15.02.1984
Neðri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér hefur ýmislegt komið fram. Heldur þótti mér hæstv. fjmrh. of viðbúinn í varnarstöðunni í byrjun ræðu sinnar vegna þess að almennum aths. mínum um vinnubrögð í sambandi við þessi mál var alls ekki beint gegn honum. Ég benti á og bendi aftur á að menn eru að reyna að ná yfir dæmi sem er í mörgum bútum. Ég nefndi að þar eru fjárlög, lánsfjárlög og aukafjárveitingar. Síðan liggja fyrir þinginu einstök frumvörp um lántökur og síðast en ekki síst eru óuppgerðar stærðir um lánamál í sjávarútvegi og landbúnaði. Þetta stendur enn. Til viðbótar stendur líka að fyrir ýmsum öðrum þáttum, eins og t.d. ófylltum götum í fjárlögum sem samþykkt voru í des. s.l., eins og 200 millj. vegna sjúklingaskatts, hefur ekki verið gerð grein.

Ég ætla ekki að gera þetta mál langt. Það kom fram í svari hæstv. fjmrh. nokkuð merkilegt sem ég held að menn ættu að taka eftir. Þar kom fram að lánsfjárþörf húsbyggjenda í þessu landi á að sinna með endurskoðun á tveggja mánaða fresti. Þannig er sú lífsþörf sem húsnæði er, eins og vatn og loft er, þeirri dauðans óvissu undiropin að menn viti ekki í dag hvað við á að taka á morgun. Það er náttúrlega ekki hægt að bjóða það nokkrum einasta manni að fjármögnun húsnæðismála sé þeirri óvissu háð. Við sjáum ekki slíka óvissu í frv. til lánsfjárlaga varðandi lánsfjáröflun til annarra þátta. Ég held að ástæða sé til að spyrja hæstv. félmrh., sem ekki hefur séð ástæðu til að vera hér í kvöld, hvort hann telji þetta viðunandi svar til húsbyggjenda í þessu landi, sem margir hverjir eiga í meiri öng en orð fá lýst.

Ég ætla ekki að gera fleiri atriði að umtalsefni hér í kvöld. Þetta mál verður væntanlega tekið til gagngerðrar skoðunar í hv. fjh.- og viðskn. En ég bendi á að ummæli hæstv. fjmrh. og vísbending hans um hvernig húsbyggjendur í þessu landi eigi að endurskoða byggingaráform sín á reglubundinn hátt á næstunni hljóta að vera fréttaefni fyrir hæstv. félmrh.