15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

129. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vona að ég hafi náð þeim spurningum sem til mín var beint. Það er vont að þurfa að vera á tveim stöðum í einu.

Önnur spurningin var varðandi 4. lið í brtt. þeim sem eru á þskj. 322 og ég vona að það nægi sem svar að ég er sammála túlkun 2. þm. Reykv. á þeim lið. En hin spurningin var í sambandi við framtöl öryrkja og aldraðra. Henni vil ég svara á þann veg, að það er ekki hægt að ákveða lækkun nema framtöl liggi fyrir. Á grundvelli reglugerðar nr. 798 frá 1983 er heimilt að lækka fyrirframgreiðslur, enda hafi rauntekjur á tekjuárinu lækkað um 25% eða aðrar aðstæður breyst sem réttlæta lækkunina. Umsóknareyðublöð liggja á skrifstofum skattstjóranna og þeim ber að skila með framtölum.

Á þessu stigi hef ég ekki önnur svör við fyrirspurnum hv. þm. Ég vona að þau nægi til þess að þetta mál hljóti endanlega afgreiðslu í þessari virðulegu deild í dag.