um samtals 150 millj. kr. á þessu ári. Þessar mildandi aðgerðir kostuðu ríkissjóð því 405 millj. kr. miðað við það sem eftir var af þessu ári.

Hækkun persónuafsláttar og barnabóta fól það í sér að tekjuskattar einstaklinga hækkuðu á milli áranna 1982 og 1983 um aðeins 39.8%, en hefðu án þessara aðgerða hækkað um rúm 55%. Hér er því á ferðinni veruleg skattalækkun, eins og kemur glöggt fram af því að tekjur landsmanna milli áranna 1982 og 1983 hækkuðu um 59%, að því er áætlað er, en tekjuskatturinn hins vegar aðeins um tæp 40%, eins og áður sagði. Hlutfall beinna skatta til ríkis og sveitarfélaga af brúttótekjum greiðsluárs lækkaði einnig úr 12.9% 1982 í 12,5% 1983.

Segja má að með þessu hafi stefnan þegar verið mörkuð í skattamálum af hálfu ríkisstj., en þessar lækkanir munu að sjálfsögðu gilda áfram á næsta ári. Ríkisstj. hefur ákveðið að stefna að því að greiðslubyrði heimilanna vegna tekju- og eignarskatta á næsta ári verði ekki meiri en í ár sem hlutfall af tekjum. Endurspeglast þessi stefna í fjárlagafrv., en ég mun fljótlega leggja fyrir Alþingi nánari tillögur um framkvæmd þessa atriðis, þ. á m. tillögu um skattvísitölu og skattstiga á næsta ári. Kem ég nánar að þessu atriði síðar í þessari ræðu.

Ríkisstj. ákvað í lok júní að lækka tolla af nokkrum algengum nauðsynjavörum, þ. á m. ýmsum matvælum og búsáhöldum. Voru þessir tollar lækkaðir almennt í 40%, en voru áður allt að 80%. Meðal þess sem lækkaði í verði voru ýmsar kornvörur og ýmis algeng heimilistæki. Að auki voru tollar felldir niður af gleraugum og heyrnartækjum. sérstakt gjald af bifreiðum var einnig lækkað um 8%. Samtals tók ríkissjóður þarna á sig tekjutap sem nam um 65 millj.kr., miðað við áætlanir fyrir síðari hluta þessa árs. Þá var nýlega fellt niður vörugjald af hljómplötum og hljóð- og myndböndum, sem olli verulegri lækkun á þeim vörum.

Í sumar voru sett bráðabirgðalög og felldur niður sérstakur skattur á ferðamannagjaldeyri, sem nam 10 af hundraði. Afnám þessa skatts var hin mesta hreingerning og nauðsynleg aðgerð, enda stríddi þessi skattur gegn réttlætisvitund almennings og var að auki í ósamræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga í gjaldeyrismálum. Frv. til staðfestingar þessum brbl. hefur nú verið lagt fyrir Alþingi, en þess má geta að skattur þessi var upphaflega lagður á sem tímabundið bráðabirgðagjald, en hefur í sífellu verið framlengdur og var síðast gerður að ótímabundnum skatti.

Það er eindreginn vilji og ásetningur ríkisstj. að halda áfram að koma til móts við heimilin og fyrirtækin í landinu með því að létta af álögum, eftir því sem frekast verður unnt. Ef eitthvert svigrúm skapast við endurskoðun tekjuáætlunar fjárlaga 1984 fyrir lokaafgreiðslu þessa frumvarps mælist ég til þess að það verði nýtt í þessu skyni. Kemur þá mjög til álita að slaka á hinum rangláta skatti sem nú er lagður á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Einnig stefnir ríkisstj. að áframhaldandi lækkun tekjuskatta í áföngum á kjörtímabilinu.

Ríkisreikningur fyrir árið 1982 hefur verið afhentur alþingismönnum. Ríkisreikningurinn hefur jafnframt verið afhentur yfirskoðunarmönnum Alþingis til meðferðar, en hann mun síðar verða lagður fram til endanlegrar afgreiðslu Alþingis með athugasemdum þeirra, ef einhverjar verða, svörum mínum og tillögum þeirra.

Áður en ég vík að helstu niðurstöðum er varða afkomu ríkissjóðs á árinu 1982 vil ég vekja athygli alþingismanna á þeim viðbótarupplýsingum sem nú birtast í fyrsta sinn í ríkisreikningi 1982 og fylgiriti hans, sem afhent verður þingmönnum einhvern næstu daga.

Í rekstrarreikningi og gjaldasundurliðun A-hluta ríkissjóðs eru nú birtar samhliða reikningstölum ársins, síðasta árs og fjárlögum fjárheimildir ársins, en þar er gerð grein fyrir aukafjárveitingum að viðbættum fjárlögum ársins. Hafa ber í huga við samanburð á reikningstölum og fjárheimildum að fjárheimildir eru byggðar á greiðslugrunni sem og fjárlög viðkomandi árs, en reikningstölur hins vegar á rekstrargrunni. Í sérstöku yfirliti með A-hluta ríkisreiknings er nú gerð grein fyrir stöðu og breytingum á efnislegum fjármunum aðila í A-hluta ríkisreiknings. Þá er enn fremur nýtt heildaryfirlit um veitt og tekin lán ásamt hlutabréfa- og stofnframlögum, skipt á lántakendur og lánveitendur.

Samkvæmt lögum nr. 31/1982 er kveðið á um að með ríkisreikningi skuli fylgja upplýsingar um heildarlaunagreiðslur einstakra stofnana ásamt yfirvinnugreiðslum og hlutfall þeirra af heildarlaunagreiðslum. Enn fremur risnu- og ferðakostnaður, fjöldi bifreiða í eigu ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja og rekstrar- og viðhaldskostnaður þeirra. Þá er enn fremur kveðið á um að fjárlaga- og hagsýslustofnun geri grein fyrir aukafjárveitingum, sem samþykktar hafa verið frá fjárlögum, ásamt greinargerð um breyttar verðtagsforsendur frá fjárlögum ársins. Í því fylgiriti sem ríkisbókhaldið hefur tekið saman er gerð grein fyrir þessum atriðum.

Afkoma A-hluta ríkissjóðs samkv. rekstrarreikningi fyrir árið 1982 var hagstæð um 850 millj. kr. Það er 675 millj. kr. betri afkoma en á árinu 1981. Gjöld reyndust 9 479 millj. kr., sem er hækkun frá fyrra ári um 54.6%. Tekjur urðu á árinu 1982 10 328 millj. kr. og hækka frá árinu 1981 um 63.8%.

Endurmatsjöfnuður varð óhagstæður á árinu 1982 sem nam 1 019 millj. kr. í samanburði við óhagstæðan jöfnuð á árinu 1981 um 479 millj. kr. Hallinn á endurmatsjöfnuði stafar einkum af hækkun á skuldum vegna breytinga á gengi og lánavísitölum frá upphafi til loka ársins 1982.

Rekstrar- og endurmatsjöfnuður sýndi því óhagstæða þróun að fjárhæð 169 millj. kr. eða skuldaaukningu ríkissjóðs nettó um þá fjárhæð á árinu. Sú breyting kom annars vegar fram í hagstæðum rekstrarjöfnuði að fjárhæð 850 millj. kr. og hins vegar í óhagstæðum endurmatsjöfnuði að fjárhæð 1 019 millj. kr.

Ný lán hjá A-hluta ríkissjóðs á árinu 1982 námu 975 millj. kr., en endurlánað var af þeirri fjárhæð 533 millj. kr. Þegar tekið hefur verið tillit til afborgana veittra og tekinna lána nemur nettóaukning lána 14 millj. kr. á því ári. Mismunur tekinna lána og veittra lána í árslok 1982 var 2 875 millj. kr., þegar tekið hefur verið tillit til endurmats á árinu sem nam 1 084 millj. kr. Hækkun lána frá fyrra ári nemur 107%.

Framlög ríkissjóðs til kaupa á hlutabréfum og stofnfjárframlög námu 53 millj. kr. Eignir ríkissjóðs í hlutabréfum og stofnframlögum eftir endurmat eru 198 millj. kr. í samanburði við 99 millj. kr. í byrjun árs 1982.

Gjöldin árið 1982 námu, eins og áður sagði, 9 479 millj. kr., sem er 1 570 millj. kr. umfram fjárlög ársins eða 19.8%. Sé hins vegar tekið tillit til aukafjárveitinga á árinu 1982 að fjárhæð 1 229 millj. kr. námu umframgjöldin 341 millj. kr. eða 3.6%.

Stærstu gjaldaliðirnir voru framlög til heilbrigðis- og tryggingamála að fjárhæð 3 489 millj. kr., sem er 605 millj. kr. umfram fjárlög ársins eða 21% hækkun. Niðurgreiðslur og uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir námu 977 millj. kr. Sú fjárhæð er 351 millj. kr. hærri en fjárlög áformuðu eða 56.1%. Hækkun þessara framlaga frá árinu 1981 nemur 83.2%, en á árinu 1981 námu þessi framlög 534 millj. kr. Gjöld umfram fjárlög til dómgæslu og lögreglumála nánu 223 millj. kr. eða 76.7%. Heildargjöld til þessara viðfangsefna námu á árinu 1982 514 millj. kr. og höfðu hækkað frá árinu 1981 um 64.2%.

Framangreind upptalning umframútgjalda að fjárhæð 1 180 millj. kr. alls skýrir um 3/4 hluta umframútgjalda í heild, en til framangreindra viðfangsefna fer rúmlega helmingur útgjalda A-hluta ríkissjóðs á árinu 1982.

Heildartekjur A-hluta ríkissjóðs námu samkv. rekstrarreikningi 10 328 millj. kr. og eru þá tekjur gerðar upp á grundvelli álagningar. Innheimtar tekjur námu hins vegar 9 577 millj. kr., sem er 1 610 millj. kr. umfram fjárlög. Svarar það til 20.2% hækkunar. Tekjufærslan nam aftur á móti 2 361 millj. kr. umfram fjárlög eða 29.6% .

Álagðir beinir skattar námu á árinu 1982 1 800 millj. kr., sem er hækkun frá árinu 1981 um 83.0%. Innheimtir beinir skattar námu aftur á móti 1 485 millj. kr., sem er hækkun frá fjárlögum um 124 millj. kr. eða 9.1%. Hlutur beinna skatta í heildartekjum ríkissjóðs nam á árinu 1982 17.4%, sem er 0.3% hærra en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Tekjufærsla óbeinna skatta nam 8 230 millj. kr., sem er hækkun frá árinu 1981 um 58.2%. Innheimta óbeinna skatta nam 7 904 millj. kr., sem er 1 422 millj. kr. umfram fjárlög. Hlutur óbeinna skatta í heildartekjum ársins 1982 var 79.7%, en hlutur óbeinna skatta í heildartekjum fjárl. var áætlaður 81.4%.

