15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2893 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það vekur óneitanlega athygli að hæstv. fjmrh. er einmana hér í kvöld. Hún er fremur fáliðuð hæstv. ríkisstj. á þessum kvöldfundi þar sem Nd. ræðir lánsfjáráætlun í fyrsta sinn. Það vekur m.a. athygli að hæstv. félmrh. er ekki hér í kvöld. Á hann þó reyndar nokkuð í króganum sem verið er að tala um. Sá hæstv. ráðh. hefur greinilega ekki miklar áhyggjur af því hvaða fjármagn á að renna frá ríkissjóði til húsbyggjenda á þessu herrans ári 1984. Það kemur fram í 13. og 14. gr. lánsfjáráætlunarinnar og standa litlar 200 millj. þar fyrir hvorn lið. Nú veit ég ekki hversu grannt hæstv. fjmrh. þekkir til málefna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, en hæstv. félmrh. ætti að gera sér grein fyrir því, að sá rammi sem hér er ættaður þessum sjóðum til þeirra verkefna sem þeim ber að reyna að inna af hendi er mjög þröngur. Eins og horfir með fjármagn frá lífeyrissjóðunum, Atvinnuleysistryggingasjóði, skyldusparnaði, svo ekki sé nú minnst á þann innlenda lánsfjármarkað sem alltaf er vitnað í óskilgreint, þá er það þannig, að kunnáttumenn leyfa sér að draga í efa að sjóðirnir geti, miðað við það fjármagn sem þeim er ættað frá ríkinu á þessu ári, haldið óbreyttri framkvæmdagetu. Það verða ekki 80% til allra húsbyggjenda, sem þeir lána út frá þessum tölum, það er alveg greinilegt. Það verða ekki 50%. Og verður ekki einu sinni magalendingin fræga, 30%. Það verður ekki einu sinni þessi fræga 30% magalending, þegar 80% til allra voru orðin að 30% og þó tæplega það.

Ég vek athygli á því hvaða hlut hæstv. ríkisstj. ætlar hér að verja til málefna húsbyggjenda, sérstaklega vegna þess að af fáu gumaði hún meira í kosningunum s.l. vor en einmitt því hve það yrði nú gaman, hve það yrði nú létt og þægilegt að verða húsbyggjandi á Íslandi, aðeins ef hún fengi að ráða. Þannig fer með þær efndir. Þess vegna hefði það verið fróðlegt ef hæstv. félmrh., sem ber ábyrgð á málefnum húsbyggjenda í landinu, hefði sýnt þessari umr. þá lágmarksvirðingu að vera hér til svara fyrir þá liði.

Ég vil enn fremur, herra forseti mótmæla harðlega þeim niðurskurði á framlögum til Erfðafjársjóðs og Framkvæmdasjóðs fatlaðra sem fram kemur í 16. og 18. gr. frv. til lánsfjárlaga. Það er með öllu ólíðandi að þar skuli ráðist á garðinn sem síst skyldi og það er ákveðin stefna mannúðar sem kemur fram í þessu. Hér tala verkin og þau tala betur en orð, sem menn láta falla á tyllidögum, um það hverrar trúar þeir séu í þessum efnum. Hér birtist mönnum hugur hæstv. ríkisstj. til fatlaðra og aldraðra á þessu herrans ári 1984.

Að síðustu, herra forseti, vil ég svo gera aths. við 27. gr. Þar er verið að brjóta það samkomulag, sem ríkisvaldið og námsmenn gerðu sín á milli eftir margra ára samningaþóf, um það að námslán skyldu hækka í áföngum á tilteknu tímabili upp í fulla fjárþörf námsmanna. Ég tel þetta skýlaust brot á því samkomulagi. Á slíku broti hlýtur hæstv. ríkisstj. auðvitað að taka fulla ábyrgð.