15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þá höfum við móttekið einn partinn enn af hinu undarlega afkomudæmi íslenska ríkissjóðsins. Við erum búin að fjalla um fjárlög, nú erum við að fjalla um lánsfjárlög, síðan munum við væntanlega fjalla um aukafjárveitingar og einstök frv. eru til umr. um lántökur. Svo höfum við óljósar yfirlýsingar um skuldbreytingar, þ.e. skuldbreytingar í sjávarútvegi, þ.e. skuldbreytingar í landbúnaði. Einhvern veginn hvarflar að manni að þó að menn nefni nú ákveðnar tölur, ef ég man rétt 1388 millj. skuldaaukningu sem reiknað er með að þessu sinni, viti menn raunar ekki neitt í hvað er verið að sigla. Ég held að það væri óvitlaust að einhver gerði tillögur um heilsteyptari umfjöllun á þessum málum.

En ef við víkjum nánar að frv. til lánsfjárlaga er eitt sem vekur athygli og það er að augljóst er að gert er ráð fyrir talsverðri innlendri lánsfjáröflun á þessu ári og eins og hæstv. fjmrh. orðaði það er treyst á að innlendi lánsfjármarkaðurinn bregðist vel við. Í þessu sambandi vakna ýmsar spurningar. Hvernig reiddi áættaðri lánsfjáröflun á þessum markaði af á síðasta ári? Náðist það sem til stóð? Mér býður í grun að svo hafi ekki verið. Er einhver ástæða til að ætta að það muni ganga eitthvað betur að þessu sinni, jafnvel þótt menn bjóði fjölbreyttari form og jafnvel hærri vexti? Það hvarflar að manni sá grunur að jafnvel þótt menn væru til þess fúsir að leggja fram fé ættu þeir ekki til þess aur. Það er þá einhvers staðar meira til af peningum en menn verða varir við um þessar mundir. Ég er spenntur að vita hvar þeir peningar eru til. Það væri verulega skemmtilegt að sjá þá birtast og við skulum vona það besta. En eins og ég segi: Það er uggur í brjósti mér um innlenda lánsfjáröflun. Það er líka uggur í brjósti mér vegna þess að mér virðist að ef innlend lánsfjáröflun gengur ekki eins og til er ætlast muni þeir gjalda sem síst skyldu eina ferðina enn, þ.e. þeir Íslendingar sem eru að reyna að basla við að koma yfir sig þaki. Það hefur verið ansi oft höggvið í þann knérunn. Við vitum öll hvernig ástandið er á þeim bæ og mér þykir leitt að heyra að endurskoða verði útlánastefnu ef innlend lánsfjáröflun verður af skornum skammti. Mér finnst að það verði að taka á vanda húsbyggjenda í þessu landi á einhvern annan hátt en að skera niður lán til þeirra, ef svokölluð innlend lánsfjáröflun gengur ekki eins og til er ætlast.

Annað sem ég rek augun í þegar farið er yfir þessi plögg er að gífurlegar fjárhæðir er áætlað að taka til láns vegna virkjunarframkvæmda fyrir Landsvirkjun, 900 millj. Þar af eiga 200 millj. að fara í Blöndu. Þá spyr ég hvort menn ætli ekki að staldra við. Það hefur verið mikill umræða hér í vetur um hátt orkuverð, það hefur verið mikil umræða um peninga sem við verjum í orkuframkvæmdir og það hafa verið efasemdir um arðsemi þeirra. Spurningin er hvort þær 900 millj. sem ætlað er að verja að þessu sinni til orkuframkvæmda mættu kannske ekki bíða á meðan athugað er hvort einhvers staðar væri betra pláss fyrir þær. Hver ætlar að kaupa rafmagnið frá fyrirtækjunum sem 500 eða 600 millj. eiga að fara í á þessu ári? Að því er manni heyrist er fólkið í landinu að gefast upp á að kaupa það rafmagn og ekki virðast erlendir orkukaupendur bíða í löngum röðum. Mér sýnist því að það þurfi miklu haldbetri upplýsingar um áform og stöðu Landsvirkjunar og virkjunarframkvæmda í þessu landi áður en menn geta kyngt þessum stóra bita.

Það er talað um 400 millj. sem verði að afla vegna vaxta og afborgana af Kröflu og byggðalínum. Þessir peningar eru núna utan sviga í rafmagnsverðinu. Fróðlegt væri að vita hvað kwst., sem við erum að kikna undir, kostaði ef þessum peningum væri nú bætt við og þeir settir inn í dæmi sem þeir raunverulega eiga heim í. Mér þykir vanta illilega upplýsingar um stöðu framkvæmda við Kröflu og byggðalínur í þetta stóra dæmi.

Hérna erum við að tala um hundruð og þúsundir millj., eins og ef við tökum þessa tölu úr orkudæminu, frá Landsvirkjun, Kröflu og byggðalínum, sem dæmi: Við erum að tala þarna um einar 1200 millj. 1200 millj. koma hérna á okkar borð fylgiskjalalausar. Þetta kemur undarlega við menn þegar ekki eru liðnir tveir mánuðir frá afgreiðslu fjárlaga, þar sem menn bitust og sprengdu blóð undan nöglum sér út af örfáum þúsundatugum, við að reyna að bjarga 10 þús. hér og 10 þús. þar. Nú skal taka fyrir augun í nokkrar mínútur og afgreiða 1200 millj. í bransa sem virðist vera á hausnum í þokkabót. Mér finnst liggja við að þarna skorti lágmarks kurteisi.

Samkv. þessu frv. er reiknað með mjög verulegri skuldaaukningu. Það er reiknað með 1400 millj. kr. aukningu skulda, sem eru 2% af þjóðarframleiðslu. Við nálgumst eða erum komin yfir 60% markið, sem var þegar einhver ætlaði að segja af sér. Þrátt fyrir þá aukningu sem við höfum hér á blaði eru augljóslega ótaldir stórir póstar til viðbótar. Það er spurning hversu margir verða að segja af sér þegar þeir póstar eru allir búnir að skila sér. Ég minntist hérna á í byrjun hluti eins og skuldbreytingar í sjávarútvegi og skuldbreytingar í landbúnaði. Það eru ótalin önnur göt, eins og sjúklingaskattur sem mig minnir að hafi átt að skila 200 millj.

Það hefur farið lítið fyrir honum. Það hvarflar að manni hvort menn séu kannske hættir við að framkvæma hugmyndina og það gæti kannske farið svo að skuldir hækkuðu enn þá meir.

Að lokum vil ég segja að ég held að það hljóti að vera illt að vera málsvari fyrir þessa ríkisstj. Þetta er ríkisstj. sem lofaði því fyrir kosningar að hún ætlaði að hækka húsnæðislán til landsmanna upp í áður óþekktar upphæðir. Ef við lítum á plöggin kemur í ljós að húsnæðismálin eru einu sinni enn sett á gaddinn. Þau eiga að vera undir því komin að innlendur lánsfjármarkaður, peningar hjá fólki sem hefur ekkert að borða nema grjónagraut, geti staðið undir þeim.

Í öðru lagi lofaði ríkisstj. því að skattar yrðu lækkaðir á áður óþekktan hátt. Við vitum allir í hvaða átt skattadæmið er að fara um þessar mundir. Ef ég man rétt lofaði þessi sama stjórn því að erlendar skuldir mundu nú hætta að aukast. Þess sjást engin dæmi. Og ég spyr bara: Hvar er nú nýsköpunin, hvar er nýstefnan, nýjabrumið?