Stærsti tekjuliður ríkissjóðs er söluskattur og nam hann á árinu 1982 3 357 millj. kr., sem er hækkun frá fyrra ári um 60.4%. Innheimtur söluskattur varð aftur á móti 3 155 millj. kr., sem er 545 millj. kr. umfram fjárlög.

Þriðji stærsti tekjuliður ríkissjóðs á eftir söluskatti og beinum sköttum voru almenn aðflutningsgjöld. Námu þau ásamt innflutningsgjaldi af bensíni og innflutningsgjaldi af bifreiðum 1 613 millj. kr., sem er hækkun frá árinu 1981 um 44.5%.

Fjórði stærsti tekjuliður ríkissjóðs var hagnaður af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Nam hann 579 millj. kr. og hækkaði frá fyrra ári um 42.4%.

Tekjufærsla vegna arðgreiðslna og ýmissa tekna nam 299 millj. kr., sem er hækkun frá árinu 1981 um 150.9%. Munar þar mest um hækkun vaxta, en hækkun vegna þessa tekjuliðar nam 140 millj. kr. Fjárlög ársins 1982 gerðu ráð fyrir 125 millj. kr. tekjum af framangreindum tekjuliðum og nemur því hækkun frá áætlun fjárlaga 139.2%. Hlutur arðgreiðslu og ýmissa tekna í heildartekjum ríkissjóðs nam 2.9%, en fjárl. áætluðu að þessir tekjuliðir skiluðu 1.8% af heildartekjum fjárl.

Hin jákvæða rekstrarafkoma á árinu 1982 stafar af auknum tekjum ríkissjóðs umfram verðlagsbreytingar á árinu, sem aftur má rekja beint til viðskiptahalla þjóðarbúskaparins og aukinnar erlendrar lántöku.

Hlutur innheimtra skatttekna sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu var á árinu 1982 30.2% í samanburði við 28.8% 1981 og hækkaði því milli ára um 1.4 prósentustig.

Áður en ég læt lokið umfjöllun um afkomu ríkissjóðs á árinu 1982 mun ég gera stutta grein fyrir helstu niðurstöðum B-hluta ríkisreiknings svo og stöðu lánareikninga bæði er varðar A- og B-hluta ríkissjóðs.

Afkoma fyrirtækja og sjóða í B-hluta ríkisreiknings sýnir að rekstrarjöfnuður var hagstæður um 638 millj. kr., sem er 153 millj. kr. verri afkoma en á árinu 1981. Heildartekjur námu 10 486 millj. kr., sem er hækkun frá fyrra ári um 56%. Gjöld námu 9 848 millj. kr. og hafa hækkað frá árinu 1981 um 66%.

Hækkun efnislegra fjármuna án endurmats nam á árinu 1982 2 132 millj. kr. og þá batnaði staða greiðslufjárreiknings um 71 millj. kr. eða samtals 2 203 millj. kr. Fjármögnun var með þeim hætti, að fyrirtæki og sjóðir í B-hluta tóku ný lán umfram afborganir sem námu 906 millj. kr. og fjármögnun frá rekstri nam 1 297 millj. kr.

Heildarskuldir ríkissjóðs í A- og B-hluta eftir endurmat voru í árslok 198218 129 millj. kr. og jukust á árinu um 9 721 millj. kr. Innlend lán námu 6 301 millj. kr. eða tæpum 35% af heildarskuldum ríkisins. Erlend lán voru 11 829 millj. kr. og hækkuðu á árinu um 143%. Af heildarskuldum hefur verið endurlánað 7 937 millj. kr. eða sem svarar 44% af heildarskuldum. Nettóstaða lána hjá A- og B-hluta aðilum nemur 10 192 millj. kr. og hefur hækkað á árinu 1982 um 5 651 millj. kr.

Verðlagsforsendur fjárlagafrv. ársins 1983 byggðust á svonefndri reiknitölu, en hún gerði ráð fyrir 42% verðlagshækkun milli áranna 1982 til 1983. Hins vegar er nú áætlað að verðbólga milli áranna verði 84%. Af þessu má sjá að fjárlög ársins 1983, sem Alþingi samþykkti í desembermánuði s.l., eru í miklu ósamræmi við þá verðbólguþróun sem í raun hefur verið hér á landi á þessu tímabili. Ljóst er því, að veruleg röskun mun verða á gjalda- og teknahlið ríkisfjármálanna á þessu ári, miðað við áætlun fjárlaga. Þessu til viðbótar hefur komið fram, að á gjaldalilið ríkissjóðs eru nokkrir veigamiklir útgjaldaliðir sem ekki hafði verið tekið tillit til við fjárlagagerð fyrir árið 1983.

Í því sambandi má nefna geymslu- og vaxtakostnað vegna niðurgreiðslna að fjárhæð 18 millj. kr. og fjárvöntun til vegaáætlunar að fjárhæð rúmlega 100 millj. kr. Vanáætlun löggæslukostnaðar umfram raunverulegar verðlagsforsendur gæti numið allt að 140 millj. kr. og 200–300 millj. kr. vantaði til heilbrigðis- og tryggingamála. Þá var áformað að A-hluti ríkissjóðs fengi 525 millj. kr. af innlendum lánsfjármarkaði, en vitað er að a.m.k. 120 millj. kr. muni vanta þar á.

Endurskoðaðar áætlanir, sem nú liggja fyrir um afkomu ríkissjóðs í árslok, gera ráð fyrir greiðsluhalla að fjárhæð 1 200 millj. kr. í stað 17 millj. kr. greiðsluafgangs samkvæmt fjárlögum 1983. Í þessum áætlunum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins aukist úr 12 973 millj. kr. samkv. fjárlögum í 15 843 millj. kr. eða um 2 870 millj. kr., sem svarar til 22% hækkunar, en tekjur úr 13 007 millj. kr. í 14 865 millj. kr. eða um 1 858 millj. kr., sem er 14% hækkun.

Þá er gert ráð fyrir að halli verði á lánahreyfingum sem nemur 213 millj. kr. í stað 2 millj. kr. halla samkvæmt fjárlögum, þannig að heildargreiðsluafkoman rýrnar um 1 217 millj. kr. frá áætlun fjárlaga.

Mun ég nú gera nánari grein fyrir þróun gjalda og tekna frá því fjárlög ársins voru afgreidd í desember s.l. Af einstökum gjaldaflokkum hefur mest hækkun orðið á framlögum til almannatrygginga eða samtals 701 millj. kr. Hér er fyrst og fremst um að ræða hækkun bóta lífeyristrygginga til samræmis við launahækkanir og vanáætlun fjárlaga, auk sérstakra hækkana sem brbl. frá því í maímánuði s.l. ákvörðuðu um rýmkun tekjutryggingar, hækkun heimilisuppbótar og hækkun mæðralauna. Þá hafa til komið hækkanir á daggjöldum sjúkrahúsa, sem einnig ráðast að verulegu leyti af launaþróuninni. Enn fremur hafa komið til hækkanir á grunngjaldi flestra sjúkrahúsa um 4% frá 1. júní s.l., en þær urðu vegna verulegs hallareksturs húsanna á árinu 1982.

Hækkun annarra rekstrargjalda um 627 millj. kr. frá fjárlögum má að mestu rekja til breytts verðlags frá reiknitölu fjárlaga ásamt vanáætlun fjárlaga, sérstaklega vegna löggæslukostnaðar.

Gert er ráð fyrir að laun hækki um 511 millj. kr. frá fjárlögum 1983 umfram þær 482 millj. kr. sem gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins til að mæta launahækkunum innan ársins.

Eftirfarandi hækkanir hafa orðið á launatöxtum á árinu 1983: Grunnlaun opinberra starfsmanna hækkuðu um 2.1% 1. janúar 1983 og sérkjarasamningar sem gerðir voru 1982 leiddu til hækkunar sem metin er til 7–10% hækkunar grunnlauna. Nam kostnaður vegna þessara hækkana um 290 millj. kr. Verðbótavísitalan hækkaði 1. mars um 14.74% og olli sú hækkun 450 millj. kr. útgjöldum. Hinn 1. júní hækkuðu laun um 8% og kostaði sú hækkun tæplega 200 millj. kr. Að lokum varð 4% hækkun 1. október s.l., sem kostaði ríkissjóð um 50 millj. kr. Samtals hækkuðu laun því um 990 millj. kr.

Framlag til niðurgreiðslna á árinu 1983 mun nema allt að 1 033 millj. kr. sem er hækkun frá fjárlögum um194 millj. kr. Meginhluti hækkunarinnar stafar af þátttöku ríkissjóðs í vaxta- og geymslukostnaði sem talinn er verða um 178 millj. kr., en ekki var áætlað fyrir vaxta-og geymslugjaldi í fjárlögum 1983, eins og ég gat um hér að framan.

Útflutningsbætur á árinu 1983 eru nú áætlaðar 225 millj. kr., sem er 38 millj. kr. lægri fjárhæð en fjárlög ársins gera ráð fyrir. stafar það af samdrætti í framleiðslu og erfiðleikum í sölu þessara afurða á erlendum mörkuðum, þannig að fullur 10% útflutningsuppbótaréttur verður ekki nýttur á þessu ári.

Samkvæmt brbl. ríkisstj. frá því í maí s.l. var ákveðið að auka framlög ríkissjóðs til niðurgreiðstu á húshitun um 150 millj. kr., en í fjárlögum ársins var áætlað að verja til þessa verkefnis 35 millj. kr. Þannig munu heildargreiðslur ríkissjóðs á þessu ári nema alls 185 millj. kr. til þessa viðfangsefnis.

Þá er ljóst að vaxtagreiðslur munu fara verulega fram úr áætlun fjárlaga. Í fyrsta lagi er það vegna þess að afkoma ríkissjóðs verður miklu verri en fjárlög áformuðu. Í þeim áætlunum sem nú liggja fyrir um ríkisfjármálin 1983 er gert ráð fyrir að yfirdráttarvextir geti orðið allt að 300 millj. kr. Í öðru lagi hefur verðlagshækkun og gengissig leitt til aukinna greiðslna af verð- og gengistryggðum lánum ríkissjóðs. Má telja líklegt að af þessum sökum muni vaxtagreiðslur alls fara um 225 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga og nema samtals um 590 millj. kr. á árinu 1983.

