15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

61. mál, land í þjóðareign

Páll Pétursson:

Herra forseti. Örfá orð um þetta frv. Þetta er gamall draugur í þinginu. Eins og glögglega sést á athugasemdum við frv. þar sem rakin eru þingmál Alþfl. um eignarráð á landi er þetta einn þáttur í landbúnaðarstefnu Alþfl. sem ýtt var á flot með málafylgju Braga Sigurjónssonar í kringum 1970.

Ég þarf ekki að taka fram að ég er gjörsamlega andvígur því sjónarmiði sem Alþfl. hefur aðhyllst í þessu tiltekna atriði. Mitt sjónarmið er það að landinu sé best borgið í eign og umsjón bænda og rök mín fyrir því eru þau að ég held að þeir hafi besta þekkingu, hver á sínum bletti, og næmasta tilfinningu fyrir skynsamlegri umgengni við það. Mér er ljóst að á þessu getur verið misbrestur en að öðru jöfnu held ég að þeir sem þekkja hver sinn blett hafi fyrir honum meiri tilfinningu en þeir sem ekki þekkja og líta á þetta sem félagseign.

Hins vegar er alveg ástæðulaust fyrir bændur að amast við siðmannlegri umgengni annarra þjóðfélagsþegna um þessi lönd. Það vakir alls ekki fyrir mér. Ég tel að umgengni við landið eigi að vera allri þjóðinni frjáls og ekki megi stemma stigu við henni. Enn fremur þarf að framfylgja reglum eins og segir í 4. gr. frv. um ítölu og varnir gegn ofbeit og rányrkju, gróðurvernd og aðra náttúruvernd og veiðiskap ásamt með umgengnisrétti almennings og annað sem lýtur að afnotum lands og landgæða.

Það munu finnast ákveðin landsvæði hér sem 1. gr. frv. fjallar um. Þar segir:

„Þau landsvæði skulu teljast þjóðareign sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir.

Sama máli gegnir um vatnsréttindi, jarðhita, námuréttindi og önnur réttindi bundin eignarrétti lands, sem eignarheimildir annarra en ríkisins finnast ekki fyrir.“

Það munu finnast ákveðin landsvæði þar sem eignarréttur bændur er ekki tvímælataus. Þau af þessum landsvæðum sem eru nýtileg beitarlönd hafa verið notuð og smöluð af bændum en til eru bréf fyrir mestöllu landinu, eignarheimildir á mestöllu landinu, bænda eða upprekstrarfélaga. Hins vegar varðandi þessi fáeinu landsvæði sem ekki eru vís óyggjandi bréf um eignarrétt á — til að skera úr um eignarrétt á þeim þyrfti málaferli. Þessi málaferli yrðu vafalaust dýr og sótt af kappi á báða bóga. Það er kostnaður sem ég gæti vel ímyndað mér að við gætum sparað ríkinu okkar.

Ég held að rétt sé að nota landið og við eigum að halda áfram að lifa á gæðum landsins og hafsins í kringum það eins og þessi þjóð hefur gert. Við eigum ekki að bregða fæti fyrir að það sé gert. 1. gr. frv. er nú orðuð með siðaðri hætti en margt annað sem hefur verið sett á prent úr landbúnaðarstefnu Alþfl. í frv. flutningi hér á Alþingi og lítur raunar nokkuð sakleysislega út: „... sem eignarheimildir einstaklinga eða annarra lögaðila finnast ekki fyrir.“ Þetta er að flestra dómi, held ég, frekar sakleysislegt. Þó er skilningur flm. engan veginn sakleysislegur og ef við flettum upp á athugasemd á bls. 5 vil ég fá að lesa, með leyfi forseta:

„Í framkvæmd mundi þetta þýða að allar óbyggðir Íslands yrðu lýstar þjóðareign ásamt flestum eða öllum afréttum og hálendissvæðum. Á þeim svæðum mundi íslenska þjóðin gera tilkall til allra fasteignaréttinda, svo sem vatnsréttinda, jarðhita, námuréttinda og annarra réttinda, sem bundin eru eignarrétti lands, en beitarréttindi þau sem fylgja einstökum bújörðum, upprekstrarfélögum eða sveitarfélögum stæðu óskert svo og veiðiréttindi og allar aðrar eignarheimildir annarra en ríkisins sem sönnun er færð fyrir.“

Það er sem sagt hugmynd flm. þrátt fyrir þetta tiltölulega meinlausa orðalag í 1. gr. að sölsa undir sig allar afréttir og hálendi landsins. Ég held að ekki sé hægt að tala um þetta framferði öðruvísi en sem rán og ég vil benda þeim mönnum sem svona hugsa á að rifja upp fyrir sér boðorðin.