Framkvæmdaframlög munu hækka um 237 millj. kr., mest vegna aukinna framlaga til vegamála, vegna þeirrar vegaáætlunar sem lögð var fram á síðasta Alþingi.

Auk þeirra þátta sem nú hafa verið raktir má vænta um 260 millj. kr. umframgreiðslu til ýmissa viðfangsefna, sem þegar hafa verið samþykkt og ekki verður komist hjá að greiða fyrir lok þessa árs.

Eins og áður er getið er nú talið að heildartekjur ríkissjóðs á þessu ári muni nema 14 815 millj. kr., en það er 1 858 millj. kr. meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1983 eru taldar munu aukast um 58.3% frá árinu 1982. Óbeinir skattar eru nú taldir nema 12 253 millj. kr., sem er hækkun frá fjárlögum um 1 892 millj. kr.

Í fjárlögum ársins 1983 voru almennar tolltekjur ríkissjóðs áætlaðar 1 496 millj. kr. Þessi áætlun var reist á ákveðnum reikniforsendum um verðlags- og gengisbreytingar. Enn fremur almennum þjóðhagsforsendum, sem gerðu ráð fyrir talsverðum samdrætti í almennum vöruinnflutningi svo og verulegum samdrætti í bílainnflutningi frá því sem var 1982. Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1983 er gert ráð fyrir að almennar tolltekjur verði talsvert hærri en reiknað var með í fjárlögum eða um 1 745 millj. kr. Verðlags- og gengisbreytingar hafa orðið mun meiri en reikniforsendur fjárlaga miðuðust við og hefur það haft hér áhrif.

Á móti vegur hins vegar að samdráttur í veltu hefur orðið meiri en þá var gert ráð fyrir. Þannig lætur nærri að fyrstu átta mánuði ársins hafi tolltekjur ríkissjóðs dregist saman að raungildi um meira en fimmtung frá sama tíma í fyrra miðað við almennar verðbreytingar á þessu tímabili. Þessu til viðbótar má nefna að á síðari hluta ársins hafa tollar á ýmsum vöruflokkum verið lækkaðir. Samdráttar gætir einkum í bílainnflutningi, og er nú talið að tolltekjur af bílum verði aðeins um 10% meiri á þessu ári en í fyrra, þrátt fyrir tæplega 90% hækkun meðalverðs á bílum í krónum talið milli 1982 og 1983. Í þessu felst um 45% samdráttur frá fyrra ári.

Hlutfall tolltekna af heildartekjum ríkissjóðs yrði á árinu 1983 samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun 11.7% í samanburði við 13.1% 1982 og 13.5% 1981.

Skattar af seldri vöru og þjónustu voru í fjárlögum áætlaðir 6 420 millj. kr. Í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að tekjur verði um 7 695 millj. kr. Hækkun þessa tekjuliðar má fyrst og fremst rekja til annarra verðlagsforsendna en fjárlög voru reist á. Af öðrum helstu tekjustofnum undir þessum lið má nefna, að launaskattur hækkar um 110 millj. kr. vegna meiri launahækkana á árinu en fjárl. gerðu ráð fyrir. Rekstrarhagnaður ÁTVR er nú áætlaður 915 millj. kr. í samanburði við 830 millj. kr. í áætlun fjárlaga.

Aðrir óbeinir skattar eru nú áætlaðir 929 millj. kr. á þessu ári. Helstu breytingar frá fjárlögum fetast í meiri tekjum af stimpilgjaldi og bifreiðaskatti en áður var reiknað með, en á móti vegur hins vegar að sérstakt 10% álag á ferðamannagjaldeyri var fellt niður með brbl. nr. 62 29. júlí síðastliðinn. Áætlað tekjutap vegna niðurfellingarinnar er 25–30 millj. kr. á þessu ári.

Beinir skattar eru nú áætlaðir 2 368 millj. kr., sem er lækkun frá fjárlögum ársins um 54 millj. kr.

Álagður eignarskattur einstaklinga á árinu 1983 nemur tæplega 234 millj. kr., sem er meira en tvöföldun frá árinu áður. Álagning eignarskatts á félög hækkaði mun minna eða um tæplega 55%. Heildarálagning eignarskatta á árinu 1983 varð samkvæmt þessu um 82% hærri en 1982, en á fjárlögum 1983 var gert ráð fyrir um 74% hækkun milli áranna 1982 og 1983.

Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1983 er gert ráð fyrir að innheimta sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði um 50 millj. kr. eða óbreytt frá fjárlögum.

Álagður tekjuskattur á einstaklinga á árinu 1983, brúttó, þ.e. áður en barnabætur og afsláttur til greiðslu eignarskatts, sjúkratryggingagjalds og útsvars hefur verið dreginn frá, nam 2 525 millj. kr. Hækkun frá frumálagningartölum fyrra árs nemur um 51%. Hækkun barnabóta var hins vegar um 80% og hækkun persónuafsláttar 88% og gætti þar áhrifa brbl. nr. 56 frá 27. maí 1983, þar sem kveðið var á um sérstaka hækkun barnabóta og persónuafsláttar við álagningu tekjuskatts á árinu 1983.

Nettóálagning tekjuskatts einstaklinga hækkaði af þessum sökum mun minna en brúttóálagningin eða um 40% miðað við frumálagningu 1982. Miðað við svipað innheimtuhlutfall á þessu ári og í fyrra er áætlað að nettóinnheimta tekjuskatts einstaklinga á þessu ári nemi um 1 475 millj. kr.

Álagt sjúkratryggingagjald á árinu 1983 nemur 88 millj. kr., sem er tæplega 57% hækkun frá álagningu fyrra árs.

Álagður tekjuskattur á félög nemur rúmlega 460 millj. kr. á þessu ári, sem er um 55% hækkun frá fyrra ári. Hér er um frumálagningartölur að ræða og miðað við reynslu undanfarinna ára má ætla að endanlegar álagningartölur verði talsvert lægri. Miðað við svipaðan mun á frumálagningu og endanlegri álagningu og í fyrra, en heldur slakari innheimtu, er áætlað að innheimta tekjuskatts félaga verði um 285 millj. kr. á þessu ári.

Hlutur beinna skatta í heildartekjum ríkissjóðs er áætlaður 15.9%, en í fjárlögum ársins var það hlutfall 18.6% og hefur því lækkað um 2.7% af heildartekjum ríkissjóðs.

Samkvæmt 1. gr. fjárlagafrv. fyrir árið 1984 er mismunur tekna og gjalda um 9 millj. kr. Samtals er gert ráð fyrir að heildartekjur nemi 17 435 millj. kr. Beinir skattar, þ.e. tekjuskattar og eignarskattar, eru þar af áætlaðir 2 992 millj. kr. eða sem svarar til um 17% af heildartekjum ríkissjóðs á árinu 1984.

Óbeinir skattar eru áætlaðir 14 166 millj. kr. eða sem svarar til rúmlega 81% af heildartekjum. Aðrar tekjur ríkissjóðs eru samkvæmt frv. áætlaðar 277 millj. kr., sem eru tæplega 2% af heildartekjum ríkissjóðs.

Heildargjöld ríkissjóðs eru samtals áætluð 17 426 millj. kr. Af þeirri fjárhæð fara 7 943 millj. kr. til samneyslu eða sem svarar til 45.6% af heildarútgjöldum. Stofnkostnaður, fjárfesting og fjármagnstilfærslur eru samtals 2 384 millj. kr. og er það um 13.7% af heildargjöldum. Neyslu- og rekstrartilfærslur eru áætlaðar 7 635 millj. kr. og er það um 43.8% af heildargjöldum A-hluta ríkissjóðs. Þá eru sértekjur stofnana áætlaðar 537 millj. kr.

Við gerð tekju- og gjaldaáætlunar þessa frv. var horfið frá þeim vinnubrögðum sem tíðkast hafa undanfarin ár, þ.e. að ganga út frá svonefndri reiknitölu sem síðan hefur verið notuð sem vinnuforsenda bæði við gerð tekju- og gjaldaáætlunar frv. Þess í stað var stuðst bæði við fjárlög ársins 1983 og ekki síður við endurskoðaða tekju- og gjaldáætlun 1983, sem gerð var þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Þannig var reynt að gera áætlunina fyrir næsta ár sem raunhæfasta út frá bestu fáanlegum upplýsingum um raunverulegar tekjur og gjöld ríkissjóðs á þessu ári.

Í 1. gr. frv. kemur fram að heildarlánsfjáröflun nemur samtals 2 358 millj. kr. Þar af eru 2 188 millj. kr. til stofnana og fyrirtækja í A- og B-hluta og 170 millj. kr. verður ráðstafað til inntausnar spariskírteina.

Innlend lánsfjáröflun er samtals ráðgerð 836 millj. kr. og önnur lánsfjáröflun er 1 522 millj. kr.

Útstreymi á lánahreyfingum er samtals 1 217 millj. kr., þar af eru 75 millj. kr. vegna hlutafjárframlaga, 150 millj. kr. vegna afborgana af lánum tengdum byggðalínum, sem ríkissjóður hefur yfirtekið, og afborganir af öðrum lánum eru 992 millj. kr. Eins og frumvarpið liggur fyrir er gert ráð fyrir að lántökur A-hluta ríkissjóðs verði um 31 millj. kr. hærri en endurgreiðslur lána. Frv. gerir ráð fyrir greiðsluafgangi að fjárhæð 20 millj. kr.

Ég mun nú fjalla um helstu niðurstöður tekju- og gjaldahliða frv. svo og lánahreyfingar.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1984 er byggð á fjárlögum 1983 og endurskoðaðri áætlun um tekjur ríkissjóðs á þessu ári. Þá er jafnframt gengið út frá ákveðnum þjóðhags- og verðlagsforsendum og ákveðnum forsendum um einstaka tekjuliði. Innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1984 eru áætlaðar samtals 17 435 millj. kr. samanborið við 14 865 millj. kr. í endurskoðaðri áætlun fyrir árið 1983 og 13 007 millj. kr. í fjárlögum ársins 1983. Hækkun heildartekna ríkissjóðs 1984 frá endurskoðaðri áætlun fyrir 1983 nemur 2 570 millj. kr. eða 17.3%, en hækkunin frá fjárlögum 1983 er hins vegar 34%. Til samanburðar má nefna að innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1983 eru taldar munu aukast um 58.3% frá 1982.

Verður nú vikið nánar að helstu tekjustofnum og þeim forsendum sem liggja að baki tekjuáætlun ríkissjóðs á næsta ári.

Áætlun um álagningu eignarskatta á árinu 1984 er miðuð við þá meginforsendu, að skattbyrði milli áranna 1983 og 1984 aukist ekki og verður skattvísitala og aðrir þættir, sem varða álagningu eignarskatts, ákveðnir í samræmi við það, m.a. með hliðsjón af hækkun fasteignamats milli ára. Á þessum forsendum er áætlað að innheimta eignarskatts einstaklinga nemi 260 millj. kr. og innheimta eignarskatts félaga verði 160 millj. kr. á árinu 1984.

Í tekjuáætlun 1984 er gert ráð fyrir að sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði lagður á áfram og innheimtur með svipuðum hætti og verið hefur. Jafnframt er áætlunin fyrir 1984 reist á sömu forsendum og eignarskattsáætlunin. Í þessu felst að innheimta skattsins er áætluð 65 millj. kr. 1984, að meðtalinni innheimtu af eftirstöðvum fyrri ára. Þessi skattur hefur lengi verið mér og skoðanabræðrum mínum mikill þyrnir í augum. Ég mun leita allra leiða til að útrýma þessum skatti við fyrsta tækifæri.

Áætlað er að tekjuskattur nemi samtals 2 467 millj. kr. á næsta ári. Tekjuskattur einstaklinga er við það miðaður að skattbyrði haldist óbreytt sem hlutfall af tekjum greiðsluárs og verða skattvísitala og skattstigar ákveðnir í samræmi við það, eins og áður hefur komið fram. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að innheimta tekjuskatts einstaklinga á árinu 1984 verði 1 885 millj. kr. eða rúmlega 28% hærri en á yfirstandandi ári. Hefur þá verið gengið út frá svipuðu innheimtuhlutfalli og á þessu ári að teknu tilliti til innheimtueftirstöðva frá fyrra ári.

Við áætlun á sjúkratryggingagjaldi er gengið út frá að gjaldið verði framlengt óbreytt og miðað við sömu forsendur og við áætlun tekjuskatts. Áætlað er að sjúkratryggingagjald nemi 100 millj. kr. á næsta ári. Tekjuskattur félaga er áætlað að verði 340 millj. kr. Er þá gengið út frá sömu forsendum og raktar hafa verið hér að framan.

Í áætlun fyrir árið 1984 er gert ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í veltu frá því sem talið er að verði að meðaltali á þessu ári eða um 4–5%. Samkvæmt þessu, svo og með hliðsjón af þeim forsendum sem raktar eru hér að framan, er áætlað að almennar tolltekjur nemi 1 860 millj. kr. eða tæplega 7% meira en í áætlun fyrir árið 1983. Hlutfall tolltekna af heildartekjum ríkissjóðs yrði samkvæmt þessu um 10.7% á næsta ári, samanborið við 11.7% í áætlun fyrir þetta ár, 13.1% fyrir 1982 og 13.5% fyrir 1981.

Innflutningsgjald af bensíni er áætlað 463 millj. kr. 1983 og er þá gengið út frá óbreyttri bensínsölu frá fyrra ári eða 127 millj. lítra. Í áætlun fyrir árið 1984 er reiknað með svipaðri bensínsölu og innflutningsgjöld samkvæmt því áætluð 605 millj. kr. Innflutningsgjald af bifreiðum var í fjárlögum 1983 áætlað 110 millj. kr. Var þá miðað við gjaldhlutfallið eins og það var ákveðið með reglugerð nr. 466/1982, eða um 16–17% af cif-verðmæti, svo og með hliðsjón af forsendum um bílainnflutning á árinu 1983. Með reglugerð nr. 481/1983 var gjaldhlutfallið lækkað um 8 prósentustig frá 1. júlí síðastliðnum. Með hliðsjón af þessari lækkun má ætla að gjaldhlutfallið sé nú að meðaltali um 8–9% af cif-verðmæti. Þar sem nú er gert ráð fyrir meiri samdrætti í bílainnflutningi en talið var við fjárlagaáætlunina, svo og að teknu tilliti til gjaldhlutfallsins, er nú áætlað að innheimtar tekjur af innflutningsgjaldi af bílum verði um 74 millj. kr. á þessu ári. Miðað við óbreytt gjaldhlutfall á næsta ári og svipaðan bílainnflutning og á þessu ári er áætlað að tekjur af gjaldinu á næsta ári gætu numið um 52 millj. kr.

Í heild eru gjöld af innflutningi áætluð 2 472 millj. kr. á þessu ári, samanborið við 2 159 millj. kr. í fjárlagaáætlun. Hækkunin frá 1983 er um 41%, samanborið við tæplega 49% hækkun milli áranna 1981 og 1982. Í frv. er gert ráð fyrir að heildargjöld af innflutningi verði 2 716 millj. kr. á árinu 1984 eða tæplega 10% meiri en á þessu ári. Samkvæmt þessu yrðu innflutningsgjöld um 15.6% af heildartekjum ríkissjóðs á árinu 1984, samanborið við 16.6% í áætlun þessa árs, 18.7% 1982 og 19.6% 1981.

Heildartekjur af liðnum „Skattar af seldri vöru og þjónustu“ voru í fjárlögum 1983 áætlaðar 6 420 millj. kr. Í endurskoðaðri áætlun er hins vegar gert ráð fyrir að tekjurnar verði um 7 695 millj. kr. Fjárlagaáætlun 1984 gerir hins vegar ráð fyrir að tekjurnar verði um 9 271 millj. kr. eða um 20% hærri en endurskoðuð áætlun 1983 gerir ráð fyrir.

Áætlun um gjöld byggð á söluskattsgrunni fyrir árið 1984 er reist á þeim þjóðhagsforsendum sem raktar hafa verið hér á undan. Samkvæmt því er áætlað að innheimt sölugjald nemi um 6 880 millj. kr. á næsta ári eða um 21% meira en áætlun fyrir árið 1983. Skýringin á mun meiri hækkun söluskattstekna á næsta ári en tolltekna felst meðal annars í því að innlendar verðbreytingar frá meðaltal þessa árs til áætlaðs meðalverðs 1984 eru mun meiri en sem nemur breytingum á innflutningsverði í krónum talið, auk þess sem gert er ráð fyrir heldur minni samdrætti í söluskattsveltu en í innflutningi. Hlutur sölugjalds í heildartekjum ríkissjóðs 1984 yrði samkvæmt þessu rúmlega 39%, samanborið við 38% 1983 og 36% 1982.

Áætlun fjárlagafrv. er við það miðuð, að sú skattalækkun sem ákveðin var s.l. vor haldist við álagningu beinna skatta á árinu 1984. Á undanförnum árum hefur við ákvörðun skattvísitölu fyrst og fremst verið að því stefnt að álagðir skattar héldust sem óbreytt hlutfall af tekjum þess árs sem teknanna var aflað á. Í fjárlagafrv. nú er hins vegar við það miðað að skatttekjur ríkissjóðs af tekjuskatti verði óbreytt hlutfall af tekjum gjaldenda á greiðsluári. Þessi viðmiðun leiðir við gildandi aðstæður til þess, að á árinu 1984 verða álagðir skattar mun lægra hlutfall af skattskyldum tekjum tekjuársins en verið hefur á undanförnum árum.

Til þess að ná því markmiði að tekjuskattar ríkisins verði óbreytt hlutfall af tekjum gjaldenda á greiðsluári er nauðsynlegt vegna ört minnkandi verðbólgu að endurskoða álagningarkerfi tekjuskatts ríkisins.

Tekjuáætlun frv. er byggð á þeirri forsendu, að tekjur gjaldenda hækki um 20% milli áranna 1983 og 1984. Er við það miðað að álagður tekjuskattur hækki um sama hlutfall og sömuleiðis barnabætur og persónuafsláttur. samkvæmt því hækkar álagður tekjuskattur nettó um 20% milli áranna 1983 og 1984 eða jafnmikið og tekjur. Vegna þess að álagning tekjuskatts mun hækka mun minna í krónutölu milli áranna 1983 og 1984 en verið hefur er ljóst að óinnheimtar eftirstöðvar gjalda frá fyrri árum munu fara vaxandi í hlutfalli við álagðan skatt á árinu, enda þótt miðað sé við óbreytt innheimtuhlutfall. Þetta, ásamt 1% fjölgun gjaldenda, veldur því að áætlaður tekjuskattur ríkisins á árinu 1984 hækkar heldur meira en nemur framangreindri 20% hækkun. Þessi hækkun kemur hins vegar aðeins fram hjá þeim sem skulda tekjuskatt frá fyrri árum, en hjá þeim sem eru í skilum mun innheimta vitanlega hækka jafnt og álagningin og þar með jafnt og tekjur greiðsluárs samkvæmt forsendum frv.

Í júlí s.l. var skipuð nefnd til að gera till. um breytingu á tekju- og eignarskattslögum þannig að ákvæði skattalaga örvuðu frekar eiginfjármyndun og fjárfestingu í atvinnulífinu. Er þess vænst að nefndin ljúki störfum á næstu vikum og í framhaldi af störfum hennar verði lagt fram frv. til breytinga á tekjuskattslögum. Meðal þeirra atriða sem nefndinni var falið að kanna og gera tillögur um var heimild atvinnufyrirtækja til stofnunar fjárfestingarsjóða er komi í stað núverandi heimildar til varasjóðsmyndunar. Framlög í fjárfestingarsjóði yrðu frádráttarbær frá tekjum og að hluta lögð inn á bundna bankareikninga. Sjóðnum væri síðan ráðstafað til fjárfestingar í atvinnufyrirtæki innan vissra tímamarka. Eru þetta hliðstæðar reglur og gilda um þetta efni víðast hvar í grannlöndum okkar. Þá var nefndinni falið að samræma skattalega meðferð arðs og hlutabréfa þeim reglum sem gilda um skattalega meðferð sparifjár og vaxta af því.

Á vegum ráðuneytisins hafa verið samin drög að frv. um virðisaukaskatt. Er þess vænst að frv. um þetta efni verði lagt fram á Alþingi nú á næstunni. Fullljóst er hins vegar, að upptaka virðisaukaskatts kostar mikinn undirbúning og þyrfti að líða a.m.k. eitt ár frá því að Atþingi samþykkti frv. um það efni þar til lögin gengju í gildi.

Með brbl. sem sett voru í sumar um breytingu á tollskrárlögunum var stigið skref í átt til lækkunar hæstu tolla á ýmsum búsáhöldum og heimilistækjum auk nokkurra matvara í samræmi við ákvörðun ríkisstj. um lækkun skatta og tolla á ýmsum nauðsynjavörum til heimilanna. Þessa ráðstöfun ber hins vegar að skoða í tengslum við áform ríkisstj. um að stefna almennt að lækkun tolla og aðflutningsgjalda og einfalda og samræma álagningu þessara gjalda og eyða uppsöfnunaráhrifum þeirra í inntendri framleiðslu.

Ríkisstj. telur óhjákvæmilegt að söðla um í tekjuöflun ríkissjóðs og að tollar verði almennt lækkaðir verulega, bæði fjáröflunar- og verndartollar, til þess að eyða þeim óæskilegu áhrifum sem núverandi skipan þessara mála hefur. Slíkt verður hins vegar ekki gert nema útgjöld ríkissjóðs verði skorin niður jafnhliða eða tekjuöflun verði komið fyrir með öðrum hætti.

Við endurskoðun tollskrárlaganna, sem nú er unnið að, er ráðgert, samhliða lækkun hæstu tolla og innbyrðis samræmingu, að einfalda tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs að öðru leyti.

Frá því að tollakerfið var einfaldað með lögum 1963 hafa ýmsir smáskattar, bæði í formi innflutningsgjalda og vörugjalda, verið teknir upp og eru þeir nú um 15 talsins. Tekjur af sumum þeirra, sem eru markaðir tekjustofnar, eru óverulegar og væri betur komið fyrir í almennara vörugjaldi, en gera mætti ráð fyrir tekjum á fjárlögum hvers árs til þeirra verkefna sem skattar þessir eru ætlaðir til.

Í samræmi við hugmyndir þessar um einföldun tollakerfisins er nú unnið að gerð frv. um tollskrá o.fl. svo og vörugjald. Er stefnt að því að frv. þessi verði lögð fram á þessu þingi, en æskilegt væri að þau gætu komið til framkvæmda um leið og virðisaukaskattur yrði tekinn upp.

Á þessu ári hófst undirbúningur að því að koma upp nýju tölvukerfi við embætti tollstjórans í Reykjavík, en gert er ráð fyrir að önnur embætti verði síðar tengd þessu kerfi. Þegar tölvukerfinu hefur verið komið fyrir ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að svonefnd tollkrít verði heimiluð vegna innflutnings á tollskyldum vörum, en tölvuvæðing tollafgreiðslu hefur verið talin forsenda fyrir upptöku tollkrítar.

Gert er ráð fyrir að heildargjöld ríkissjóðs 1984 verði 17 426 millj. kr., sem er hækkun um 34.3% frá fjárlögum 1983 og 10.0% hækkun frá endurskoðaðri útgjaldaáætlun, sem gerð var í júní s.l. Gerð er sú meginbreyting við áætlun launa, að felld er niður fjárveiting á lið fjmrn., Launa- og verðlagsmál, sem hingað til hefur verið ætluð til að mæta launahækkunum hjá einstökum stofnunum á yfirstandandi fjárhagsári. Þess í stað er nú áætlað fyrir launahækkunum á árinu 1984 á lið viðkomandi stofnana og verður að skoða launaáætlun hjá einstökum stofnunum á næsta ári í ljósi þessa.

Á árinu 1984 er reiknað með 6% veginni launahækkun frá desemberlaunum. Eins og áður hefur fram komið er gert ráð fyrir að náð verði sparnaði í heildarlaunagreiðslum er nemi 2.5% af launum. Lækka því launatölur allra stofnana um sem nemur 2.5% frá því sem annars hefði verið. Miðað við það sem hér hefur verið rakið lætur nærri að launaliður einstakra stofnana í A-hluta ríkissjóðs hækki um 47.5% frá fjárlögum 1983.

Önnur rekstrargjöld nema samtals 1 825 millj. kr., sem er hækkun um 882 millj. kr. eða 93.5% frá fjárlögum 1983. Hins vegar hækka önnur rekstrargjöld ekki nema um 255 millj. kr. eða 16.2% frá endurskoðaðri áætlun 1983. Skýring þessa mikla munar er sú, að önnur rekstrargjöld hjá stofnunum hafa að verulegu leyti verið vanáætluð á undanförnum árum þannig að til mikilla vandræða hefur horft bæði fyrir stjórnendur viðkomandi stofnana og þá sem fást við ríkisfjármálin í heild. Við áætlun á öðrum rekstrargjöldum hafa nú verið tekin upp ný og gjörbreytt vinnubrögð frá því sem áður hefur verið. Stofnunum og rn. var nú gert að áætla fyrir öðrum rekstrargjöldum á verðlagi sem gilti í maí/júní s.l. Rekstrargjöld voru síðan uppfærð með tilliti til verðlagsbreytinga fram til áramóta 1983/1984. Þá var bætt við 4% veginni hækkun á árinu 1984, en sú hækkun er í samræmi við meginforsendur frv. um verðlagsbreytingu á næsta ári.

Þessu til viðbótar var á kerfisbundinn hátt farið yfir niðurstöður ríkisreiknings árin 1981 og 1982 og athugað hve mikið fjárveitingar til annarra rekstrargjalda voru komnar úr takt við það sem útgjöldin raunverulega hafa verið.

Með þessu hefur verið leitast við að áætla raunverulegt rekstrarumfang stofnana á næsta ári út frá raunverulegum útgjöldum 1981 og 1982. Af þessu leiðir að rekstrargjöld hjá einstökum stofnunum hækka mjög mismikið og í mörgum tilfellum langt umfram áætlaða verðlagshækkun milli áranna 1983 og 1984.

Þessi breyttu vinnubrögð, sem lýst hefur verið hér að framan, leiða óhjákvæmilega til þess að krafist verður meira aðhalds í rekstri stofnana og rn. frá því sem verið hefur, þar sem ekki er nú lengur hægt að segja að önnur rekstrargjöld séu vanáætluð og úr takt við undangengna verðþróun.

Framlög til viðhalds nema samtals 404 millj. kr., sem er hækkun um 36 millj. kr. eða 11.9% frá fjárlögum 1983 og endurskoðaðri áætlun 1983. Þessi litla hækkun á viðhaldi skýrist af tvennu: Í fyrsta lagi var fjármögnun vegagerðar þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram, að öðru leyti en því er tekur til markaðra tekjustofna og ríkisframlags, enn þá óákveðin og hækkar vegaviðhald þannig aðeins um 13.5%. Í öðru lagi hefur nú verið áætlað fyrir viðhaldi sjúkrahúsa undir daggjöldum hjá Tryggingastofnun ríkisins, en var í fjárlögum 1983 áætlað sem sérstakur liður. Að þessum tveimur liðum undanskildum hækkar almennt viðhald í frv. um 136 millj. kr., sem er 47.6% hækkun frá fjárlögum 1983 og endurskoðaðri áætlun 1983.

Heildarvaxtagreiðslur ríkissjóðs á árinu 1984 eru áætlaðar 840 millj. kr. eða 130.1% hækkun frá fjárlögum 1983 og 42.4% hærri fjárhæð en endurskoðuð áætlun fyrir árið 1983 gerir ráð fyrir. Áætlun um vaxtagreiðslur ríkissjóðs byggist á meginforsendum frv. um þróun verðlags og gengis. Mestur hluti vaxtahækkunarinnar á rót sína að rekja til þess, að á þessu ári var ákveðið að lán vegna byggðalínuframkvæmda teldust til ríkissjóðslána og gjaldfærðust þar af leiðandi í A-hluta ríkissjóðs, en hafa hingað til fallið undir B-hluta frv.

Framkvæmdaframlög nema samtals 2 450 millj. kr., sem er 19.9% hækkun frá fjárlögum 1983. Þar af eru verklegar framkvæmdir samtals 1 411 millj. kr. og hækka þær um 20.4% frá fjárl. 1983. Við ákvörðun framlaga til verklegra framkvæmda hafa eftirfarandi meginforsendur verið hafðar til grundvallar: Framlög til einstakra framkvæmdaflokka hækka að jafnaði um 11.0% frá fjárlögum 1983. Á það m.a. við um framlög til grunnskóla, dagvistarheimila, sjúkrahúsa og hafnargerðar. Í raun þýða þessi framlög 9–10% samdrátt í framkvæmdum milli áranna 1983 og 1984. Fjárveitingar til þeirra framkvæmda, þar sem gerðir hafa verið bindandi verksamningar, eru við það miðaðir að unnt sé að uppfylla ákvæði þeirra.

Framlög til sjóða og lánagreiðslna eru samtals 951 millj. kr., sem er hækkun um 21.5% frá fjárlögum 1983. Varðandi framlög til sjóða hefur verið við það miðað að framlög til atvinnuvegasjóða féllu alveg niður, en framlög til annarra sjóða hækkuðu um 10 eða 20%. Framlög ríkissjóðs eru því verulega skert frá því sem gildandi lög um sjóðina kveða á um. Verður því eins og áður nauðsynlegt að leita sérstaks samþykkis Alþingis fyrir þeirri skerðingu á framlögum til sjóða sem frv. gerir ráð fyrir. Telja verður bæði nauðsynlegt og æskilegt að fram fari heildarendurskoðun á öllum lögbundnum framlögum ríkissjóðs til sjóðakerfisins í ljósi þess, að útlán sjóðanna eru nú að miklu leyti orðin verðtryggð og því ekki sama nauðsyn á framlagi frá ríkissjóði nú og var þegar lög um viðkomandi sjóði voru sett.

Mun ég nú víkja nokkrum orðum að útgjöldum einstakra rn. og nefna helstu útgjaldaflokka þar sem útgjöld breytast að raungildi frá árinu 1983.

Fjárveiting vegna starfsemi menntmrn. hækkar um 959 millj. kr. og verður samtals 2 825 millj. kr. Framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs íslenskra námsmanna verður 400 millj. kr., sem er hækkun um 76.2% frá fjárlögum 1983. Til viðbótar beinu framlagi úr ríkissjóði er gert ráð fyrir að sjóðnum verði aflað lántökuheimildar að fjárhæð 258 millj. kr.

Við áætlun á ríkisumfangi til Lánasjóðsins er við það miðað að námsmenn taki á sig svipaðar kjaraskerðingar og aðrir landsmenn hafa mátt þola. Þá er enn fremur gengið út frá að úthlutunarreglum sjóðsins verði breytt á þann veg að tekjuumreikningur námsmanna verði aukinn frá því sem verið hefur og hvetji námsmenn til að afla tekna í ríkari mæli en áður.

Fróðlegt er að bera saman framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í samanburði við framlög til ýmissa annarra liða í þessu frv. Þannig jafngildir 400 millj. kr. framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna jafnhárri fjárhæð og ríkissjóður áætlar að verja samtals á næsta ári til eftirtalinna þátta: Byggðasjóðs, Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Framkvæmdasjóðs fatlaðra, Framkvæmdasjóðs aldraðra, Erfðafjársjóðs, Iðnrekstrarsjóðs, hafnargerðar, framkvæmda á vegum ríkisspítalanna og framkvæmda á flugvöllum.

Því má einnig bæta við til samanburðar, að Háskóli Íslands fær 250 millj. kr. fjárveitingu á meðan gert er ráð fyrir að Lánasjóðurinn fái 400 millj. kr. framlag og 258 millj. kr. að láni.

Til byggingar Þjóðarbókhlöðu er gert ráð fyrir að fari 2 millj. kr., en fjárveiting á þessu ári nam samtals 15 millj. kr. Ofangreind fjárveiting er fyrst og fremst við það miðuð að unnt verði að ljúka þeim verkefnum sem staðið hafa yfir á þessu ári.

Þá er gert ráð fyrir framlagi að fjárhæð 300 þús. kr. til bókmenntaverðlauna tengdum minningu Jóns Sigurðssonar. Er máli þessu vísað til frekari meðferðar Alþingis.

Framlög vegna útgjalda utanrrn. verða 231 millj. kr., sem er hækkun um 100 millj. kr. frá fjárlögum 1983. Í samræmi við þá kjaraskerðingu sem landsmenn hafa orðið fyrir nú á síðustu mánuðum var ákveðið að lækka grunnlaun og staðaruppbót útsendra sendiráðsmanna um 9% frá því sem var í fjárlögum 1983. Er þetta m.a. gert til þess að sú rýrnun lífskjara sem þjóðin hefur mátt þola komi sem jafnast niður á alla Íslendinga, hvort sem þeir starfa hér á landi eða í þjónustu ríkisins erlendis.

Fjárveiting til málaflokka á vegum landbrn. hækkar um 57 millj. kr. og verður 630 millj. kr. Gert er ráð fyrir 40 stöðum allt árið 1984 á fjárlagatiðnum Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum, en í fjárlögum 1983 var hins vegar áætlað fyrir 36 stöðum allt árið 1983 og 4 stöðum frá 1. júlí 1983. Nettóaukning á þessum fjárlagalið samsvarar því tveimur stöðugildum.

Framlög til Landgræðslu- og landverndaráætlunar hækka um 27.5% frá fjárlögum 1983. Framlög þessi eru í samræmi við þingsályktunartillögu um landgræðslu- og landverndaráætlun fyrir árin 1982–1986, þar sem kveðið er á um árlegar fjárveitingar úr ríkissjóði til þessa verkefnis. Með ofangreindu framtagi er gert ráð fyrir að verðbætur ársins 1983 séu að fullu greiddar og að verðbætur vegna ársins 1984 komi til greiðslu á árinu 1985.

Framlag til eiginlegrar starfsemi Stofnlánadeildar landbúnaðarins fellur niður og er það í samræmi við meginforsendur frv. um að fella niður framlög til stofnlánasjóða atvinnuveganna. Hins vegar er gert ráð fyrir framlagi á þessum fjárlagalið að fjárhæð 12 millj. kr., sem er til Lífeyrissjóðs bænda til eftirlaunagreiðslna samkv. II. kafla laga um sjóðinn.

Liðurinn Jarðræktarlög, framlög verður 81 millj. kr. og er það hækkun um 10 millj. kr. frá fjárlögum 1983. Framlög á þessum fjárlagalið fylgja þeirri meginstefnu að framlög til einstakra framkvæmdaflokka hækki um sem næst 11% milli ára. Alþingi þarf sem allra fyrst að taka til endurskoðunar gildandi lög um jarðrækt. Eins og nú háttar mun ríkissjóður greiða á næsta ári jarðræktarstyrki vegna þeirra framkvæmda sem áttu sér stað á þessu ári. Með þessu fyrirkomulagi er í raun verið að binda hendur fjárveitingavaldsins þar sem það getur lítil áhrif haft á það hverjar eru raunverulegar skuldbindingar sem ríkissjóður verður að bera vegna þessa verkefnis. Eðlilegasta fyrirkomulagið væri það, að Alþingi samþykkti tiltekna fjárhæð til þessara verkefna og ákvæði þar með hvað mikið yrði gert í þessum málaflokki á viðkomandi fjárlagaári.

Tekinn er upp nýr fjárlagaliður, Jöfnunargjald, og eru áætlaðar fyrir því 12 millj. kr., sem fara til endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts af útfluttum loðdýraafurðum.

Fjárveiting til verkefna sem falla undir starfsemi á vegum sjútvrn. verður 210 millj. kr. og er það hækkun um 41 millj. kr. frá fjárlögum 1983.

Hjá Hafrannsóknastofnun verður sú breyting, að ekki er gert ráð fyrir úthaldi á rannsóknaskipinu Hafþóri á næsta ári, en jafnframt er áætlað fyrir fimm mánaða úthaldi rannsóknaskips á liðnum Annar skiparekstur. Að öðru leyti er úthald hjá skipum stofnunarinnar það sama og var í fjárlögum 1983.

Svo sem verið hefur er gert ráð fyrir að fjvn. Alþingis verði gerð grein fyrir fyrirhuguðum rannsóknaferðum á árinu 1984 svo og væntanlegri ráðstöfun fjárveitingar til svokallaðra tímabundinna verkefna.

Framlag til Fiskveiðasjóðs fellur niður í frv., en fjárveiting til sjóðsins nam tæplega 27 millj. kr. í fjárlögum 1983. Niðurfelling framlagsins er í samræmi við meginforsendu frv. hvað varðar framlag til sjóða.

Framlög til verkefna á sviði dóms- og kirkjumálarn. hækka um 289 millj. kr. og verður fjárveiting til rn. þar með 518 millj.kr.

Niður fellur stofnunin Sjómælingar Íslands, en gert er ráð fyrir að verkefni þau sem stofnunin hefur haft með höndum verði framvegis á vegum Landhelgisgæslu Íslands.

Þá er fyrirhugað að fram verði látin fara sérstök athugun á skiputagi og verklagsaðstæðum hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins, sérstaklega með tilliti til breytts fyrirkomulags á bifreiðaskoðun.

Hækkun framlaga til málaflokka félmrn. nemur samtals 204 millj. kr. og verður fjárveiting þar með samtals 696 millj. kr. Framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins og

Byggingarsjóðs verkamanna nemur samtals 400 millj. kr., sem er hækkun um 34% frá fjárlögum 1983. Tveir ofangreindir sjóðir eru einu sjóðirnir í þessu frv. þar sem gerð er undantekning frá meginstefnu frv. um framlög til sjóða. Nánari áætlun um útlán og fjármögnun þessara sjóða kemur fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1984, endar ræðst útlánsgeta sjóðanna af því fjármagni sem þeim er þar ætlað. Til viðbótar ríkisframlaginu er, eins og kemur fram síðar, gert ráð fyrir lánsfjármagni.

Framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga fellur niður í frv., en það nam tæpum 6 millj. kr. í fjárlögum 1983. Fjárveiting til málefna fatlaðra verður 188 millj. kr.

Framsetning þessa málaflokks er í frv. sem mest samræmd þeim verkefnum sem talin eru uppi í lögum nr. 41/1983 um málefni fatlaðra. Tekin er inn fjárveiting til 15 nýrra heimila fyrir fatlaða, þar af eru fjögur sem hafa áður fengið rekstrarfé sitt greitt með daggjöldum. Reiknuð stöðugildi á þessum heimilum eru í frv. samtals 331 talsins og er það fjölgun um 84 stöður, þar af eru 45 stöður vegna nýrra heimila, 5 stöður vegna fjölgunar á starfsliði hjá svæðisstjórnum og 34 stöður á heimilum sem áður voru greidd með daggjöldum.

Framlag til Bjargráðasjóðs Íslands verður tæpar 22 millj. kr., sem er hækkun um 156% frá fjárlögum 1983. Af ofangreindri fjárveitingu eru rúmlega 16 millj. kr. veittar til að greiða Bjargráðasjóði mismun á fjármagnskostnaði sem sjóðurinn verður fyrir vegna endurgreiðslu svokallaðra harðæris- og óveðurslána sem tekin hafa verið á árunum 1980 til 1982.

Útgjöld til málaflokka heilbr.- og trmrn. hækka samtals um 1 788 millj. kr. og verður fjárveiting þar með 6 734 millj. kr. Er þetta langstærsti útgjaldaþáttur frv. eða sem svarar til 38.7% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna lífeyris-, sjúkra- og slysatrygginga nema samtals 4 666 millj. kr., sem er hækkun um 1 185 millj. kr. frá fjárlögum 1983.

Helstu breytingar á framlögum til Tryggingastofnunar ríkisins umfram verðlagsforsendur frv. eru þessar: Gert er ráð fyrir 2% magnaukningu á næsta ári á lífeyristryggingum, sem stafar af fjölgun bótaþega. Hinn 1. janúar 1983 hækkaði tekjutrygging um 2.68% og heimilisuppbót um 4.5%. Grunngjöld flestra sjúkrahúsa hækkuðu um 4% 1. júní s.l., og var það gert vegna verulegs hallareksturs sjúkrahúsanna á árinu 1982. Með breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 59/1983 var ákveðið að viðhald sjúkrahúsa skuli framvegis greiða í hlutföllunum 85% af ríkissjóði og 15% af sveitarfélögum. Viðhald sjúkrahúsa er því í frv. áætlað sem hluti daggjalda á árinu 1984, en var áður á sérstökum lið heilbrrn.

Þá gerir þetta frv. ráð fyrir að náð verði 300 millj. kr. sparnaði í tryggingakerfinu og mun heilbr.- og trmrh. gera tillögur um með hvaða hætti sá sparnaður í útgjöldum næst. Þó er í megindráttum gert ráð fyrir að umræddur sparnaður náist fram á eftirtöldum liðum: Hjá lífeyristryggingum er ráðgerður sparnaður að fjárhæð 60 millj. kr. frá því sem felst í gildandi reglum. Leitað verður leiða til að ná fram sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna um allt að 150 millj. kr. Þá er að lokum gert ráð fyrir að ná fram sparnaði að upphæð 90 millj. kr. með því að endurskoða gjaldskrár fyrir lyf, læknishjálp o. fl.

Fjárveiting til verkefna á sviði fjmrn. verður samtals 753 millj. kr. og er það lækkun um 409 millj. kr. frá fjárlögum 1983. Skýring þessarar lækkunar er fyrst og fremst sú, að ekki er nú lengur áætlað fyrir launahækkunum ríkisstarfsmanna á næsta ári á lið fjmrn., heldur á fjárlagaliðum viðkomandi stofnana, eins og ég hef nefnt hér að framan.

Niður fellur liðurinn Efnahagsráðstafanir, en fjárveiting í fjárlögum 1983 nam samtals 130 millj. kr. Ekki er talin ástæða til að þessi fjárlagaliður sé í frv.

Á liðnum Ýmislegt fellur niður fjárveiting til blaðanna, en framlag nam 4 millj. kr. í gildandi fjárlögum. Því má bæta hér við að til viðbótar þeirri fjárveitingu sem ákveðin er í fjárlögum ákvað fyrrv. fjmrh. upp á sitt eindæmi í maí s.l. að veita blöðunum 3 millj. til viðbótar með aukafjárveitingu.

Þá er tekin upp nýr fjárlagaliður, sem er Skýrsluvélakostnaður vegna tekjubókhalds, og er fjárveiting til þessa verkefnis tæplega 6 millj. kr. Megintilgangur með þessu verkefni er sá að fá upplýsingar um tekjuinnheimtu og tekjuálagningu fyrr en verið hefur og auka þar með aðhald og eftirlit með þessum mikilvæga þætti ríkisfjármálanna.

Framlag til málaflokka á vegum samgrn. hækkar um 185 millj. kr. og verður heildarfjárveiting til rn. þar með 1 397 millj. kr.

Framlag til vegamála nemur samtals 949 millj. kr. Eins og gengið var frá framlögum til vegamála í frv. miðast framlagið aðeins við tekjur af mörkuðum tekjustofnum til vegamála og beinu ríkisframlagi. Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir 1984 kemur fram fyrirhuguð lánsfjáröflun til vegagerðar og er miðað við að útgjöld til vegamála á næsta ári nemi allt að 2.2% af þjóðarframleiðslu 1984.

Framlag til Skipaútgerðar ríkisins verður 25 millj. kr., sem er lækkun um tæpar 15 millj. kr. frá fjárlögum 1983. Málefni Skipaútgerðar ríkisins hafa nú að undanförnu verið í sérstakri athugun með það í huga að draga úr kostnaði landsmanna við strandferðaþjónustuna, þó þannig að haldið verði uppi jafngóðri þjónustu og verið hefur.

Framlag til rekstrardeildar Ríkisskipa fellur niður, þar sem reglur um stofnunina hafa formlega verið felldar úr gildi. Verkefni rekstrardeildarinnar færist yfir á þær stofnanir sem hún þjónaði áður, þ.e. Landhelgisgæslu, Hafrannsóknastofnun og skipaútgerð ríkisins.

Fjárveiting til málaflokka iðnrn. hækkar um 461 millj. kr. og verður samtals 922 millj. kr.

Framlag á fjárlagalið rn. Iðnaðarrannsóknir hækkar um 6 millj. kr. og verður 10 millj. kr. Gert er ráð fyrir að fé þetta fari til athugunar og könnunar á ýmsum kostum í iðnaðaruppbyggingu landsmanna, m.a. í stóriðju.

Framlag til niðurgreiðslna vegna rafhitunar hækkar um 195 millj. kr. og verður 230 millj. kr. Er hér um rúmlega sexföldun framlags að ræða frá fjárlögum 1983.

Framlag til lánagreiðslna á vegum Orkusjóðs hækkar um 94 millj. kr. og verður 170 millj. kr. Meginskýringu þessarar miklu hækkunar er einkum að rekja til verulegrar hækkunar á erlendum gjaldmiðlum, en stór hluti lánagreiðslnanna er af gengisbundnum lánum.

Fjárveiting til viðskrn. hækkar um 214 millj. kr. og verður 1 099 millj. kr., sem er hækkun um 24.2% frá fjárlögum 1983.

Niðurgreiðslur ríkissjóðs eru áætlaðar samtals að upphæð 1 010 millj. kr., sem er hækkun um 171 millj. kr. frá fjárlögum 1983, en lítils háttar lækkun miðað við spá um endanlega útkomu í ár. Af framlagi ríkissjóðs fara 46 millj. kr. til Lífeyrissjóðs bænda og 964 millj. kr. til beinna niðurgreiðslna á vöruverði.

Styrkur vegna olíunotkunar til húshitunar er í fjárlögum 1983 samtals 29 millj. kr. Í þessu frv. er fjárveiting til þessa verkefnis að fjárhæð 62 millj. kr. Hækkar framlag þannig um tæp 114% frá fjárlögum 1983.

Vaxtagjöld ríkissjóðs á árinu 1984 byggjast á þeim meginforsendum frv. um þróun viðkomandi vísitalna að því er tekur til verð- og gengistryggðra lána. Þó hefur nettóbreyting skuldastöðunnar að sjálfsögðu áhrif á vaxtaáætlunina. Heildarvaxtagreiðslur ríkissjóðs eru áætlaðar samtals 840 millj. kr. á árinu 1984, sem er hækkun um 475 millj. kr. frá fjárlögum 1983. Áætlað er að vextir af öðrum lánum en í seðlabankanum hækki um 430 millj. kr. og verði 701 millj. kr. Af þessari hækkun eru 267 millj. kr. vegna vaxta af byggðalínulánum, en á árinu 1982 var ákveðið að ríkissjóður yfirtæki greiðslur af þessum lánum frá Orkusjóði og var gengið frá yfirtökunni 1983.

Vextir af lánum í Seðlabankanum hækka um 45 millj. kr. og er öll hækkunin vegna vaxta af yfirdrætti ríkissjóðs á viðskiptareikningi hans í bankanum. Samtals verða vaxtagreiðslur til Seðlabankans 139 millj. kr. Eins og fram hefur komið varðandi horfur í ríkisfjármálum 1983 gæti halli ríkissjóðs numið allt að 1200 millj. kr. Á næstu dögum verður lagt fram frv. um viðbótarlánsfjáröflun ríkissjóðs á þessu ári. Þar sem óvíst er hve mikið lánsfé fæst á almennum markaði í ár er ekki ljóst hver endanleg yfirdráttarskuld í Seðlabankanum verður í árslok. Því er að svo stöddu ekki áætlað fyrir afborgunum eða vöxtum af þessari skuld.

Í því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu eru tekin upp ný og breytt vinnubrögð. Metið er á raunhæfan hátt umfang rekstrar miðað við haldbestu upplýsingar um hvað starfsemin raunverulega kostar. En jafnframt er beitt ströngu aðhaldi varðandi þá þætti sem lagt er til að haldi óbreyttu umfangi. Forstöðumenn ríkisstofnana og fyrirtækja verða með þessum fjárlögum gerðir ábyrgir fyrir því að halda starfsemi þeirra stofnana, sem þeir bera ábyrgð á, innan ramma fjárlaga. Forstöðumenn rn. og stofnana verða að gera sér grein fyrir að afgreiðsla Alþingis á fjárlögum segir til um það fé sem þeir hafa til ráðstöfunar og ekki mun á næsta ári þýða að koma í fjmrn. til að biðja um aukafjárveitingar.

Ríkisstj. hefur samþykkt að hjá stofnunum ríkisins verði sparað í launakostnaði um 2.5% að raungildi og í öðrum rekstrargjöldum um 5% á næsta ári. Þetta viðfangsefni verða rn. og stofnanir ríkisins að framkvæma á næsta ári. Af hálfu fjmrn. mun verða fylgst náið með framkvæmd þessara hluta, m.a. með ströngu eftirliti samfara gerð greiðsluáætlunar. Rn. mun enn fremur veita aðstoð og setja viðmiðunarreglur um starfsmannahald, sem m.a. tekur til endurráðningar og yfirvinnu. En mönnum verður að vera ljóst strax í upphafi að ábyrgðin er fyrst og fremst hjá þeim aðilum sem fara með rekstur rn. og stofnana.

Það er eitt af yfirlýstum markmiðum ríkisstj. að draga úr umsvifum ríkisvaldsins og flytja verkefni frá ríkinu til einstaklinga og sveitarfélaga. Með þessu móti er bæði hægt að draga úr skattheimtu ríkisins og jafnframt fá betri nýtingu út úr þeim fjármunum sem til þessara verkefna fara. Það hefur verið einkennandi fyrir ríkisbúskapinn undanfarin ár, að hlutfall þess sem ríkið tekur í þjóðarframleiðslunni hefur farið vaxandi.

Í ár verður í fyrsta sinn í nokkur ár breyting hér á fyrir atbeina ríkisstj. og á næsta ári er ætlunin að draga enn úr, eins og glöggt kemur fram í þessu frv. Samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að skatttekjur ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu verði 26.8% á næsta ári, en þetta hlutfall var á árinu 1982 30.2% og hefur sennilega aldrei verið hærra. Á árinu 1983 er áætlað að þetta hlutfall verði 27.6% og gætir þar áhrifa til lækkunar frá árinu á undan vegna breyttrar stefnu þessarar ríkisstj. Hér er átt við skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslunni, en það er góður mælikvarði á hvað ríkisgeirinn er í raun fyrirferðarmikill.

Þannig hefur verið unnið að því að takmarka fyrirferð ríkisins í þjóðarframleiðslunni, en það þýðir að sjálfsögðu að svigrúm annarra aðila eykst. Með öðrum orðum, það verða meiri skattpeningar eftir hjá þeim sem greiða skattinn, ríkið sjálft tekur minna til sín. Reiknað hefur verið út að þessi minnkum á ríkisumsvifum úr rúmlega 30% í tæplega 27% þýði hvorki meira né minna en að 2.2 milljarða kr. virði í sköttum verði á næsta ári létt af heimilunum og atvinnurekstrinum.

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstj. er kveðið skýrt á um að draga beri úr umsvifum ríkisins og flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga og/eða annarra aðila í þjóðfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar, að ríkið hafi tekið að sér ýmis verkefni að óþörfu. Slíkt hefur m.a. gerst vegna pólitískra áhrifa þeirra afla í þjóðfélaginu sem vilja aukin afskipti hins opinbera á sem flestum sviðum mannlífsins. Enn fremur er jafnframt ljóst að slíkt hefur sumpart gerst fyrir tilviljun og án fyrir fram markaðrar stefnu.

Þátttaka ríkisins í atvinnurekstri landsmanna, ef hún er í beinni samkeppni við einkaaðila eða félög þeirra, á helst ekki að vera til staðar. Ríkið á ekki að grípa inn í atvinnustarfsemi með beinni þátttöku nema í algjörum undantekningartilfellum og þá aðeins að fyrir hendi séu þungvægir almenningshagsmunir. Þess hefur gætt í æ ríkara mæli á undanförnum árum að ríkið grípi inn í atvinnugreinar til að bjarga einstökum fyrirtækjum. Ég tel að slíkt sé mjög varhugavert. Slík afskipti ríkisins slæva ábyrgð þeirra aðila sem fara með atvinnustarfsemi og skapa mismunun.

Einn þáttur þess að draga úr ríkisumsvifum er að flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga í landinu. Það er stefna núverandi ríkisstj. að breyta verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og fá fram skýrari skil á milli aðila, þannig að saman fari rekstrar- og fjárhagsábyrgð og að aðilar séu ekki að vasast í sömu verkefnum á sama tíma. Samtímis verður að flytja tekjustofna frá ríkinu til sveitarfélaganna í landinu. En mikilvægasti þáttur þess að ná fram þessari kerfisbreytingu er að sveitarfélögin geri upp við sig hvort þau í raun og veru vilja taka til sín aukin verkefni frá því sem er í dag.

Veigamikil þáttur þess að gera sér grein fyrir þróun ríkisumsvifa í þjóðarbúskapnum til lengri og skemmri tíma er m.a. að Alþingi geti metið á hverjum tíma áhrif nýrrar löggjafar og þróun útgjalda og tekna ríkissjóðs samkvæmt gildandi lagaskuldbindingum. Því álít ég nauðsynlegt að vinna að gerð svonefndra langtímafjárlaga. Leggja verður ríka áherslu á að hér verði ekki um að ræða bindandi fyrirætlanir ríkisins, heldur viðmiðun sem veitir upplýsingar um stöðu ríkisins, tekjuþörf þess og útgjöld til nokkurra ára í senn. Hér er um að ræða nýtt viðfangsefni þótt hugmyndin sé þekkt og menn hafi áformað slíka áætlunargerð fyrr. Tel ég nauðsynlegt að nú verði stigið fyrsta skrefið við gerð langtímafjárlaga með það að markmiði að minnka hið opinbera umfang í þjóðarbúskapnum.

En ríkisstj. hefur hugsað sér að framfylgja stefnu sinni um minnkun ríkisumsvifa með ýmsum öðrum hætti. Þannig hafa verið kunngerð áform hennar um að selja ríkisfyrirtæki og losa ríkið við eignarhluta í ýmissi starfsemi, sem á betur heima í höndum einstaklinga eða sveitarfélaga.

Ríkisstj. hefur í undirbúningi að leggja fyrir Alþingi tillögur um þetta efni í frumvarpsformi og vænti ég þess að um það mál náist góð samstaða. Allir sanngjarnir menn hljóta að viðurkenna að á þessu sviði er full þörf umbóta. Menn mega ekki vera svo staðnaðir í afstöðu sinni til verkaskiptingar ríkis og einstaklinga, að fyrirtæki sem einhvern tíma hefur verið talið rétt að væri í eigu ríkisins eigi þar með að vera þar um alla framtíð.

En kjarni þessa máls er auðvitað sú skoðun mín og minna samherja, að ríkið eigi ekki að taka að sér verkefni sem einstaklingar, fyrirtækin eða sveitarfélögin geta sinnt, að dreifa eigi hinu efnahagslega valdi sem víðast og að betri hagnýting fjármuna fáist með þeim hætti.

Við viljum tengja saman efnahagslegar ákvarðanir og ábyrgðina á afleiðingum þeirra. Við teljum ófært að einstök fyrirtæki í eigu ríkisins geti leitað þangað í skjól og fái þar fyrirgreiðslu umfram önnur fyrirtæki í sömu starfsgrein. Við teljum óheppilegt að ríkið sé með puttana í atvinnustarfsemi sem einstaklingar eða aðrir aðilar geta sem hægast borið ábyrgð á.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir 1984 var dreift til þm. fyrr í þessari viku með ítarlegri grg. um þennan veigamikla þátt í þjóðarbúskapnum.

Við gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar var tekið mið af þeim efnahagslegu markmiðum sem ríkisstj. hefur sett sér um atvinnuöryggi, minnkandi verðbólgu og jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Höfuðvandinn við gerð áætlunarinnar að þessu sinni var að finna lausn á innlendri fjáröflun til húsbyggingarsjóða og fjármögnun vegagerðarframkvæmda, samhliða viðleitni til að sporna gegn frekari erlendri skuldasöfnun.

Við gerð fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar lá fyrir það markmið, að erlendar lántökur á árinu 1984 skyldu miðast við að hlutfall erlendra skulda af þjóðarframleiðslu hækkaði ekki. Erlendar lántökur 1984 voru því takmarkaðar við 4000 millj., miðað við meðalgengi ársins 1983, og samsvarar það u.þ.b. 4500 millj. kr. á áættuðu verðtagi 1984. Hér er um verulegan samdrátt að ræða í erlendum lántökum eða 1 750 millj. kr. frá árinu í ár og 3 650 millj. kr. frá 1982, sé miðað við áætlað gengi á næsta ári.

Fjármunamyndun 1984 er talin dragast saman um 6.3% frá fyrra ári og nema 23.4% af þjóðarframleiðslunni og er það ívið meiri samdráttur en reiknað var með í þjóðhagsáætlun. Þetta hlutfall er talið verða 25.1% árið 1983, en var 30.2% 1982. Hinu háa fjárfestingarstigi síðustu ára hefur að stórum hluta verið haldið uppi með halla á viðskiptum gagnvart útlöndum. Innlendur sparnaður sem hlutfall af þjóðarframleiðslu til fjármögnunar á fjármunamyndun er áætlaður 22.9% árið 1983, en var 20.2% árið 1982. Útlit er fyrir nær hallalaus utanríkisviðskipti, nánar tiltekið að halli verði aðeins 0.2% af þjóðarframleiðslu. Næmi því innlendur sparnaður 23.2%.

Á árinu 1984 er fjárfesting atvinnuveganna talin dragast saman um 6.2%. Samdráttur er áætlaður í byggingum og mannvirkjum hins opinbera um sem nemur 9.8%. Gert er ráð fyrir að íbúðarhúsabyggingar verði óbreyttar frá fyrra ári. Enda þótt fjármunamyndunin á næsta ári sé talin dragast saman um 6.3% í heild verður nær allur samdrátturinn í stórframkvæmdum og innfluttum skipum og flugvélum.

Mikilvægt er að hvetja til innlends sparnaðar með fýsilegum kjörum skuldabréfa og annarra sparnaðarforma í þágu brýnustu þarfa. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. segir, að „áhersla verði lögð á fjölbreyttari sparnaðarform fyrir almenning, t.d. samningsbundinn sparnað, tengdan rétti til húsnæðislána“. Í samræmi við þetta hefur farið fram undirbúningur margháttaðra fjáröflunarleiða. Áformað er að afla ríkissjóði lánsfjár með sölu verðtryggðra spariskírteina í svipuðu formi og verið hefur, en með breyttum lánskjörum ásamt með sölu gengisbundinna verðbréfa og skammtímabréfa. Á sama hátt er fyrirhugað að afla Byggingarsjóði ríkisins 200 millj. kr. með nýju sparnaðarformi.

Við gerð fjárlagafrv. voru nokkrir málaflokkar sem ekki var tekin endanleg afstaða til og þeim vísað til fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar.

Þar ber fyrst að nefna fjáröflun til vegaframkvæmda, en útgjöld til vegamála eru áformuð 2.2% af vergri þjóðarframleiðslu 1984. Þessi ráðstöfun felur í sér að lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs eykst um 480 millj. kr. frá því sem fram kemur í fjárlagafrv. og verður alls 1 620 millj. kr. Í öðru lagi var fjáröflun til húsbyggingasjóðanna á árinu 1984 vegna ákvörðunar ríkisstj. um hækkun lána til húsbyggjenda. Framlag úr ríkissjóði er samkvæmt fjárlagafrv. 400 millj. kr. Lánsfjáröflun til sjóðanna er fyrirhuguð þannig, að 690 millj. verði aflað hjá lífeyrissjóðum og 200 millj. kr. verði aflað með sérstakri útgáfu skuldabréfa, eins og þegar hefur verið getið. Auk þess er gert ráð fyrir lánsfjáröflun eins og undanfarin ár, þ.e. 45 millj. kr. af skyldusparnaðarfé ungmenna og 115 millj. kr. lántöku hjá Atvinnuleysistryggingasjóði. Alls nemur því lántaka byggingarsjóðanna 1 050 millj. kr.

Loks var endanleg afstaða um lánsfjáröflun til ýmissa orkufyrirtækja, einkum Landsvirkjunar, ófrágengin við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1984 og vísað til fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar. Sá þröngi rammi sem erlendum lántökum er settur á árinu 1984 hefur óhjákvæmilega í för með sér verulegan samdrátt í orkuframkvæmdum. Lántökur Landsvirkjunar eru áætlaðar alls 900 millj. kr., þar af 200 millj. kr. til framkvæmda við Blöndu og 700 millj. kr. til annarra framkvæmda, m.a. við Kvíslaveitur.

Þess skal getið, að þrátt fyrir þann samdrátt sem útlit er fyrir í fjármunamyndun á næsta ári þykir ekki ástæða til að óttast atvinnuleysi, ef ekki kemur til óvæntra truflana í atvinnustarfseminni í landinu. Undanfarin ár hefur ríkt umframeftirspurn á vinnumarkaðinum og má því ætla að nú stefni í átt til betra jafnvægis. Ríkisstj. leggur mikla áherslu á atvinnuöryggi og mun fylgjast vandlega með þróun vinnumarkaðarins um land allt, þannig að unnt verði að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða tímanlega ef þurfa þykir.

Herra forseti. Ég er nú kominn að lokum þessarar ræðu. Ég hef gert ítarlega grein fyrir því frv. til fjárlaga, sem nú liggur fyrir hinu háa Alþingi, svo og lánsfjáráætlun. Eins og margoft hefur komið fram, bæði í þessari ræðu, stefnuræðu forsrh. og víðar, eru blikur á lofti í fjármálum þjóðarinnar um þessar mundir. Allir landsmenn verða að taka höndum saman um að leysa þann vanda. Með frv. því, sem ég hef hér kynnt, er lagður grundvöllur að því að ríkið skerist ekki úr leik í þeim átökum.

Þetta frv. er mikið aðhaldsfrumvarp og ýmsir verða vafalaust óánægðir með það. En við því er ekkert að segja. Ég lít ekki á það sem hlutverk mitt í embætti fjmrh. að gera öllum til hæfis.

En ég hvet þm. til að taka ábyrga afstöðu til þessa frv. og gera sér glögga grein fyrir því alvarlega ástandi sem blasir við íslenska þjóðarbúinu og fjármálum íslenska ríkisins. Þjóðin á mikið undir því komið, að þm. allir fjalli um þessi mál af alvöru og ábyrgð.

Að svo mæltu, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjvn.